Hljóðfærahús Reykjavíkur [útgáfufyrirtæki / annað] (1916-)

Hljóðfærahús Reykjavíkur árið 1941

Hljóðfærahús Reykjavíkur á sér sögu sem er ríflega aldar gömul en fyrirtækið var stofnað snemma á 20. öldinni og hefur alla tíð verið starfrækt sem hljóðfæraverslun en um tíma hafði það að geyma nokkrar deildir sem ekki voru allar tónlistartengdar. Ein þessara deilda var útgáfudeild en Hljóðfærahús Reykjavíkur var fyrsta útgáfufyrirtæki landsins og lengi vel það eina.

Hljóðfærahús Reykjavíkur var stofnað haustið 1916 af Önnu Friðriksson (Anna Cristensen-Hejnæs) sem var dönsk eiginkona Ólafs Friðrikssonar ritstjóra en hún stofnaði fyrirtækið til að afla heimilinu tekjur sem voru stopular hjá eiginmanni hennar, fyrir andvirði píanós sem hún seldi.

Fyrst í stað voru það dönsk píanó og harmóníum sem boðið var upp á í versluninni sem var til húsa á horni Templarasunds og Pósthússtrætis en fljótlega varð hljóðfæraúrvalið meira og einnig var þá nokkurt úrval nótna á boðstólum en fyrirtækið gaf sumar þeirra út sjálft, og litlu síðar hóf Anna að selja þar grammófónplötur og að sjálfsögðu grammófóna (plötuspilara) samhliða því – tengt því hóf Hljóðfærahús Reykjavíkur að gefa út hljómplötur í samstarfi við Columbia en fyrstu plöturnar voru með söngvaranum Einari Hjaltested. Það þarf vart að taka fram að hér var um að ræða fyrstu plötuútgáfu á Íslandi.

Haustið 1918 flutti verslunin í húsakynni Hótel Íslands að Aðalstræti 5 og enn flutti verslunin snemma árs 1920 og þá að Laugavegi 18, fleiri plötur hófu að koma út þarna í samstarfi Önnu við Polyphone og fleiri útgáfufyrirtæki sem hún hafði umboð fyrir, og í hönd fór blómlegt skeið útgáfu þar sem hver söngvarinn á fætur öðrum birtist á plötum útgáfudeildar fyrirtækisins næstu árin og áratugina. Hér má nefna óperusöngvara eins og Eggert Stefánsson, Pétur Á. Jónsson, Stefán Íslandi, Sigurð Skagfield, Maríu Markan og Dóru Sigurðsson, Sveinbjörn Sveinbjörnsson píanóleikara, gamanvísnasöngvarann Bjarna Björnsson og síðast en ekki síst Guðmund Þorsteinsson sem söng dægurlög við undirleik hljómsveitar Elo Magnussen – Guðmundur þessi var reyndar Atli Ólafsson, sonur Önnu sem söng þarna undir dulnefni. Þar var um að ræða fyrstu íslensku útgefnu dægurlögin en síðar komu út plötur á vegum útgáfunnar með Elsu Sigfúss, Engel Lund og Hallbjörgu Bjarnadóttur svo fleiri dæmi séu nefnd. Síðustu plöturnar á vegum Hljóðfærahúss Reykjavíkur komu út um miðjan sjötta áratuginn og höfðu að geyma sálmalög sungin af Þorsteini Björnssyni Fríkirkjupresti við undirleik Sigurðar Ísólfssonar orgelleikara, þessar plötur voru þær einu sem útgáfufyrirtækið gaf út ein og sér og án aðkomu Polyphone eða annarra erlendra aðila. Um það leyti voru 45 snúninga plötur að taka við af 78 snúninga plötunum sem Hljóðfærahúsið hafði gefið út eingöngu.

Hljóðfærahús Reykjavíkur 1967

Hljóðfærahús Reykjavíkur flutti í nokkur skipti, árið 1924 flutti fyrirtækið enn bækistöðvar sínar í Austurstræti 1 og um það leyti var bætt við deild sem annaðist tónleikahald og innflutning á tónlistarfólki en slíkt tónleikahald var undir merkjum Músíkklúbbsins og flutti Anna inn fjöldann allan af erlendu tónlistarfólki sem hélt tónleika í Reykjavík. Árið 1928 bætti Anna við útibúi við Veltisund en í því húsnæði voru stærri hljóðfæri seld, hún hafði um það leyti einnig fjölmarga umboðsmenn úti á landsbyggðinni s.s. á Siglufirði, Akureyri, Ísafirði og víðar.

Enn stóð fyrirtækið í flutningum og árið 1930 opnaði verslunin á Laugavegi 38 en Atli sonur Önnu tók við þeirri verslun tveimur árum síðar sem þá varð að útibúi undir nafninu Hljóðfæraverslun Austurbæjar (Atlabúð) en aðalverslunin flutti þá að Bankastræti 7. Á þriðja áratugnum hafði Anna bætt við leðurvörudeild í Hljóðfærahúsið en það kom til vegna þess að stjórnvöld höfðu þá bannað innflutning á hljóðfærum vegna kreppuástands enda töldust hljóðfæri þá óþörf munaðarvara. Sú deild naut mikilla vinsælda en Atli átti síðar eftir að taka við þeirri leðuriðju og starfrækti síðar undir nafninu Atson. Atli setti líka á stofn eins konar upptökuþjónustu innan fyrirtækisins á fyrri hluta fjórða áratugarins en hann hafði fest kaup á hljóðritunartækjum þar sem fólk gat komið inn af götunni, hljóðritað rödd sína og gengið út með hljómplötu. Þetta vakti mikla athygli og fjölmargir nýttu sér þennan möguleika, Kvæðamannafélagið Iðunn samdi m.a. við Atla um að hljóðrita um tvö hundruð stemmur með röddum félagsmanna sem varðveittar voru á um fimmtíu silfurplötum en þær upptökur komu síðar út löngu síðar (2004) á vegum Smekkleysu.

Hljóðfærahúsið við Bankastræti 7

Hljóðfærahús Reykjavíkur fann sér loks eins konar samastað í Bankastræti 7 en þar var verslunin þar til yfir lauk hjá Önnu en hún lést árið 1960 eftir að hafa átt við veikindi að stríða um nokkurn tíma. Barnabörn Önnu ráku fyrirtækið eftir andlát hennar og árið 1961 flutti það aðsetur sitt í Hafnarstræti 1 og var þar líklega þegar bræðurnir Árni og Jóhann Ragnarssynir keyptu það árið 1965. Þeir fluttu verslunina að Laugavegi 96 og þar var Hljóðfærahúsið til húsa allt þar til Skífan keypti fyrirtækið sumarið 1988. Þá var sérsvið verslunarinnar sem fyrr hljóðfæri og plötur en um miðbik tíunda áratugarins flutti hún á Grensásveg 8 og um það leyti mun hún hafa hætt að selja hljómplötur og geisladiska enda var verslunin þá komin út miðborginni í fyrsta sinn frá stofnun hennar. Hljóðfærahúsið var um tíma að Laugavegi 166 en hefur síðustu árin verið í Síðumúla 20.

Árið 2006 keyptu Lyf og heilsa og Sindri Már Heimisson Hljóðfærahús Reykjavíkur af Skífunni, og tveimur árum síðar einnig Tónabúðina á Akureyri en Hljóðfærahúsið er enn staðsett við Síðumúla og lifir þar ágætu lífi ríflega öld eftir að fyrirtækið var stofnað af Önnu Friðriksson.