Guðrún Sigríður Friðbjörnsdóttir (1944-2007)

Guðrún Sigríður Friðbjörnsdóttir

Sópran söngkonan Guðrún Sigríður Friðbjörnsdóttir starfaði lengi á vegum kirkjukórasambandsins og söngmálastjóra og raddþjálfaði kóra víðs vegar um land, hún sendi einnig frá sér eina plötu.

Guðrún Sigríður fæddist í Vestmannaeyjum árið 1944 en ólst upp fyrstu fjögur árin í Svíþjóð áður en hún flutti aftur heim til Íslands. Lengi vel var söngur ekkert sérstaklega á dagskrá hjá henni, hún hafði reyndar lært á píanó sem barn og hún var komin fast að þrítugu þegar hún hóf söngnám hér heima, fyrst hjá Guðmundu Elíasdóttur og síðan hjá Rut Magnússon í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hún fór síðan til náms í Bretlandi, lauk þar einsöngvaraprófi og nam svo frekar í Svíþjóð og Þýskalandi en í síðasttalda landinu starfaði hún um tíma áður en hún kom aftur heim til Íslands árið 1983.

Hér heima hafði hún haldið sína fyrstu einsöngstónleika árið 1979 en sumarið 1982 fór hún í tónleikaferð um landsbyggðina ásamt Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur píanóleikara. Hún gaf síðan út einsöngsplötu árið 1986 þar sem hún naut undirleiks Paul Hamburger en platan var hljóðrituð í London, Guðrún Sigríður stóð sjálf straum af útgáfu plötunnar sem hafði að geyma tónlist úr ýmsum áttum, bæði íslenska og erlenda.

Guðrún Sigríður hætti fljótlega að mestu að koma fram og syngja en starfaði þess í stað hjá kirkjukórasambandinu og embætti söngmálastjóra við að raddþjálfa kóra um land allt, en hún fór í þeim erindum á milli byggðalaga og staldraði við í einhvern tíma á hverjum stað. Hún stjórnaði einnig um tíma Kvennakór Suðurnesja og kenndi reyndar þá einnig við tónlistarskólann í Keflavík.

Guðrún Sigríður Friðbjarnardóttir lést árið 2007 en hún var þá sextíu og þriggja ára gömul.

Efni á plötum