Guðni Þ. Guðmundsson (1948-2000)

Guðni Þ. Guðmundsson

Guðni Þ. Guðmundsson kom að íslensku tónlistarlífi með margvíslegum hætti, hann stjórnaði kórum, kenndi, spilaði með hljómsveitum en var fyrst og fremst organisti og fyrir það er hann líkast til þekktastur.

Guðni Þórarinn Guðmundsson fæddist í Vestmannaeyjum 1948 og ólst þar upp, fyrstu kynni hans af tónlist var píanónám en hann lærði á píanó sem barn. Hann eignaðist síðan trompet og lék einnig á klarinettu og var á unglingsárum sínum í lúðrasveit Gagnfræðiskólans í Vestmannaeyjum sem og í Lúðrasveit Vestmannaeyja. Hann mun á þessum árum einnig hafa leikið í fyrstu útgáfu hljómsveitarinnar Loga og þá væntanlega á hljómborð en svo mun hann jafnframt hafa stjórnað stúlknakór í gagnfræðiskólanum í Eyjum, sem hann stofnaði sjálfur.

Eftir gagnfræðipróf lá leið Guðna upp á fasta landið árið 1965 en fyrst fór hann til Englands þar sem hann ætlaði að nema ensku, þess í stað hóf hann þar að læra á píanó og þegar heim var komið gekk hann í Tónlistarskólanum í Reykjavík, var það við nám næstu árin og lauk tónmenntakennaranámi 1969. Samhliða tónlistarnámi sínu lék hann með danshljómsveitum víða um land, ekki liggja fyrir upplýsingar um hvaða sveitir það voru en meðal þeirra var að öllum líkindum Stuðlatríóið. Á þessum árum stjórnaði hann litlum skátakór í Kópavogi en ekki finnast frekari heimildir um þann kór.

Að tónlistarnáminu loknu hér heima lá leið Guðna til Danmerkur þar sem hann fór til framhaldsnáms í Kaupmannahöfn á árunum 1969 til 76 og lauk þar fyrst kantor- og síðan meistaraprófi. Á meðan námi hans í Kaupmannahöfn stóð var Guðni töluvert virkur í tónlistarlífinu ytra, lék á orgel með danshljómsveitum (m.a. á sumrin í Noregi og á norsku skemmtiferðaskipi sem sigldi m.a. til Afríku) og einnig einn síns liðs á skemmtistöðum og víðar. Meðal annarra starfa má nefna að hann var um tíma organisti í fangelsi í Kaupmannahöfn og stjórnaði þar kór fanga, einnig stjórnaði hann blönduðum kór utan fangelsismúranna.

Þegar Guðni kom heim úr námi árið 1976 var hann um eins árs skeið organisti í Langholtskirkju en frá árinu 1977 gegndi hann stöðu organista í Bústaðakirkju og gerðist þá um leið kórstjóri kirkjukórsins þar og starfaði við það til dauðadags. Og Guðni gegndi fleiri störfum þar innan kirkjunnar, hann stofnaði t.d. Bjöllukór Bústaðakirkju sem varð feikivinsæll og gaf m.a. út plötu undir stjórn hans.

Guðni gegndi fjölmörgum öðrum störfum samhliða þeim sem hann sinnti við Bústaðakirkju, hann mun m.a. hafa verið í hljómsveit Hauks Morthens um skeið, stjórnaði Samkór Kópavogs, kenndi við Tónlistarskólann í Hafnarfirði, kenndi og stjórnaði kór við Snælandsskóla í Kópavogi, var um tíma undirleikari karlakórsins Stefnis og lék einnig undir hjá sönghópnum Einn og átta. Reyndar var það svo að í minningargreinum um Guðna var gjarnan talað um að hann hefði jafnvel verið of hlaðinn störfum. Þá var hann einnig um skeið formaður FÍO (Félags íslenskra organista) og gegndi fleiri félagsstörfum í þágu tónlistarinnar. Guðni samdi jafnframt tónlist sjálfur og þó nokkuð margar útsetningar liggja eftir hann.

Leik Guðna og kórstjórn má heyra á nokkrum útgefnum plötum, m.a. með Kór Bústaðakirkju bæði sem stjórnandi og undirleikari, orgelleik hans má einnig heyra stakan á plötunni Kirkjutónar sem gefin var út og tengdist starfinu í Bústaðakirkju, fyrr er nefnd plata Bjöllukórs Bústaðakirkju en hér má einnig nefna orgelleik með Kirkjukór Lágafellssóknar, á plötunni Bræðralög sem frímúrarar gáfu út, á plötum Árna Gunnlaugssonar og Reynis Guðsteinssonar, og með hljómsveit Hauks Morthens á afmælistónleikum FÍH 1982 sem gefnir voru út á plötu.

Guðni lést sumarið 2000 en hann var þá einungis á fimmtugasta og öðru aldursári. Minningartónleikar voru haldnir um hann árið 2001.