Gunnar Óskarsson [1] (1927-81)

Gunnar Óskarsson

Gunnar Óskarsson er líklega ein allra fyrsta barnastjarna íslenskrar tónlistar en hann vakti fyrst athygli tólf ára gamall og þá komu út þrjár tveggja laga plötur með honum. Söngferill hans á fullorðins árum varð hins vegar endasleppur.

Gunnar Óskarsson fæddist 1927 og var Reykvíkingur, það mun hafa verið frændi hans, Sigurður Þórðarson kórstjóri Karlakórs Reykjavíkur sem uppgötvaði sönghæfileika hans og leiðbeint honum í upphafi en einnig komu þeir Birgir Halldórsson og Sigurður Skagfield að þeirri kennslu. Svo virðist sem Gunnar hafi sungið sem barn í kór sem kallaður hefur verið Barnakór Karlakórs Reykjavíkur og einnig í barnakór undir stjórn Jóns Ísleifssonar.

Gunnar mun hafa komið fyrst fram árið 1939 en það var svo vorið 1940 sem hann vakti verulega athygli þegar hann söng einsöng á stórum kirkjutónleikum í Fríkirkjunni en þar komu fram auk hans Karlakór Reykjavíkur, hljómsveit Útvarpsins og drengjakór, þar söng Gunnar Ökuljóð (Áfram veginn) og Ave Maria, og hugsanlega fleiri lög.

Í kjölfarið söng Gunnar víða við nokkrar vinsældir, í nokkur skipti í barnatíma útvarpsins og einnig á hinum ýmsu söngskemmtunum, var hann gjarnan kallaður Gunnar Óskarsson 12 ára eins og hann hafði verið auglýstur í upphafi, jafnvel fram á fullorðins ár. Þrjár 78 snúninga plötur komu út með söng Gunnars árið 1940 á vegum Fálkans, við undirleik Útvarpshljómsveitarinnar og munu þær hafa verið nokkuð vinsælar enda var hann þá yngstur allra sem sungið hafði inn á plötur á Íslandi og má því með réttu kalla hann fyrstu íslensku barnastjörnuna. Plöturnar þrjár voru endurútgefnar árið 1952, þrjár saman í einhvers konar möppu.

Á unglingsárum sínum fór Gunnar í mútur og lét lítið fyrir sér fara næstu árin í sönglistinni, árið 1946 gekk hann til liðs við Karlakór Reykjavíkur þar sem hann söng tenór en 1949 fór hann til söngnáms á Ítalíu þar sem hann nam næstu árin en hann lærði þar einnig á píanó. Þegar hann kom heim 1953 hélt hann nokkra tónleika í Gamla bíói við ágætar undirtektir, hann kom einnig fram í kabarettsýningum árið 1956 og eitthvað í útvarpi en svo var eins og fjaraði undan söngferli hans og engar heimildir er að finna um opinberan söng af hans hálfu eftir 1961. Stöku sinnum hefur verið spiluð upptaka í Ríkisútvarpinu þar sem hann syngur einsöng með Pólýfónkórnum (st. 1957) en ekki liggur fyrir hvenær sú upptaka var gerð.

Gunnar sneri sér að öðrum málum, hann starfaði sem móttökustjóri á hótelum – fyrst í Keflavík en síðan lengst af við Hótel Sögu frá opnun þess og þar til hann lést árið 1981 en hann hafði þá átt við veikindi um nokkurn tíma.

Efni á plötum