Sigríður Hall (1881-1954)

Sigríður Hall

Sigríður Hall var virt og vinsæl söngkona innan samfélags Vestur-Íslendinga í byrjun síðustu aldar, hún söng þó aldrei opinberlega á Íslandi.

Sigríður Anna Jónsdóttir Hördal fæddist í Dalasýslu en flutti ung að árum til Íslendingabyggða í Winnipeg í Manitoba í Kanada. Þar byrjaði hún að læra söng innan við fermingu og gat sér fljótlega gott orð fyrir sönghæfni sína. Síðar átti hún eftir að nema einnig í New York um tíma.

Sigríður giftist árið 1904 tónskáldinu og tónlistarmanninum Steingrími K. Hall og tók hún þá upp eftirnafn hans. Þau hjónin urðu mikils metin meðal samborgara sinna í Winnipeg og voru áberandi í tónlistarlífi borgarinnar, hann sem organisti, söngkennari og kórstjórnandi en hún sem söngkona sem m.a. söng margoft einsöng með kór Fyrstu lúthersku kirkju Íslendinga í Winnipeg. Í málgagni Vestur-Íslendinga í Winnipeg, Lögbergi var jafnvel svo fast kveðið að orði að þau hjónin væru „lífið og sálin í söngmálum safnaðarins um langt ára skeið“.

Sigríður hafði sungið fyrst opinberlega aðeins fjórtán ára gömul og hélt oft tónleika í heimabyggð sinni og víðar um Kanada og Bandaríkin en þau hjónin fluttu sig um set til Wynyard í Saskatchewan árið 1936 þar sem þau bjuggu síðan, hún lagði alla tíð áherslu á að syngja íslensk lög á tónleikum og var þekktust fyrir túlkun sína á laginu Hið deyjandi barn – hún söng heilmikið á skemmtunum tengdum Vestur-Íslendinum og söng einnig töluvert við jarðarfarir. Sigríður mun hafa komið í eitt skipti heim til Íslands og stóð þá til að hún myndi syngja á tónleikum en af því gat ekki orðið vegna kvefs hennar.

Sigríður Hall lést vorið 1954 á sjötugasta og þriðja aldursári.