Guðrún Waage (1859-98)

Guðrún Waage

Guðrún Waage var ein allra fyrsta söngkona íslenskrar tónlistarsögu, hún kom fram á tónleikum og kenndi einnig hljóðfæraslátt og söng.

Guðrún Halla Eggertsdóttir Waage fæddist 1859 og lítið er um hana vitað annað en að hún var kaupmannsdóttir, dóttir Eggerts Waage.

Guðrún var einn meðlimur Söngfélagsins Hörpu og söng með þeim á tónleikum árið 1884, og söng þá líka sjálf einsöng nokkur lög á þeim tónleikum sem voru haldnir á Hótel Íslandi. Þetta var að líkindum í fyrsta sinn sem kona söng einsöng á tónleikum hérlendis. Hún var augljóslega efnileg söngkona (sópran) því hún hlaut styrk frá landsjóði árið 1885 til að nema tónlist í Kaupmannahöfn og var það einn allra fyrsti styrkur sem veittur var til menningar og lista hér á landi.

Ekkert heyrist frá Guðrúnu fyrr en 1894 en þá hélt hún tónleika og söng einsöng, og kom þá einnig fram sem einsöngvari með Söngfélaginu 14. janúar. Þá auglýsti hún líka kennslu í söng, píanó- og gítarleik þannig að henni hefur verið margt til lista lagt í tónlistinni.

Guðrún varð ekki langlíf, hún lést eftir langvinn veikindi haustið 1898.