Afmælisbörn 18. janúar 2017

Páll Rósinkranz

Páll Rósinkranz

Þrjú tónlistartengd afmælisbörn koma við sögu Glatkistunnar í dag:

Friðrik Vignir Stefánsson orgelleikari af Skaganum er fimmtíu og fimm ára á þessum degi. Hann nam orgelleik á Akranesi og Reykjavík, fór til Danmerkur í framhaldsnám og hefur starfað sem organisti, stjórnandi kóra og skólastjóri tónlistarskóla t.d. í Grundarfirði og Seltjarnarnesi. Hann var ennfremur í sönghópnum Sex í sveit.

Söngvarinn Páll Rósinkranz (Óskarsson) er fjörutíu og þriggja ára gamall. Pál þekkja flestir, honum skaut fyrst á stjörnuhimininn með hljómsveitinni Jet Black Joe, hafði þá reyndar verið í nokkrum hljómsveitum eins og Nirvana, en hefur aðallega fengist við gospel- og sólósöng í seinni tíð. Páll Rósinkranz hefur gefið út fjölmargar sólóplötur, þær eru mestmegnis með eldra efni eftir aðra, og sungið á plötum annarra.

Kristinn Skagfjörð Sæmundsson er fimmtíu og eins árs gamall í dag en hann er öllu þekktari undir nafninu Kiddi í Hljómalind eða Kiddi kanína. Kiddi hefur komið að íslenskri tónlist frá ýmsum hliðum, rekið plötubúðir um árabil, annaðist dreifingu og útgáfu á tónlist, útgáfu tónlistarblaðs og tónleikahald af ýmsu tagi en hefur nú dregið sig að mestu úr tónlistinni.