Guðrún A. Kristinsdóttir (1930-2012)

Guðrún A. Kristinsdóttir

Guðrún A. Kristinsdóttir píanóleikari er án vafa einn þekktasti undirleikari íslenskrar tónlistarsögu en hún lék á sínum tíma undir söng flestra einsöngvara og kóra sem eitthvað kvað að, þá má píanóleik hennar heyra á fjölda útgefinna platna.

Guðrún Anna Kristinsdóttir fæddist á Akureyri árið 1930 og ólst upp þar í bæ, hún naut leiðsagnar í píanóleik fyrst hjá móður sinni og Jórunni Norðmann, flutti síðan suður til Reykjavíkur og nam í Tónlistarskólanum í Reykjavík en fór þaðan til framhaldsnáms til Kaupmannahafnar, Vínar og Bretlands, og naut fjölda styrkja í því samhengi.

Eftir nám starfaði hún um tíma erlendis, m.a. með Tívolíhljómsveitinni í Kaupmannahöfn og Sinfóníuhljómsveit Álaborgar en lék einnig heilmikið á einleikstónleikum ytra áður en hún sneri heim til Íslands þar sem hún starfaði upp frá því, sem píanóleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands þar sem hún var oft í einleikarahlutverki og sem undirleikari einsöngvara og kóra af ýmsu tagi. Þá kom hún fram sem einleikari með kammersveitum og annars konar sveitum.

Guðrún var undirleikari Karlakórs Reykjavíkur um árabil og fór með kórnum víða um heim í tónleikaferðir, bæði hér heima og t.a.m. til Bandaríkjanna, Kína og Evrópu, þá lék hún jafnframt inn á fjölda platna með kórnum og annaðist einnig raddþjálfun hjá honum. Hún var einnig undirleikari óperu- og einsöngvara eins og Guðrúnar Á. Símonar, Elísabetar Erlingsdóttur, Guðmundar Jónssonar, Rutar L. Magnússon, Kristjáns Jóhannssonar, Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur, Sigurðar Björnssonar og fjölda annarra bæði á tónleikum og í útvarpi og sjónvarpi, hún var um tíma í starfi sem píanóleikari Ríkisútvarpsins og kom fram sem slíkur í útvarps- og sjónvarpsþáttum með fjölmörgum listamönnum, bæði einstaklingum og kórum.

Guðrún kenndi lengi píanóleik og söng við Söngskólann í Reykjavík, Tónlistarskólann í Reykjavík og Tónlistarskóla Kópavogs, og þegar hún flutti aftur norður á heimaslóðir á Akureyri árið 1987 hóf hún að kenna þar við tónlistarskólann. Nyrðra sá hún einnig um að raddþjálfa kóra og annast undirleik kóra við tónleikahald ýmis konar.

Píanóleik Guðrúnar má heyra á fjölda útgefinna platna þótt aldrei hafi hún sjálf sent frá sér plötu, meðal kóra sem hún hefur leikið á plötum með má nefna Karlakór Reykjavíkur, Karlakórinn Svani, Kvennakórinn Lissý og Söngfélagið Gígjuna en meðal einsöngvara eru hér nefnd Ingibjartur Bjarnason, Jóhann Konráðsson, Þuríður Pálsdóttir, Svala Nielsen, Guðrún Á. Símonar, Inga María Eyjólfsdóttir, Benedikt Benediksson og Guðmundur Jónsson, þessi upptalning gæti orðið töluvert lengri.

Guðrún A. Kristinsdóttir lést haustið 2012, á áttugasta og öðru aldursári.