
Gunnar Óskarsson
Tónlistartengdu afmælisbörn Glatkistunnar eru sex í þetta skipti:
Smári Jósepsson gítarleikari eða bara Smári Tarfur er fjörutíu og níu ára gamall í dag. Tarfurinn hefur starfað með alls kyns ólíkum sveitum eins og Quarashi, Spitsign, Ylju, Belford, Porker og dúettnum Hot damn, og hefur einnig gefið út fjölda sólóplatna og m.a. efni sem hann samdi og seldi við Seljalandsfoss meðan hann lék á gítarinn úti í náttúrunni. Þá hefur hann leikið á plötum Emmsjé Gauta, Cell 7, Poetrix o.fl.
Bjarni Magnús Sigurðarson gítarleikari Mínuss er fjörutíu og fjögurra ára gamall í dag. Bjarni hefur leikið með ógrynni hljómsveita í gegnum tíðina en flestar þeirra eru í rokkaðri kantinum, hér má nefna sveitir eins og Melrakka, Mother glory, Stóns, Spitsign, Útlagahippana, The Bad habits, Tungl og Sororicide.
Tónlistarmaðurinn Magnús Jóhann (Ragnarsson) á í dag tuttugu og níu ára afmæli. Magnús Jóhann þekkja margir af nýlegu samstarfi hans við GDRN en hann á einnig sólóplötur og -feril að baki, keppti m.a. í Músíktilraunum 2016 og lenti þar í þriðja sæti auk þess að vera kjörinn besti hljómborðsleikarinn. Hann hefur jafnframt starfað með fjölda hljómsveita s.s. Prime cake, Steinunni og Electric elephant, og komið við sögu á plötum hjá fjölda tónlistarfólks.
Gítarleikarinn Pétur Valgarð Pétursson fagnar fimmtíu og eins árs afmæli í dag. Pétur hefur starfað með fjöldanum öllum af hljómsveitum í gegnum tíðina, hér má nefna sveitir eins og Ber að ofan, Darlingarnir, Húskarlar í óskilum. Lady D & the soft tones, Leynifjelagið og Espacio svo nokkrar séu nefndar en hann hefur jafnframt leikið inn á margar plötur með ýmsum listamönnum.
Guðmundur Thoroddsen (1952-96) hefði átt afmæli á þessum degi en hann var einn meðlima hljómsveitarinnar Diabolus in musica, sem gaf út tvær plötur á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Þar lék Guðmundur á hin ýmsu hljóðfæri svo sem píanó, harmonikku, slagverkshljóðfæri og klarinettu auk þess að syngja enda var hann fjölhæfur mjög.
Að síðustu er hér nefndur Gunnar Óskarsson en hann hefur oft verið kallaður fyrsta íslenska barnastjarnan. Gunnar (fæddur 1927) söng inn á þrjár 78 snúninga plötur (sem voru seldar saman í pakka) aðeins tólf ára gamall árið 1940 og var hann iðulega kallaður „Gunnar Óskarsson tólf ára“. Hann var þá yngstur allra til að syngja inn á plötur á Íslandi, hann hafði þó byrjað að syngja opinberlega nokkru fyrr. Gunnar lést 1981.














































