Vor við Löginn

Vor við Löginn
(Lag / texti: Birgir Björnsson / Jónbjörg S. Eyjólfsdóttir

Yfir blikandi Lagarins bárum
hvelfist bládjúpur himinn og tær
og við glitrandi síkvikum gárum
hreyfir gælandi suðlægur blær.
Og hann ber með sér blómanna angan
ilm af birki og lynggrónum hól,
allt hann vekur um vordaginn langan
sem í vetrarins armlögum kól.

Yfir Selskóg og ásana alla
fer hinn ilmríki, fagnandi blærog í Vémörk er vorið að kalla,
þar sem vinaleg bláklukka grær.
En í kjarri og runnum er kliður
fuglar kveða þar lífinu söng,
þreytir undirleik árinnar niður,
sem hér ymur í klettanna þröng.

Hér er áfengur ilmur á vori,
hér er unaður, fegurð og ró,
hérna sjá má í sérhverju spori
litla sjöstjörnu vakna í mó.
Og í skóginum gott er að ganga
eftir grænkandi, döggvaðri slóð
og að leggja þar vanga að vanga,
meðan vorblærinn yrkir sín ljóð.

[m.a. á plötunni Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar – Austfirskir staksteinar]