Sigríður Maggý Magnúsdóttir (1934-2009)

Sigríður Maggý Magnúsdóttir

Söngkonan Sigríður Maggý Magnúsdóttir (sem iðulega var nefnd Sigga Maggý) var um árabil áberandi í þeim geira tónlistarinnar sem tengdur var gömlu dönsunum, hún söng t.a.m. lengi með hljómsveit sem eiginmaður hennar, Ásgeir Sverrisson rak.

Sigga Maggý fæddist í Bolungarvík síðsumars 1934 og sleit þar barnsskónum, þar komst hún í fyrsta sinn í tæri við tónlistina þegar hún söng með nafnlausri hljómsveit á staðnum líklega einn vetur. Eftir nám við Húsmæðraskólann á Blönduósi fluttist hún til Reykjavíkur og bjó þar sem eftir var ævinnar.

Sigga Maggý söng fyrst í stað með Hljómsveit Magnúsar Randrup á höfuðborgarsvæðinu en fljótlega hóf hún að syngja með Hljómsveit Ásgeirs Sverrissonar sem síðan varð eiginmaður hennar. Sú sveit starfaði með hléum allt fram á níunda áratuginn og var þá lengst af húshljómsveit í Þórscafé og Lindarbæ og lék þar mestmegni gömlu dansana en segja má að þau hafi sérhæft sig í þeirri tegund tónlistar. Einnig söng hún um tíma með Bergmönnum eftir að hljómsveit Ásgeirs hætti störfum en Ásgeir var þar reyndar innanborðs líka.

Sigga Maggý söng með nokkrum kórum um ævina, fyrir liggur að hún söng með Óperukórnum og Þjóðleikhúskórnum og kom fram á fjölda tónleika og sýningum með þeim en einnig mun hún hafa sungið með fleiri kórum sem ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um. Þá söng hún einnig stöku sinnum einsöng á tónleikum, t.d. tónleikum tileinkuðum sönglögum Sigfúsar Halldórssonar.

Söng Siggu Maggýjar má heyra á nokkrum plötum, m.a. lítilli plötu með Hljómsveit Ásgeirs Sverrissonar en einnig söng hún bakraddir á fáeinum plötum s.s. með Hauki Morthens, Guðmundi Jónssyni og systkinunum Elly og Vilhjálmi Vilhjálms.

Sigríður Maggý lést haustið 2009, á sjötugasta og sjötta aldursári.