Hljómalind [1] [útgáfufyrirtæki / umboðsskrifstofa / annað] (1990-2003)

Hljómalindar merkið

Fyrirbærið Hljómalind var margt í senn, plötuverslun, útgáfufyrirtæki og tónleikahaldari með megin áherslu á jaðartónlist, og líklega hitti blaðamaður Morgunblaðsins naglann á höfuðið þegar hann talaði um Hljómalind sem „lífæð neðanjarðarmenningar á Íslandi“.

Maðurinn á bak við Hljómalind var Kristinn Sæmundsson sem ýmist hefur gengið undir nafninu Kiddi kanína eða Kiddi í Hljómalind, hann hafði starfað í plötubúðum og eins og Spor, Gramminu og Smekkleysu og þekkti því markaðinn býsna vel hvað framboð og þörf á jaðartónlist áhrærir en hann hafði einnig staðið í tónleikahaldi og starfað að útbreiðslu tónlistar með öðrum hætti.

Kristinn byrjaði með eins konar póstverslun undir Hljómalindarheitinu í kjallaraíbúð á Grenimelnum þar sem áhersla var lögð á tónlist sem ekki fékkst alla jafna í venjulegum plötubúðum, plötuklúbb þar sem viðskiptavinir gátu pantað og keypt plötur í gegnum plötulista sem birtust m.a. í Pressunni. Haustið 1990 var hann með plötumarkað í porti við Hlaðvarpann við Vesturgötu sem gekk nógu vel til að Kristinn hóf að selja plötur í Kolaportinu um sumarið 1991, og sama haust opnaði hann plötubúðina Hljómalind við Austurstræti 8 þar sem hann seldi plötur á virkum dögum en í Kolaportinu um helgar.

Kiddi í Hljómalind

Húsnæði Hljómalindar var afar lítið, líklega aðeins um tuttugu fermetrar en þar seldi Kristinn plötur sínar sem eins og fyrr segir höfðu að geyma jaðartónlist af ýmsu tagi, mestmegnis var um að ræða danstónlist en síðar meir varð úrvalið fjölbreyttara enda náði hann að tryggja sér umboð margra útgáfumerkja í indítónlist og bauð þar með upp á mikið úrval slíkrar tónlistar, og annaðist þá jafnframt einhverja dreifingu á þeim. Þá seldi hann einnig íslenska tónlist sem flokkast gæti undir jaðar en þó nokkuð af kassettum var t.a.m. gefið út hérlendis um það leyti, hér má nefna efni með hljómsveitum eins og Öpp jors, Vindva Mei, Bag of joys og Texas Jesús og safnkassettur útgáfufyrirtækja eins og Erðanúmúsík og Veraldarkeralda.

Umsvif Kidda og Hljómalindar urðu töluverð, hann annaðist dagskrárgerð á útvarpsstöðvunum Sólinni og svo X-inu auk þess að gefa út fréttabréf í nafni Hljómarlindar sem var þá bæði pöntunarlisti og tónlistartímarit en einnig gaf hann síðar út Xtra-blaðið (Extrablaðið) svo Hljómalindarnafnið kom víða fyrir. Hljómalind kom að plötuútgáfu einnig, ýmist eitt og sér eða í samstarfi við aðra og hér má nefna safnplöturnar Núll & nix og Journey to the top of the world: Kirkjubæjarklaustur, auk platna með Kuai, Tony Sapiano og Bubbleflies svo dæmi séu nefnd.

Hljómalind flutti inn fjöldann allan af erlendu tónlistarfólki og hljómsveitum en það gekk ekki þrautalaust til að byrja með því Ísland hafði ekki gott orð á sér þegar kom að slíku tónleikahaldi en með tímanum kom hingað til lands mikið af jaðarsveitum sem sumar hverjar urðu vel þekktar, bæði í dansgeiranum og einnig öðrum geirum tónlistarinnar – hér má nefna sveitir eins og St. Etienne, Lucky people center, Cardigans, Fugazi, Fuck, Godspeed, Blonde Redhead, Wiseguys og Will Oldham svo nokkuð ólík nöfn séu nefnd, auk þekktra plötusnúða. Kiddi hélt jafnframt fjölda tónlistarhátíða í nafni Hljómalindar þar sem blanda erlendra og íslenskra tónlistarflytjenda komu fram og hér má nefna hátíðir eins og Mallað og brallað, Reykjavíkurnætur, Lágmenningarhátíð Reykjavíkurborgar, Vetrardagskrá Hljómalindar og síðast en ekki síst UXA-hátíðina sem haldin var við Kirkjubæjarklaustur um verslunarmannahelgina 1995 en sú hátíð telst með stærri tónlistarviðburðum sem haldnir hafa verið hér á landi.

Hljómalind að Laugavegi 21

Þegar komið var fram á nýja öld hafði útgáfulandslagið tekið töluvert miklum breytingum síðustu árin, tónlist var þá að verða aðgengilegri á netinu og nokkuð dró úr sölu geisladiska og platna sem var í raun tilvistargrundvöllur Hljómalindar – Kristinn hafði því undir lok ársins 2000 ákveðið að hætta með verslun sína sem hafði þá verið til húsnæðis að Laugavegi 21 síðan 1999, hann hélt þó áfram með verslunina eftir hvatningarorð frá viðskiptavinum og velunnurum og í kjölfarið var tónleikaröð sem bar yfirskriftina Upprisa Hljómalindar haldin um sumarið, þar léku m.a. Sigur rós og Hljómar sem munu hafa komið saman fyrir hvatningu Kristins rétt eins og Lúdó og Stefán höfðu gert litlu fyrr en sú sveit hafði leikið á árlegum 1. maí tónleikum Hljómalindar. Verslunin gat þó ekki gengið lengi við svo búið ástand og í lok febrúar 2003 var henni endanlega lokað en vefsíðan hljómalind.is sem Kristinn hafði þá stofnað starfaði eitthvað áfram og flutti fréttir úr jaðargeiranum.

Þar með var sögu Hljómalindar lokið en framlag Kristins verður seint metið fullkomlega því án hans hefðu Íslendingar seint eða ekki kynnst plötum hljómsveita eins og Blur, Cardigans, Prodigy, Smashing pumpkins og Underworld sem upphaflega voru í jaðrinum, það sama má segja um íslensk jaðarbönd sem fengu tækifæri til að koma tónlist sinni á framfæri svo ekki sé minnst á þá tónleika sem Hljómalind stóð fyrir.

Þess má geta að nokkru eftir að Hljómalind lokaði á Laugaveginum opnaði þar kaffihús sem hlaut nafnið Kaffi Hljómalind en þar voru einnig haldnir tónleikar, engin tengsl voru þó á milli kaffihússins og hinnar eiginlegu Hljómalindar.