Sigríður Guðmundsdóttir (1931-)

Sigríður Guðmundsdóttir

Upplýsingar um Sigríði Guðmundsdóttur söngkonu er af skornum skammti en hún kom fram með fjölmörgum hljómsveitum og söng í kabarettsýningum á fimmta og sjötta áratugnum og fram á þann sjöunda.

Sigríður Theódóra Guðmundsdóttir (f. 1931) kom fyrst fram á sjónarsviðið um 1947 þegar hún var ásamt fleirum í sönghóp sem kallaðist Bláklukkur, í þeim hópi var einnig Hulda Emilsdóttir sem átti eftir að starfa töluvert með Sigríði en þær voru jafnframt skólasystur.

Sigríður söng í fjölmörgum revíum og kabarettsýningum upp úr miðjum sjötta áratugnum, m.a. í Austurbæjarbíói, og þar sungu þær Hulda oftsinnis dúetta. Hún hóf einnig að syngja með hljómsveitum, yfirleitt sveitum sem sérhæfðu sig í gömlu dönsunum og léku í Góðtemplarahúsnu við Tjörnina (Gúttó) og víðar, þetta voru sveitir eins og Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar, Hljómsveit Óskars Cortes, Hljómsveit Guðmundar Finnbjörnssonar, G.R. kvartett, Hljómsveit Árna Ísleifs og Fjórir jafnfljótir. Einnig kom Sigríður við sögu danslagakeppni SKT, og söng hennar má einnig heyra á a.m.k. tveimur plötum, annars vegar með Alfreð Clausen þar sem hún söng í félagi við aðrar söngkonur undir nafninu Tónalísur (1962), hins vegar á plötu með Guðmundi Jónssyni (1966).

Lítið sem ekkert er að finna um söngferil Sigríðar eftir miðjan sjöunda áratuginn en líklegt er að þá hafi hún lagt sönginn að mestu á hilluna því þá tók annars konar tónlist við keflinu sem sú vinsælasta, hún söng þó af því er virðist með Þjóðleikhúskórnum um tíma.

Óskað er eftir frekari upplýsingum um söngkonuna Sigríði Guðmundsdóttur.