Sigríður G. Schiöth (1914-2008)

Sigríður G. Schiöth rúmlega tvítug

Líklega eru fáar konur sem hafa haft jafn víðtæk áhrif á tónlistarstarf á norðanverðu landinu og Sigríður G. Schiöth en hún stofnaði og stjórnaði ótal kórnum, sinnti organistastörfum, kenndi tónlist, söng sem einsöngvari (sópran) og í kórum, samdi bæði lög og texta, og sinnti margs konar tónlistartengdum verkefnum um ævi sína. Afrakstur kórstjórnunar hennar, söng eða sönglög virðist þó hvergi vera að finna á útgefnum plötum.

Sigríður Guðmundsdóttir fæddist árið 1914 á Lómatjörn í Grýtubakkahreppi við austanverðan Eyjafjörð, þar ólst hún upp við söng og tónlist þar sem foreldrar hennar voru báðir söngelskir en hún átti tíu systkini svo þröngt var í heimili. Orgel var keypt á heimilið og lærði Sigríður á það sjálf til að byrja með upp úr „Fjárlögunum“ (Íslensku söngvasafni) en naut síðar kennslu á orgel og píanó á Akureyri, hún þótti fljótlega liðtæk á orgelið og spilaði m.a. við fermingarathöfn yngsta bróður síns.

Sigríður hóf að syngja með Kantötukór Akureyrar á Akureyri undir stjórn Björgvins Guðmundssonar tónskáld og um svipað leyti fór hún suður í Héraðsskólann að Laugarvatni þar sem hún söng einnig undir stjórn Þórðar Kristleifssonar, þar var hún einnig undirleikari kórsins. Eftir námið þar fór hún aftur norður og þá hófst hinn eiginlegi söngkennslu- og kórstjórnunarferill Sigríðar, hún hóf að kenna söng við barnaskólann á Grenivík í eitt ár og stjórnaði þá einnig telpnakór við skólann auk þess sem hún stjórnaði karlakór og -kvartett á vegum íþróttafélagsins Magna á Grenivík. Eftir Grenivíkurárið flutti hún inn á Akureyri og hóf þá aftur að syngja með Kantötukórnum en einnig með Samkór Akureyrar (Abrahams-kórnum) sem Róbert A. Ottósson stjórnaði, með síðarnefnda kórnum söng Sigríður einsöng í nokkur skipti opinberlega en einnig söng hún einsöngslög við undirleik Róberts, þá mun hún einhverju sinni hafa sungið einsöng með Karlakór Akureyrar á tónleikum. Á þessum árum dvaldi Sigríður svo jafnframt í hálfan vetur á Ísafirði þar sem hún sótti húsmæðraskóla og söng hún þá með Sunnukórnum í nokkra mánuði.

Sigríður G. Schiöth

1941 fór Sigríður suður til Reykjavíkur og bjó þar og starfaði í nokkra mánuði, þar hélt samstarf hennar við Róbert A. Ottósson áfram en hann var þá einnig fluttur suður, og söng hún oft á tónleikum við undirleik hans en einnig í útvarpssal. Þegar norður var komið á nýjan leik giftist hún Helga Schiöth og þar með tók hún upp eftirnafn hans. Þau hjónin bjuggu um tíma á Akureyri og þar gekk hún enn til liðs við Kantötukórinn en var einnig áberandi í leiklistarlífinu í bænum og tók þátt í starfsemi Leikfélags Akureyri af fullum þunga.

Eftir nokkurra ára búsetu í höfuðstað Norðurlands keyptu þau hjónin jörðina Hólshús í Eyjafirði árið 1948 og þar áttu þau eftir að vera lengi, þá tók hún við organistastarfinu við Grundarkirkju og þá um leið við kirkjukórnum þar og fljótlega tók hún einnig við organista- og kórstjórnunarstarfi við Saurbæjar- og Möðruvallakirkjur og stjórnaði þá einnig fjölmörgum kórum í sveitinni, karlakór í Saurbæjarhreppi og hugsanlega öðrum kór sem kallaður var bændakór, þá stjórnaði hún telpnakór við barnaskólann í Hrafnagili en hún kenndi þar söng sem og við barnaskólann í Sólgarði. Samhliða þessu starfaði hún áfram með kantötukórnum á Akureyri.

Seint á sjöunda áratugnum réði Sigríður sig suður og hóf að kenna söng við skóla í Reykjavík og Hafnarfirði í fjóra vetur en flaug heim reglulega til að sinna skyldum sínum sem organisti og kórstjórnandi fyrir norðan. Fyrir sunnan stjórnaði hún einnig Þingeyingakórnum svokallaða og söng þá einnig í Söngsveitinni Fílharmóníu sem Róbert A. Ottósson hafði einmitt stofnað og stjórnaði nú. Sigríður tók að sér á þessum árum upplestur útvarpssagna og varð hún töluvert þekkt á þeim vettvangi.

Sigríður G. Schiöth við kórstjórn á efri árum

Að Reykjavíkur-kennsluárunum loknum kom hún aftur norður, kenndi þá m.a. við tónlistarskóla í Húnavatnssýslum og stjórnaði stórum samkór úr sýslunum (Samkór Húnaþings) á hátíðarhöldunum tengdum 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar 1974. Tveimur árum síðar (1976) tók Sigríður svo við starfi organista við Húsavíkurkirkju og samhliða því kenndi hún við tónlistarskólann á Húsavík. Því starfi gegndi hún allt til ársins 1983 en sinnti ekki öðrum störfum á meðan, að öðru leyti var hún samfleytt organisti og kórstjórnandi við fyrrnefndu kirkjurnar þrjár í Eyjafirði allt til 1994.

Þau hjónin sneru aftur til Akureyrar og þar var hún enn áberandi og öflug í menningar- og söngstarfinu, stofnaði þar Kór aldraðra á Akureyri og stjórnaði honum um árabil, stofnaði þar líka kvennakór undir lok aldarinnar sem gekk undir nafninu Ömmukórinn en hún var þá sjálf orðin háöldruð. Hún söng einnig á efri árum með Kór Akureyrarkirkju og sinnti þar jafnvel organistastörfum í afleysingum. Í raun má segja að hún hafi þjónað sönglistinni nánast fram í andlátið en hún hafði fáeinum dögum áður en hún lést (árið 2008) spilað fyrir heimilisfólkið á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri þar sem hún bjó síðustu árin, þá níutíu og fjögurra ára gömul.

Af framantöldu má sjá að Sigríður Schiöth kom víða við í söngstarfinu norðan heiða og reyndar fór svo að hún var heiðruð með ýmsum hætti fyrir starf sitt, m.a. með fálkaorðunni. En Sigríður samdi einnig tónlist sjálf og texta þótt ekki hafi það farið mjög hátt, hún samdi t.a.m. tónlist fyrir leikrit sem settu voru á svið á Akureyri. Þá fékkst hún eitthvað við þýðingar og skrifaði talsvert, m.a. í tímarit eins og Heima er best og Súluna og var um tíma formaður kirkjukórasambands Eyjafjarðar. Þess má og geta að Sigríður var meðal viðmælenda Þóris S. Guðbergssonar í einni af samtalsbókunum sem bera titilinn Lífgleði.