Sigríður Helgadóttir (1903-54)

Sigríður Helgadóttir

Sigríður Helgadóttir kaupkona hafði meiri áhrif á íslenskt tónlistarlíf í marga áratugi um miðbik síðustu aldar en margur hyggur, hún rak þá hljóðfæraverslun og stundaði um tíma einnig plötuútgáfu sem síðan starfaði lengi eftir andlát hennar en hún lést aðeins liðlega fimmtug að aldri.

Sigríður fæddist vorið 1903 í Keflavík en ólst upp á Akureyri en svo mest á Ísafirði og mun hafa gengið í skóla einnig á Englandi, litlar upplýsingar er reyndar að finna um æskuár hennar og t.a.m. liggur ekkert fyrir um tónlistaruppeldi hennar. Hún flutti til Vestmannaeyja, varð þar kaupfélagsstjórafrú en þegar eiginmaður hennar lést eftir aðeins fimm ára hjónaband fór hún ásamt tveimur sonum þeirra til Reykjavíkur og bjó þar síðan.

Fljótlega eftir komuna til Reykjavíkur (1935) keypti hún Hattaverslun Margrétar Leví og árið 1938 einnig Hljóðfæraverslun Katrín Viðar sem hún sameinaði undir nafninu Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur (HSH). Verslunin var lengi starfrækt að Lækjargötu 2 og þar var einnig á boðstólum gott úrval af hljómplötum og nótum en í upphafi árs 1944 hætti hún með hattaverslunina og einbeitti sér að tónlistinni. Haustið 1955 flutti fyrirtækið sig um set og opnaði glæsilega verslun í Vesturveri á jarðhæð Aðalstrætis 6 (Morgunblaðshúsinu) sem þá var nýbyggt en þar opnuðu um svipað leyti fleiri verslanir.

Undir merkjum verslunar sinnar hóf Sigríður að gefa út hljómplötur, fyrst árið 1949 í samstarfi við Fálkann undir His Master‘s Voice merkinu en árið 1952 hófst eiginleg útgáfa Hljóðfæraverslunar Sigríðar Helgadóttur og út komu á sjöunda tug platna, mestmegnis 78 og 45 snúninga plötur en einnig tvær LP skífur, fyrirtækið varð fyrst hér á landi til að gefa út 45 snúninga plötu.

Sigríður Helgadóttir lést um páskana 1954 á fimmtugasta og öðru aldursári sínu eftir erfið veikindi en við rekstri fyrirtækis hennar tók m.a. sonur hennar, Helgi Hjálmsson en verslunin og útgáfufyrirtækið starfaði í hennar nafni allt til ársins 1977.