
Sigríður Hannesdóttir
Sigríður Hannesdóttir leikkona er líklega þekktust fyrir tvennt, annars vegar sem frægasti hrafn Íslandssögunnar en hún léði Krumma rödd sína og hreyfingar í Stundinni okkar á upphafsárum Ríkissjónvarpsins – hins vegar fyrir aðkomu sína að Brúðubílnum sem hún starfrækti ásamt fleirum um árabil. En Sigríður starfaði einnig söng- og leikkona og kom að fjölda revíu- og kabarettsýninga hér fyrrum, og hefur aukinheldur gefið út plötu með þess konar tónlist.
Sigríður fæddist vorið 1932 í Reykjavík og þar hefur hún alið manninn síðan. Hún nam við Leiklistarskóla Ævars Kvaran og skemmti þá m.a. á sumrin með leiklistarhópi um landsbyggðina en að því námi loknu lærði hún við Leiklistarskóla Þjóðleikhússins. Eftir nám sitt þar lá leið hennar til Bretlands þar sem hún bjó og starfaði í um eitt og hálft ár og varð vera hennar þar líklega til þess að hún starfaði aldrei við Þjóðleikhúsið. Hins vegar hóf hún að taka þátt í ýmsum revíu- og kabarettskemmtunum og sýningum sem haldnar voru í borginni við miklar vinsældir og þar varð hún nokkuð þekkt nafn, var þá m.a. með eftirhermur og söng gamanvísur sem hún samdi sjálf en Sigríður hefur samið fjöldann allan af slíkum textum. Eitthvað var einnig um að hún væri að skemmta börnum á þessum árum þótt ekki væri það í neinni líkingu við það sem víðar varð.

Sigríður í gervi Marlene Dietrich
Það var svo í febrúar 1967 sem Sigríður varð þekkt sem hrafninn Krummi sem birtist þá í Stundinni okkar, lífseigasta sjónvarpsþætti Íslandssögunnar, en Ríkissjónvarpið hafði þá tekið til starfa fáeinum mánuðum fyrr. Hrafninn Krummi ásamt Rannveigu Jóhannsdóttur varð landsþekktur og naut mikilla vinsælda meðal æsku þjóðarinnar, svo mikilla að lítil plata var gefin út með þeim Rannveigu og Krumma. Á þeirri plötu má m.a. heyra lagið Atti katti nóa í fyrsta sinn en Sigríður samdi þann mæta texta.
Á þessum árum var Sigríður farin að halda lítil námskeið í leikrænni tjáningu og framkomu og því átti hún eftir að halda áfram í áratugi, áherslan fór að færast meira yfir á yngri kynslóðina og hún kom eitthvað að gerð barnaefnis fyrir Ríkisútvarpið, hún lærði einnig búktal hjá Baldri Georgs Tackás og árið 1976 fór hún af stað ásamt Jóni E. Guðmundssyni (sem hún hafði starfað með í kringum Rannveigu og Krumma) og stofnaði það sem síðar hlaut nafnið Brúðubíllinn. Jón starfaði með Sigríði í um tvö ár en síðan tóku Bryndís Gunnarsdóttir og svo Helga Steffensen við og starfræktu Brúðubílinn með henni, auk fjölda annarra samstarfsmanna en Reykjavíkur borg tók síðan við rekstri hans og hefur rekið hann til þessa dag.

Sigríður að skemmta með undirleikara
Með Brúðubílnum hélt Sigríður hundruðir eða þúsundir sýninga mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu en einnig úti á landsbyggðinni og væntanlega eru fáir Íslendingar fæddir eftir 1975 sem ekki hafa séð sýningu hjá Brúðubílnum. Hann hefur jafnframt gefið út tvær plötur þar sem þær Sigríður og Helga eru í aðal hlutverkum ásamt Gústa, Lilla apa og fleirum. Þess má og einnig geta að Sigríður kemur við sögu á plötunni Ævintýri gljúfrabúanna (1994).
Sigríður hætti aldrei alveg að skemmta fullorðnu fólki og á efri árum þegar hún hafði hætt störfum fyrir Brúðubílinn tók hún aftur til við að skemmta með gamanvísum á skemmtunum en nú var markhópurinn orðinn töluvert eldri. Árið 2013 þegar hún var komin yfir áttrætt sendi hún frá sér sína fyrstu sólóplötu, Sveifla með Sigríði þar sem hún söng revíu- og gamanvísur við undirleik Sigurðar Jónssonar píanóleikara. Sigríður gaf plötuna út sjálf og líklega voru textasmíðarnar að mestu eftir hana sjálfa einnig. Þá hafði hún einnig um tíma verið skemmtanastjóri hjá Úrvali Útsýn í ferðum fyrir eldri borgara auk þess að halda úti námskeiðum í framkomu og leikrænni tjáningu sem fyrr segir. Þegar þetta er ritað hefur hún þó sest í helgan stein.