Vestmannakórinn (1911-57)

Vestmannakórinn 1945

Vestmannakórinn svokallaði starfaði í Vestmannaeyjum í áratugi á síðustu öld og var gerður góður rómur að þessum blandaða kór.

Kórinn starfaði í fjölmörg ár áður en hann hlaut í raun nafn og hvað þá skipulagða starfsemi en hann var fyrst settur saman í tilefni af aldarafmæli Jóns Sigurðssonar árið 1911, þá var efnt til hátíðahalda í Vestmannaeyjum eins og víða um land og þessi blandaður kór undir stjórn Brynjólfs Sigfússonar organista, tónskálds og kaupmanns, söng utandyra 17. júní í afmælisdagskrá sem sett var saman þann daginn.

Kórinn starfaði ekki alveg samfleytt árið um kring og mun starfsemin hafa lagst niður á meðan vertíð stóð yfir í Eyjum enda voru menn þá ekki að eyða tíma sínum í kórsöng. Hann kom þó reglulega saman næstu árin undir stjórn Brynjólfs og hélt árlega tónleika í Vestmannaeyjum, þá kom hann einnig við sögu á þjóðhátíð Eyjamanna og var þar reglulegur gestur.

Það var svo árið 1925 sem Brynjólfur gaf kórnum loks nafn og hét hann upp frá því Vestmannakórinn. Enn liður nokkur ár áður en stafsemi hans varð í föstum skorðum en árið 1937 hófst skipuleg starfsemi, þ.m.t. æfingar hjá kórnum með tilheyrandi föstu vetrarstarfi, og þá um leið var stofnað félag utan um kórinn. Söngskrá Vestmannakórsins var alla tíð með alþýðlegum lögum.

Ári síðar, haustið 1938 varð kórinn meðal fjögurra annarra kóra sem stofnuðu Landssamband blandaðra kóra (LBK).

Ekki finnast ítarlegar upplýsingar um starfsemi Vestmannakórsins framan af en árið 1941 fór hann í söngferðalag um Suðurland við góðan orðstír. Kórinn innihélt þá um þrjátíu manns og hafði þá líklega haft þann fjölda um tíma. Sumarið 1944 hélt kórinn síðan til höfuðborgarinnar og hélt þar nokkra tónleika, og sama sumar var kórinn meðal annarra kóra sem mynduðu Þjóðkórinn á hátíðarhöldum sem haldin voru á Þingvöllum í tilefni af stofnun lýðveldis. Um það leyti voru um fimmtíu manns í kórnum en ekki fóru allir kórfélagar þó með upp á meginlandið þetta sumar.

Brynjólfur Sigfússon var stjórnandi kórsins allt til ársins 1945 og hafði þá stjórnað kórnum um áratuga skeið, eitthvað gekk illa að manna stöðu stjórnanda eftir að hann hætti og engar upplýsingar er að finna um hver var við stjórnvölinn á árunum 1945-48 eða hversu öflugt kórstarfið var á þeim árum, árið 1949 var kórinn hins vegar án stjórnanda en virðist þó eitthvað hafa verið starfandi, þótt stopult væri.

Það er svo árið 1950 sem Haraldur Guðmundsson tók til við að stjórna Vestmannakórnum og stýrði honum næstu misserin. Kórinn söng t.a.m. við útför Brynjólfs fyrrum stjórnanda en hann lést snemma vors 1951. Í byrjun árs sama ár hafði komið tæknimaður frá Ríkisútvarpinu til Vestmannaeyja til að taka upp söng kórsins sem hafði undirbúið sig með stífum æfingum mánuðina á undan. Upptökurnar tókust vel en þær glötuðust þegar tæknimaðurinn flaug til baka frá Vestmannaeyjum með flugvélinni Glitfaxa, sem hrapaði í Faxaflóa í aðflugi að Reykjavíkurflugvell og allir sem um borð voru fórust, tuttugu manns. Það er eitt mannskæðasta flugslys sem orðið hefur hér við land.

Vestmannakórinn starfaði til ársins 1957 en ekki liggja fyrir upplýsingar um hver stjórnaði honum síðustu árin.