Sigríður Vala Haraldsdóttir (1958-2012)

Sigríður Vala Haraldsdóttir

Myndlistakonan og ljósmyndarinn Sigríður Vala Haraldsdóttir (Sigga Vala) kemur lítillega við sögu íslenskrar tónlistar en hún sendi frá sér tvö lög í eigin nafni á safnkassettu um miðjan níunda áratug síðustu aldar.

Sigríður Vala fæddist 1958 í Reykjavík, lauk námi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1986 og fluttist til Svíþjóðar þar sem hún ól manninn að mestu síðan en þar gekk hún undir nafninu Vala Valrún, hún hélt fjölmargar myndlistasýningar hér heima og í Svíþjóð og stundum í samstarfi við Tryggva G. Hansen þáverandi eiginmann hennar.

Hún var jafnframt í hljómsveit Tryggva sem gekk iðulega undir nafninu Th ok Seiðbandið og sendi reyndar frá sér eina plötu þar sem Sigríður Vala kom við sögu. Hún birtist einnig á plötu Óskar Óskarsdóttur, Draumi hjarðsveinsins sem kom út 1999. Þá átti Sigríður Vala tvö frumsamin lög á safnkassettunni Bani 1 en hún kom út árið 1984, þegar hún var enn í námi.

Sigríður Vala átti í andlegum veikindum, hafði lent í ýmsum áföllum á lífsleiðinni og lést árið 2012, fimmtíu og fjögurra ára gömul.