Sönglagakeppni LBK [tónlistarviðburður] (um 1955)

Landsamband blandaðra kóra (LBK) stóð fyrir sönglagakeppni – að öllum líkindum tvívegis en því miður eru heimildir af skornum skammti og því er lítið hægt að fullyrða um það.

Það var í nóvember 1953 sem LBK setti á fót ljóðasamkeppni sem átti að verða eins konar forsmekkurinn að sönglagakeppni sem kæmi í kjölfarið en keppnirnar voru haldnar í tilefni af fimmtán ára afmæli kórasambandsins, keppt var í þremur flokkum: Íslandsljóð (ættjarðarljóð), Reykjavíkurljóð og lofsöngur til söngdísarinnar. Undirtektirnar munu hafa verið fremur dræmar meðal ljóðskálda en engu að síður var blásið til sönglagakeppninnar eftir áramótin 1953-54 þar sem biðlað var til tónskálda að semja sönglög við sigurlögin þrjú og útsetja þau fyrir blandaðan söng, engar fréttir er hins vegar að finna um niðurstöður þeirrar keppni og flest bendir til að keppnin hafi fallið um sjálfa sig. Um haustið gaf LBK út sönglagahefti með 48 lögum (flest þeirra voru nýleg og íslensk) en ekki finnast neinar heimildir um að sigurlög keppninnar (ef hún var þá haldin) séu í því hefti.

Hvað sem því líður þá var ákveðið á ársþingi LBK sumarið 1955 að gera aðra tilraun með sönglagakeppni og hún var nú með þeim hætti að tónskáldin hefðu algjörlega frjálsar hendur og máttu þannig velja hvaða ljóð sem væri við lagið. Enn voru undirtektir dræmar meðal tónskáldanna en eftir að fresturinn hafði verið framlengdur fengust loks nógu mörg lög inn í keppnina svo hægt væri að halda hana. Niðurstöður hennar urðu á þann veg að Áskell Snorrason sigraði með lagið Skógarþrösturinn við ljóð Páls Árdal, lagið Ísland eftir Jóhann Ó. Haraldsson við ljóð Grétars Fells hafnaði í öðru sæti og Í vorþeynum, lag Sigursveins D. Kristinssonar við ljóð Jóns Helgasonar hafnaði í því þriðja.

Svo virðist sem fullreynt hafi verið með sönglagakeppni af slíku tagi innan Landsambands blandaðra kóra og hún var ekki haldin aftur.