Rannveig og Krummi (1967-69)

Rannveig & Krummi1

Rannveig og Krummi

Tvíeykið Rannveig og Krummi var fyrstu kynslóð ungra sjónvarpsáhorfenda sérlega minnisstætt en þau voru góðkunningjar íslenskra barna á árunum 1967-69 og var sárt saknað lengi á eftir.

Þegar Ríkissjónvarpið hóf göngu sína haustið 1966 kom fljótlega fram krafa um vandað sjónvarpefni fyrir börn. Kallinu var svarað snarlega með þættinum Stundinni okkar, sem reyndar er löngu orðinn lífseigasti þáttur Ríkissjónvarpsins frá upphafi.

Hinrik Bjarnason var fyrsti umsjónarmaður Stundarinnar okkar sem hóf göngu sína í febrúar 1967, en þátturinn var byggður upp með íslensku efni að mestu en með erlendum innslögum í formi teiknimynda og annars efni, reyndar með litlum breytingum síðan. Þau Rannveig (Jóhannsdóttir), sem var þarna aðeins átján ára gömul, og Krummi voru með stutta leikþætti í þáttunum sem gengu út á samtöl þeirra og söngatriði. Hinrik skrifaði handritið að leikþáttunum en Sigríður Hannesdóttir (síðar kennd við Brúðubílinn) lék Krumma, sem var handbrúða unnin og stjórnað af Sigríði sjálfri.

Skemmst er frá því að segja að Rannveig og Krummi slógu samstundis í gegn og þetta fyrsta íslenska sjónvarpsefni sem sérstaklega var gert fyrir börn, varð gríðarlega vinsælt. Reyndar svo mjög að ráðin var stúlka til starfa hjá Ríkissjónvarpinu sem gerði ekki annað en að svara sendibréfum sem þeim Rannveigu og Krumma bárust, en einn mánuðinn bárust þeim á áttunda hundrað slíkra bréfa.

Rannveig og Krummi2Þar sem vinsældir þeirra Rannveigar og Krumma urðu svo mikil þótti góð hugmynd að gefa út plötu með þeim skötuhjúum, og komu þeir Hinrik og Andrés Indriðason að útgáfu hennar undir merkjum Hljómplötuútgáfunnar. Fyrir mistök var upplagið einungis þúsund eintök og þegar platan kom út í árslok 1967 seldist hún upp á mjög skömmum tíma en nýtt upplag var komið strax aftur fáeinum vikum síðar, og seldust um tvö þúsund og fimm hundruð eintök af plötunni. Erfitt hefur hins vegar verið að nálgast þessa plötu í seinni tíð enda með afbrigðum sjaldgæf.

Á plötunni var uppleggið svipað og í Stundinni okkar, þau Rannveig og Krummi spjölluðu um daginn og veginn, og sungu nokkur lög. Eina gagnrýnin sem birtist um plötuna var í Tímanum og var hún jákvæð.

Sem fyrr segir voru vinsældir þeirra Rannveigar og Krumma miklar og því kom nokkuð á óvart þegar þau hurfu skyndilega af skjánum í október 1968. Þegar leitað var skýringa kom í ljós að Hinrik Bjarnason var staddur á námskeiði á vegum Ríkissjónvarpsins erlendis en þau Rannveig og Krummi myndu birtast aftur strax eftir áramótin 1968-69. Einhver bið varð þó á því og ungir lesendur (og reyndar fullorðnir líka) sendu dagblöðunum lesendabréf og eitthvað var einnig um að Ríkissjónvarpinu bærust bréf og kvartanir yfir að þau Rannveig og Krummi væru horfin sjónum. Það var svo ekki fyrr en í mars 1969 sem þau komu aftur á sjónvarpsskjáinn og voru fram á vor en eftir það sáust þau ekki meir, flestum til mikilla vonbrigða og undrunar.

Rannveig Jóhannsdóttir hvarf af sjónarsviðinu, fluttist til Svíþjóðar en birtist aftur á sjónvarpsskjánum mörgum árum síðar er hún sá um morgunsjónvarp Ríkissjónvarpsins. Sigríður Hannesdóttir (Krummi), sem hafði áður getið sér orðs í revíuleikhúsum, sneri sér hins vegar að brúðugerð í auknum mæli og átti eftir að verða áberandi með Brúðubílinn, ásamt öðrum, og naut mikilla vinsælda á þeim velli.

Rannveig og Krummi eru hins vegar aðeins góð minning fyrstu kynslóðar íslenskra sjónvarpsbarna.

Efni á plötum