Hljómskálinn í Reykjavík [tónlistartengdur staður] (1922-)

Hljómskálinn árið 1925

Hljómskálinn við Tjörnina í Reykjavík gegnir stóru og mikilvægu hlutverki í íslenskri tónlistarsögu, húsið var hið fyrsta á Íslandi sem sérstaklega var byggt fyrir tónlistarstarfsemi og var reyndar eina hús sinnar tegundar allt fram undir lok 20. aldarinnar, en auk þess að gegna hlutverki æfingahúsnæðis og félagsheimilis fyrir Lúðrasveit Reykjavíkur var Tónlistarskólinn í Reykjavík þar til húsa um nokkurt skeið, Karlakórinn Fóstbræður æfði þar um tíma og þannig mætti áfram telja.

Í kringum 1920 voru tvær litlar lúðrasveitir starfandi í Reykjavík, Harpa og Gígja sem báðar bjuggu við þröngan kost í húsnæðismálum og voru beinlínis á hrakhólum í þeim efnum. Forráðamenn Hörpu voru þá farnir að huga að smíði húss mest fyrir hvatningu Sigurðar Hjörleifssonar túbuleikara, höfðu safnað nokkrum sjóðum til þess og fengið lóð við Tjörnina á stað sem áður hafði verið ruslahaugur bæjarins. Þá stóð fyrir dyrum verkefni sem sveitirnar báðar komu að en það voru tónleikar undir stjórn Þjóðverjans Otto Böttcher sumarið 1922, það verkefni þótti heppnast það vel að í kjölfarið voru lúðrasveitirnar tvær sameinaðar undir nafninu Lúðrasveit Reykjavíkur og þær hófust því handa í sameiningu að byggja húsnæðið sem var svo risið undir lok árs þótt aðeins væri það þá fokhelt, hin nýja lúðrasveit lék á gamlárskvöld á þaki hússins en það hafði einmitt verið hannað með þeim hætti svo hægt væri að leika utandyra fyrir gesti og gangandi. Áðurnefndur Sigurður var yfirsmiður við byggingu hússins sem þá hafði hlotið nafnið Hljómskálinn en Guðmundur H. Þorláksson húsameistari hafði teiknað það, lag hússins var áttstrent á tveimur hæðum með flötu þaki og gluggar neðri hæðarinnar voru með þeim hætti að hægt var að taka þá úr og opna þannig út á götu. Þar með var risið fyrsta húsið á Íslandi sérstaklega gert fyrir tónlist.

Lúðrasveit Reykjavíkur við Hljómskálann 1937

Lúðrasveitin lék nokkur lög á þaki hússins á gamlárskvöld 1922 í fjögurra gráðu frosti og viku síðar á þrettándanum kom sveitin þar aftur fram og við það tækifæri var skotið upp flugeldum. Á fyrstu áratugunum kom sveitin alloft fram á þaki Hljómskálans en reyndar mættu Reykvíkingar betur þegar sveitin lék á Austurvelli en það má e.t.v. hafa verið vegna þess að Hljómskálinn var þá nokkuð úr leið. Sveitin hefur stöku sinnum í seinni tíð leikið á þaki hússins og hér má t.a.m. nefna afmælishátíð Reykjavíkur-borgar þegar haldið var upp á 200 ára afmæli hennar sumarið 1986 og svo á Menningarnótt á síðustu árum.

Byggingu Hljómskálans var að fullu lokið 1924 en sú vinna var að mestu unnin í sjálfboðavinnu, sveitirnar tvær höfðu átt einhverja sjóði en verkið var jafnframt fjármagnað með spilamennsku á veitingahúsinu Fjallkonunni. Ekki voru allir á eitt sáttir við byggingu hússins og var t.d. Jóhannes Kjarval málari mjög á móti húsinu, þótti það mikið umhverfsslys og krafðist þess að það yrði rifið en honum þótti það skyggja á útsýnið og rjúfa fjallahringinn – þannig sást Keilir ekki fyrir húsinu frá nyrðri Tjarnarendanum.

Hljómskálinn á fjórða áratugnum

Hljómskálinn var (og er) fyrst og fremst æfingahúsnæði Lúðrasveitar Reykjavíkur, neðri hæðin er hið eiginlega félagsheimili sveitarinnar en efri hæðin gegnir hlutverki æfingasalar. Ýmis önnur tónlistartengd starfsemi hefur fylgt húsinu, einkum á fyrstu áratugunum – þannig var Tónlistarskólinn í Reykjavík með aðstöðu þar fyrstu árin eftir stofnun (1930) og svo aftur á stríðsárunum þegar breski herinn lagði undir sig Þjóðleikhúsið þegar skólinn var fluttur þangað. Þá höfðu ýmsir tónlistarhópar æfingaaðstöðu í skálanum og hér má nefna Karlakórinn Fóstbræður og Barnalúðrasveit Vesturbæjar en í gegnum tíðina hafa fjölmargar skólahljómsveitir æft í honum, hér er einnig vert að geta Hljómsveitar Reykjavíkur en Sinfóníuhljómsveit Íslands mun hafa verið stofnuð í húsinu m.a. upp úr þeirri sveit. Í seinni tíð hafa ýmis félög fengið inni í húsinu og t.d. var söngfélagið Samstilling með æfingaaðstöðu þar um tíma, en húsið hefur einnig verið vettvangur annarra uppákoma og viðburða og þar hafa t.d. verið haldnar myndlistarsýningar, AA-fundir og jafnvel tónleikar. Þess má geta að þar var starfrækt um tíma kaffihús undir nafninu Café Hljómskálinn.

Útlit Hljómskálans og nánasta umhverfi hans hefur tekið miklum stakkaskiptum frá því hann var byggður á þriðja áratug 20. aldarinnar, í upphafi stóð hann á berangri þar sem birkihríslur höfðu verið gróðursettar nokkrum árum fyrr en svæðið hafði hlotið nafnið Tjarnargarðurinn þótt hann gengi iðulega undir nafninu Lystigarðurinn, síðar var hann kallaður Hljómskálagarðurinn. Skálinn sjálfur var lengi ómálaður en það þótti mikil prýði þegar hann var loks málaður, oftast hefur hann verið hvítur á lit en þó í alls kyns litum, margsinnis hefur hann legið undir skemmdum en farið reglulega í gegnum kostnaðarsamar viðgerðir – þá hefur oft verið skipt um glugga- og gluggaumgjarðir og lengi vel var gluggaskreyting í formi nótnastrengja og nótna úr járni úr laginu Öxar við ána í gluggunum.

Hljómskálinn

Sem fyrr er getið var Hljómskálinn fyrsta húsið á Íslandi sem byggt var sérstaklega utan um tónlistarstarfsemi og þótt ótrúlegt sé frá að segja þá liðu margir áratugir þar til næsta slíka hús var reist í höfuðborginni. Fyrst var farið að ræða um tónlistarhús í kringum 1940 og hélt sú umræða áfram næstu áratugina án þess að ríki eða borg gerðu nokkuð í þeim málum, það var ekki fyrr en á níunda áratug aldarinnar sem næsta slíka hús var reist en það var þegar Tónskóli Sigursveins D. Kristinssonar var byggður í Breiðholti, Salurinn í Kópavogi var reistur undir lok aldarinnar og Karlakór Reykjavíkur byggði eigið hús um aldamótin. Eiginlegt tónlistarhús með tónleikasal í fullri stærð varð ekki til fyrr en með Hörpu árið 2011.

Hljómskálinn hefur verið eitt af táknum miðborgar Reykjavíkur í ríflega öld og árið 2017 var ytra byrði hússins friðlýst af Minjastofnun vegna menningarsögulegs gildis þess. Oft hefur komið upp umræða um að nýta húsnæðið í eitthvað annað en aðstöðu og æfingahúsnæði fyrir Lúðrasveit Reykjavíkur sem hefur verið eigandi þess frá upphafi.