Guðrún Þorsteinsdóttir [1] (1911-90)

Guðrún í hlutverki sínu í Skugga-Sveini

Guðrún S. Þorsteinsdóttir messósópran-söngkona og söngkennari starfaði við tónlist alla sína tíð, framan af sem söngkona samhliða kennslu en síðar eingöngu við kennslu, hún stjórnaði einnig kórum og var Barnakór Hlíðaskóla líklega eitt hennar þekkasta afkvæmi en sá kór gaf m.a. út plötu.

Guðrún Sigríður Þorsteinsdóttir fæddist á Seyðisfirði sumarið 1911 en flutti fjögurra ára gömul til Akureyrar ásamt móður sinni og systkinum þegar faðir hennar féll frá, á Akureyri bjuggu þær framan af hjá afa hennar, Matthíasi Jochumssyni. Á Akureyri hófst líka söngferill Guðrúnar og hún söng þar t.d. einsöng á söngskemmtunum, hún var einnig um tíma í Þingvallakórnum svokallaða sem fór í fræga söngför til Danmerkur árið 1929, og sama haust hélt hún til Þýskalands í söng- og tónlistarnám og svo einnig síðar í Svíþjóð. Hún tók svo jafnframt kennarapróf hér heima og starfaði á Akureyri til að byrja með, hélt m.a. einsöngstónleika þar í bæ og svo einnig í Reykjavík þegar hún fluttist suður yfir heiðar.

Guðrún söng nokkuð opinberlega allt fram á áttunda áratuginn, hún vakti t.a.m. athygli strax árið 1935 þegar hún lék (og söng) eitt aðalhlutverkanna í Skugga-Sveini (eftir Matthías Jochumsson afa hennar) og í Dansinum í Hruna en svo söng hún einnig í nokkrum óperuuppfærslum s.s. Cavaleria rusticana, Sígaunabaróninum og Rigoletto. Guðrún söng líka einsöng í stærri verkum eins og Messías e. Händel og Jóhannesar passíu e. Bach ásamt stórum kór og hljómsveit, og á einsöngstónleikum en söngrödd hennar heyrði jafnframt margsinnis í útvarpinu.

Samhliða söngnum starfaði Guðrún einnig alla sína starfsævi sem söngkennari og kórstjórnandi, hún sinnti einkakennslu í söng (og hugsanlega einnig á píanó) og kenndi söng við ýmsa barnaskóla, t.d. Austurbæjarskóla og Laugarnesskóla og síðast en ekki síst við Hlíðaskóla þar sem hún stjórnaði kór skólans í nærri tvo áratugi, og gaf sá kór m.a. út níu laga jólaplötu með söng undir hennar stjórn. Hún stjórnaði einnig kórum í hinum skólunum tveimur. Guðrún stjórnaði um tíma Kvennakór Slysavarnafélags Íslands og hugsanlega fleiri kórum, og raddþjálfaði kóra eitthvað líka s.s. Kantötukór Akureyrar.

Guðrún lést vorið 1990 komin fast að áttræðu.