Guðni Rúnar Agnarsson (1956-)

Guðni Rúnar Agnarsson

Guðni Rúnar Agnarsson var kunnur dagskrárgerðarmaður í útvarpi og hélt utan um ýmsa þætti sem margir hverjir fjölluðu um tónlist, þekkastur þeirra var þátturinn Áfangar sem hann hafði umsjón með ásamt Ásmundi Jónssyni.

Guðni Rúnar (f. 1956) hafði lítillega verið í tónlist á unglingsárum, spilaði á gítar og hljómborð og var í hljómsveitinni Lost sem starfaði í Langholtsskóla. Hann byrjaði ásamt Ásmundi með útvarpsþáttinn Áfanga í ágúst 1975 en þeir félagar voru þá nemar í Menntaskólanum við Tjörnina. Þátturinn vakti fljótlega athygli en í honum kynntu þeir framsækna tónlist sem ekki heyrðist annars reglulega spiluð í íslensku útvarpi, tónlistarþættir í Ríkisútvarpinu fyrir ungt fólk voru þá af skornum skammti þótt segja mætti að vinsældapoppið fengi örfáar klukkustundir á viku í formi óskalagaþáttanna.

Þeir félagar kynntu til sögunnar ýmsa nýja strauma í tónlistinni og þar á meðal var nýbylgjan sem annars hefði ekki fengið neina athygli hér á landi í gegnum útvarp. Þrátt fyrir nokkrar vinsældir Áfanga (en alls voru gerðir um fjögur hundruð þættir) var þeim félögum gert að hætta með þáttinn sumarið 1983 og þá kölluðu þeir til sín fjölda tónlistarmanna, einmitt úr íslenska nýbylgjugeiranum til að halda tónleika í síðasta þættinum. Þarna komu fram bræðurnir Bubbi og Tolli Morthens, Megas og svo hálfgerður samtíningur úr ýmsum hljómsveitum þar sem þeir þótti ekki sanngjarnt að einhver ein hljómsveit hlyti athygli í þættinum umfram aðrar. Því varð úr að þessi samtíningur kom fram undir nafninu Gott kvöld en svo vel heppnaðist gjörningurinn að sveitin hélt áfram að starfa undir nafninu Kukl, vakti heilmikla athygli undir því nafni og var um leið undanfari hljómsveitarinnar Sykurmolanna. Því má segja að þeir Guðni Rúnar og Ásmundur beri nokkra ábyrgð á því að þær sveitir yrðu til.

Guðni Rúnar starfaði um tíma í kringum hljómsveitina Þey (Hilmar Örn Agnarsson meðlimur sveitarinnar er yngri bróðir hans), hélt einnig utan um tónleikahald og plötuútgáfu og starfaði þannig með ýmsum hætti við tónlistina auk þess að vera um tíma framkvæmdastjóri félagsskaparins N.E.F.S, hann var blaðamaður um tíma og var einnig ritstjóri tímaritsins Ung um miðjan níunda áratuginn. Hann átti aftur eftir að koma að dagskrárgerð í útvarpi síðar, nokkru eftir að Rás 2 tók til starfa hóf hann að starfa aftur við útvarp og sá þá um margs konar tónlistartengda þætti og allt fram á þessa öld. Hann bjó um tíma í Svíþjóð, tók prestvígslu og starfar sem prestur í dag eftir því sem best verður komist.