Hippar í handbremsu (1994-2019)

Hippar í handbremsu

Rokksveit sem bar nafnið Hippar í handbremsu starfaði um árabil í Keflavík en starfaði líklega ekki alveg samfleytt, heimildir herma að sveitin hafi starfað að minnsta kosti frá árinu 1994 en hafi jafnvel verið stofnuð nokkuð fyrr, og að hún hafi starfað til ársins 2019 eða lengur.

Stofnandi og forsprakki Hippa í handbremsu var gítarleikarinn Ingibergur Þór Kristinsson sem hóaði saman í hljómsveitir í Keflavík á gamals aldri og var sveitin ein af þeim, aðrir meðlimir sveitarinnar voru Héðinn Waage bassaleikari, Ólafur Ásmundsson söngvari, Magnús Garðarsson trommuleikari og Stefán Jónsson gítarleikari. Sveitin starfaði með hléum en hversu löngum hléum liggur þó ekki fyrir, þeir félagar héldu sig mikið til í bílskúrnum framan af svo lítið spurðist til sveitarinnar fyrr en nokkru eftir aldamót þegar hún hóf að koma meira fram opinberlega. Mannabreytingar virðast hafa verið fáar en Ingibergur færði sig yfir á bassann þegar Héðinn bassaleikari þurfti að hætta vegna veikinda, en í hópinn bættist við annar gítarleikari að nafni Þorvarður Ólafsson sonur Ólafs söngvara.

Sveitin sendi frá sér eins konar heimabrugg, geisladisk með nokkrum lögum sem voru líklega flest eða öll eftir Ingiberg en platan bar titilinn Dark Woo man, litlar upplýsingar er að finna um þá útgáfu og er hér með óskað eftir þeim sem og öðrum upplýsingum um þessa sveit.

Sem fyrr segir liggur ekki fyrir nákvæmlega hvenær sveitin hætti en hún starfaði að minnsta kosti til 2019, Ingibergur lést árið 2022.

Efni á plötum