
Hljómsveit Höskuldar Stefánssonar
Hljómsveit Höskuldar Stefánssonar starfaði um nokkurra ára skeið austur á Norðfirði en sveitin var eins konar afsprengi Hljómsveitar Haraldar Guðmundssonar sem þá hafði hætt störfum, Höskuldur hélt áfram með þá sveit í sínu nafni með líklega nánast sama mannskap.
Hljómsveit Höskuldar, sem reyndar einnig var stundum kölluð H.S. kvintett eða sextett (eftir skipan sveitarinnar) var stofnuð á fyrri hluta árs 1959 og hóf að leika á dansleikjum þá um sumarið og starfaði líklega nokkuð samfleytt til ársins 1963.
Sveitin hafði feikinóg að gera og lék einkum og aðallega á heimaslóðum í Neskaupstað en fór þó víða um völl um Austfirði. Meðlimir sveitarinnar voru þeir Lárus Sveinsson trompetleikari, Svavar Lárusson gítarleikari, Jón Elías Lundberg básúnuleikari, Jón Barðason Jónsson trommuleikari, Ottó Sigurðsson kontrabassaleikari og svo hljómsveitarstjórinn Höskuldur Stefánsson sem lék aðallega á harmonikku. Ekki liggur fyrir hver eða hverjir önnuðust söngþáttinn í sveitinni.


