Hljóðfæraverzlun Sigríðar Helgadóttur [útgáfufyrirtæki / annað] (1938-77)

Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur

Sigríður Helgadóttir starfrækti hljóðfæraverslun í eigin nafni um árabil og um tíma einnig útgáfufyrirtæki undir sama merki (HSH), eftir andlát hennar tók sonur hennar Helgi K. Hjálmsson við rekstri fyrirtækisins og rak það í yfir tuttugu ár.

Sigríður Helgadóttir var ekkja og hafði komið frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur þar sem hún lét fljótlega að sér kveða, fyrst með hattabúð sem hún keypti af Margréti Leví árið 1935 og svo þegar hún keypti Hljóðfæraverslun Katrínar Viðar við Lækjargötu 2 árið 1938 og rak svo undir nafninu Hljóðfæraverzlun Sigríðar Helgadóttur (Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur). Í verslun sinni hafði hún á boðstólum hvers konar hljóðfæri, nótur, plötuspilara og hljómplötur auk hattanna en árið 1944 lagði hún alla hattaverslun til hliðar til að einbeita sér að tónlistinni.

Fljótlega eftir stríð fór plötuútgáfa og -sala að blómstra á nýjan leik eftir mögur ár af völdum kreppu og styrjaldar (auk skorts hráefnis til plötugerðar) og árið 1949 gaf Sigríður út þrjár plötur með óperusöngvaranum Guðmundi Jónssyni í samstarfi við His Master‘s voice (HMV) sem Fálkinn hafði þá reyndar umboð fyrir en hún fékk leyfi hjá Fálkanum til samstarfs við HMV. Salan á plötunum gekk nógu vel til að framhald varð á plötuútgáfunni og tveimur árum síðar voru plötur með MA kvartettnum gefnar út einnig í samstarfi við HMV (og Fálkann), og í framhaldi af því (árið 1952) hóf Sigríður að gefa út plötur ein og sjálf undir merkjum Hljóðfæraverzlunar Sigríðar Helgadóttur (HSH).

Auglýsing frá Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur

Á næstu árum og áratugum kom út mikill fjöldi platna á vegum plötuútgáfunnar sem rekin var samhliða hljóðfæraversluninni, fyrst í stað á 78 snúninga forminu og svo eftir miðjan sjötta áratuginn á 45 snúninga plötum en fyrirtækið var fyrst plötuútgefenda hérlendis til að gefa út plötur á því formi.  Meðal listafólks sem gáfu út plötur á vegum fyrirtækisins má nefna Alfreð Clausen, Öddu Örnólfs, Stefán Íslandi, Hauk Morthens, Elly Vilhjálms, Brynjólf Jóhannesson, Ragnar Bjarnason, Ómar Ragnarsson, Smárakvartettinn o.fl. og þeirra á meðal voru plötur sem innihalda sígild dægurlög eins og Bellu símamær, Lítinn fugl, Því ekki að taka lífið létt, Sveitaball, Óli rokkari og Vegir liggja til allra átta svo aðeins fáeinir titlar séu nefndir. Nokkrir tugir smáskífna komu út undir merkjum HSH en aðeins tvær breiðskífur, Haukur Morthens – Hátíð í bæ: 20 jóla- og barnasöngvar (1964) og Rögnvaldur Sigurjónsson – Rögnvaldur Sigurjónsson, piano (1970).

Sigríður lést árið 1954 aðeins fimmtíu og eins árs gömul eftir erfið veikindi og Helgi K. Hjálmsson sonur hennar tók við rekstri fyrirtækisins og rak það næstu áratugina, fleiri meðeigendur komu að fyrirtækinu og fyrir liggur að Guðmundur Guðmundarson var einn þeirra (og framkvæmdastjóri um skeið) en ekki eru nöfn annarra slíkra þekkt.

Árið 1956 fluttist Hljóðfæraverzlun Sigríðar Helgadóttur í nýtt húsnæði við Aðalstræti sem yfirleitt er kallað Morgunblaðshúsið en á jarðhæðinni voru nokkur verslunarpláss og gekk hún undir nafninu Vesturver. Þar var HSH til húsa allt til 1977 þegar verslunin lokaði síðsumars og Fálkinn kom inn í plássið.

Eftir að HSH var lagt niður fór útgáfuréttur laga fyrirtækisins víða um völl eins og flestra útgáfufyrirtækja á þessum tíma, og hefur verið í höndum SG, Skífunnar, Öldu music og fleiri aðila.