Sigríður Hagalín (1926-92)

Sigríður Hagalín

Sigríður Hagalín er fyrst og fremst þekkt nafn í íslenskri leiklistarsögu og þar ber líklega hæst framlag hennar í kvikmyndinni Börn náttúrunnar en ekki má heldur gleyma þætti hennar í tónlistinni en hún gerði nokkur lög feikivinsæl á sínum tíma.

Sigríður Guðmundsdóttir Hagalín var dóttir Guðmundar G. Hagalín rithöfundar, fædd 1926 í Noregi en ólst að mestu upp á Ísafirði. Hún nam leiklist í Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar og Leiklistarskóla Þjóðleikhússins og átti farsælan sviðsleiklistarferil frá árinu 1945 þótt hún yrði líklega þekktust fyrir leik sinn á móti Gísla Halldórssyni í kvikmyndinni Börn náttúrunnar (1991) e. Friðrik Þór Friðriksson, sem hlaut fyrst íslenskra kvikmynda tilnefningu til Óskarsverðlauna.

Sigríður lék fjölda hlutverka hjá Þjóðleikhúsinu og Leikfélagi Reykjavíkur en hvað tónlistina áhrærir ber hæst söngur hennar annars vegar í söngleiknum Delerium Bubonis eftir Jónas og Jón Múla Árnasyni þar sem hún söng lagið Ljúflingshóll sem fyrir löngu síðan hefur orðið sígilt í meðförum hennar á plötunni Lögin úr Delerium Bubonis (1960), og hins vegar þar sem hún söng annað aðalhlutverkið í Karíusi og Baktusi (1965) á móti Helgu Valtýsdóttur en fjölmargar kynslóðir ólust upp við þá félaga og lög leikritanna beggja hafa komið út á fjölda safnplatna í gegnum tíðina.

Þá má einnig heyra söng Sigríðar á fleiri leiklistartengdum plötum s.s. Leikfélag Reykjavíkur 75 ára (1971), Leikfélag Reykjavíkur: Við byggjum leikhús (1983), Róbert bangsi í Leikfangalandi (1975), Saumastofan (1976), Síglaðir söngvarar (1973), Mjallhvít og dvergarnir sjö (1960) og Jólasveinarnir (1991).

Sigríður Hagalín hlaut fjölda verðlauna og tilnefninga fyrir framlag sitt leiklistarinnar, m.a. Silfurlampann og fálkaorðuna. Hún lést síðla árs 1992.