Sigfús Ólafsson (1944-2021)

Sigfús Ólafsson

Tónlistarmaðurinn og -kennarinn Sigfús Ólafsson kom víða við í ævistarfi sínu, hann lék með nokkrum ballhljómsveitum á Suðurlandi á sínum yngri árum, starfaði svo um tíma sem tónmenntakennari, kórstjórnandi og organisti, sendi frá sér plötu með frumsömdum lögum og samdi kennsluefni í tónlist svo segja má að ferill hans hafi bæði verið fjölbreyttur og farsæll.

Sigfús fæddist í Reykjavík 1944 og ólst þar upp sem og undir Eyjafjöllunum, þar lauk hann námi við Skógaskóla en í þeim skóla hófst tónlistarferill hans með skólahljómsveitinni Capella. Hann fór til Reykjavíkur að námi loknu og starfaði þar um tíma áður en hann fluttist austur á Selfoss þar sem hann átti eftir að búa og starfa síðan. Á þessum árum og samhliða námi sínu lék hann á gítar með nokkrum ballhljómsveitum á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu, Tríói Þorsteins Guðmundssonar, Hljómsveit Gissurar Geirssonar og hljómsveitini Ásum sem m.a. lék á Hótel Sögu – hann hafði lært gítarleik hjá Gunnari H. Jónssyni og Trausta Thorberg.

Sigfús hafði lokið meistaranámi í mjólkurfræðum en nam svo tónmenntir, og gerðist svo tónlistarkennari við Tónlistarskóla Árnesinga á Selfossi þar sem hann átti eftir að starfa sem slíkur í þrjá áratugi. Samhliða tónlistarkennslu stjórnaði hann einnig Kór Barnaskóla Selfoss og einnig um tíma Karlakór Selfoss, hann var einnig organisti og stjórnandi kirkjukóra við nokkrar kirkjur í hreppunum í nágrenni Selfoss, við Hraungerðis-, Laugardæla- og Villingaholtskirkjum, e.t.v. fleiri.

Kórlög Sigfúsar Ólafssonar

Sigfús sá í starfi sínu sem tónlistarkennari þörf fyrir nýtt kennsluefni og samdi því kennslubók sem hlaut nafnið Þú og hljómborðið árið 1991 sem var fyrsta kennslubók sinnar tegundar hérlendis, ári síðar kom út önnur bók, framhald hinnar fyrri en alls komu út fjórar kennslubækur eftir hann. Sigfús samdi einnig tónlist sjálfur en ekki liggja fyrir miklar upplýsingar um lagasmíðar hans aðrar en að árið 2005 hafði eiginkona hans forgöngu um að gefa út tónlist hans en hann hafði þá orðið sextugur árið á undan. Platan hlaut titilinn Ég elska þig enn og hafði að geyma fjórtán lög, en sunnlenskir tónlistarmenn önnuðust allan flutning efnisins. Flestir textanna voru eftir Vestmanneyinginn Arnar Einarsson skólastjóra. Haustið 2020 kom svo út nótnaheftið Kórlög Sigfúsar Ólafssonar en það hafði að geyma 70 kórlög eftir Sigfús, ljóð eftir hann var jafnframt að finna við átján laganna.

Sigfús lést í byrjun árs 2021, á sjötugasta og sjöunda aldursári sínu.

Efni á plötum