Gunnar Ó. Kvaran (1946-)

Gunnar Ó. Kvaran

Harmonikkuleikarinn Gunnar Ó. Kvaran starfaði með nokkrum hljómsveitum hér fyrrum, varð síðar virkur í samfélagi harmonikkuleikara og hefur í seinni tíð sent frá sér tvær plötur með frumsömdu efni.

Gunnar Ólafur Kvaran fæddist 1946 á Ísafirði en flutti með fjölskyldu sinni suður í Hrútafjörð þar sem hann ólst að mestu upp. Þar í sveit komst hann í kynni við harmonium orgel og síðar einnig harmonikku og hóf ungur að leika með Brúartríóinu eða um fimmtán ára aldur, þá starfaði hann einnig í Hljómsveit Reykjaskóla. Á þessum árum hafði hann komist yfir saxófón og lék jafnt á hann sem orgel og harmonikku í sveitum sínum.

Þegar Gunnar fluttist suður til Reykjavíkur hélt hann áfram að leika með hljómsveitum út sjöunda áratuginn og hugsanlega lengur, hann var einn þeirra sem skipuðu hljómsveitina Erni en einnig starfrækti hann eigin sveit um tíma í Sigtúni, Hljómsveit Gunnars Kvaran og einnig Tríó Gunnars Kvaran, sem voru líkast til nokkurn veginn sama sveitin, þá lék hann um tíma í Hljómsveit Örvars Kristjánssonar. Í þeim sveitum lék hann nánast eingöngu á orgel eða hljómborð og hafði lagt harmonikkuna til hliðar í bili.

Gunnar naut einhverrar leiðsagnar í tónlist þegar hann kom til Reykjavíkur, s.s. á píanó og saxófón en það var ekk fyrr en hann varð fimmtugur þegar eiginkona hans færði honum harmonikku að gjöf að hann hóf að leika aftur á nikku og lærði þá nótnalestur og harmonikkuleik frá grunni. Í kjölfarið hófust afskipti hans af félagsmálum harmonikkuleikara og hann varð smám saman virkur á því sviði, fyrst með Félagi harmonikuunnenda í Reykjavík (FHUR) en síðan í Sambandi íslenskra harmonikuunnenda (SIHU) þar sem hann gegndi m.a. formennsku um tíma og stýrði Harmonikublaðinu. Hann hefur stundum leitt hljómsveit í eigin nafni á samkomum harmonikkuunnenda og jafnframt komið fram einn með nikkuna við ýmis tækifæri bæði innan félagsstarfsins og utan, þá hefur hann einnig leikið með SÍBS bandinu svokallaða.

Þegar Gunnar var um sextugt sendi hann frá sér plötuna Sælureitur en hún hafði að geyma þrettán lög sem flest voru eftir hann sjálfan, textarnir komu að mestu leyti frá Bjarna Jónssyni en einnig var þar að finna texta eftir ellefu ára barnabarn hans. Á plötunni söng hann og lék tónlistina að mestu leyti sjálfur.  Fimm árum síðar kom út önnur plata með lögum hans við texta Bjarna en þar var söngkonan Helga Möller honum til aðstoðar við söng og raddanir. Þessi plata bar titilinn Fantasíu en upplýsingar um þá plötu eru takmarkaðar.

Efni á plötum