Sigríður Vilhjálmsdóttir (1955-)

Sigríður Vilhjálmsdóttir

Óbóleikarinn Sigríður Vilhjálmsdóttir vakti töluverða athygli ung að árum fyrir færni sína á hljóðfærið, hún fór til utan framhaldsnáms í tónlistinni og hefur ekki snúið aftur.

Sigríður (Hrefna) Vilhjálmsdóttir fæddist í Reykjavík vorið 1955, dóttir Vilhjálms Guðjónssonar klariettu- og saxófónleikara og því ætti ekki að koma á óvart að hún veldi sér blásturshljóðfæri til að læra á. Hún lauk námi frá Barnamúsíkskólanum og síðan Tónlistarskólanum í Reykjavík um svipað leyti og hún lauk stúdentsprófi, þess má og geta að hún var fyrsti óbóleikarinn sem útskrifaðist úr síðar nefnda skólanum. Sigríður fór utan til London og nam þar í þrjú ár áður en hún hélt til Vestur-Berlínar og hún átti eftir að búa og starfa í Þýskalandi eftir það.

Á námsárum sínum lék hún víða um Evrópu bæði með kammersveitum og einnig með Berlínar Fílharmóníunni og að því loknu hlaut hún fastráðningu við sinfóníuhljómsveitina í Koblenz (Staatorchester Rheinische Philharmonie) og starfaði þar sem fyrsti óbóleikari fram á tíunda áratuginn, einnig lék hún með kammersveitum – m.a. Das Charlottenburger Bläserquintett sem hún átti sjálf þátt í að stofna á námsárum sínum. Sigríður kom jafnframt reglulega heim til Íslands og kom fram á tónleikum hér á landi, m.a. sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, þá kom hún fram í nokkur skipti á norrænum tónlistarhátíðum á níunda áratugnum.

Af einhverjum ástæðum er ekki að finna neinar heimildir um Sigríði eða tónlistarferil hennar eftir byrjun níunda áratugar og er því lýst eftir frekari upplýsingum um hana.