Atli Ólafsson (1913-85)

Atli Ólafsson (Guðmundur Þorsteinsson)

Atli Ólafsson telst að öllum líkindum vera fyrsti dægurlagasöngvari Íslands, alltént var hann fyrstur til að syngja inn á plötu en það gerði hann undir dulnefninu Guðmundur Þorsteinsson.

Atli Ólafsson var fæddur 1913 í Kaupmannahöfn en fluttist tveggja ára gamall til Íslands, hann var sonur Ólafs Friðrikssonar ritstjóra, verkalýðsforkólfs og kunns jafnaðarmanns og Önnu Friðriksson sem var dönsk og stofnaði á sínum tíma Hljóðfærahús Reykjavíkur. Foreldrar Atla voru því töluvert þekkt í bæjarlífinu, og æskuheimili Atla að Suðurgötu 14 var m.a. vettvangur atburðar haustið 1921 sem kallaður hefur verið „hvíta stríðið“ en það er önnur saga.

Fjölskyldufyrirtækið Hljóðfærahús Reykjavíkur var öflugt í sölu á hljóðfærum og hljómplötum, og gaf reyndar út slíkar plötur lengi vel. Atli starfaði þar, hafði lokið verslunarprófi í Þýskalandi og tók árið 1932 við hluta verslunarinnar (sem gekk svo undir nafninu Atlabúð) sem innihélt m.a. leðurvörudeild og stofnaði hann síðan leðurvinnslufyrirtækið Atson upp úr henni árið 1936 og rak það fyrirtæki til dauðadags 1985 en það starfar enn.

Atli hafði keypt upptökutæki fyrir Hljóðfærahúsið sem gat á ódýran hátt tekið beint upp á silfurplötur, kvæðamannafélagið Iðunn tók tækin á leigu og fór með þau um landsbyggðina og hljóðritaði ýmsar rímur og stemmur á slíkar plötur sem varð til að varðveita þess konar lifandi kveðskap á hljóðriti, þær voru síðan gefnar út löngu síðar í veglegri útgáfu. Hver sem var gat raunar komið af götunni og hljóðritað á slíkar silfurplötur.

En Atli gerði meira en að eiga þátt í að varðveita íslenskan rímnakveðskap, hann varð einnig fyrsti dægurlagasöngvarinn hér á landi sem gaf út plötur, tvær talsins árið 1936. Pétur Á. Jónsson og Sigurður Skagfield höfðu reyndar áður sungið dægurlög inn á plötur hér á landi en þeir voru óperusöngvarar í grunninn. Eins og vænta mátti gaf Hljóðfærahúsið út plöturnar en Atli hafði ákveðið að gefa þær út undir dulnefninu Guðmundur Þorsteinsson, þær höfðu verið teknar upp í Kaupmannahöfn og hljómsveit undir stjórn Elo Magnussen annaðist undirleikinn. Um var að ræða fjögur lög, Nú veit ég, Top hat, Rio bamba og Lágnætti en ekki finnast neinar heimildir um hvernig móttökur plöturnar fengu.

Efni á plötum