Karlakór K.F.U.M. (1911-36)

Karlakór K.F.U.M.

Karlakór K.F.U.M.

Starf Kristilegra félagra ungra manna og kvenna (KFUM & K) hefur verið með ýmsum hætti í gegnum tíðina og á sínum tíma voru starfandi kórar meðal hvors félags, þó ekki á sama tíma. Karlakór K.F.U.M. starfaði töluvert á undan og var undanfari karlakórsins Fóstbræðra en kórinn átti sér einnig sjálfur undanfara.

Allt frá 1911 hafði verið starfandi kór innan félagsins undir nafninu Söngfélag K.F.U.M., ekki var fastur kórstjórnandi í upphafi heldur höfðu þeir Halldór Jónasson, Hallgrímur Þorsteinsson og Jón Snæland skipt með sér því hlutverki.

Þegar til stóð að leggja söngfélagið niður um áramótin 1915-16 fóru nokkrir félagar úr hópnum þess á leit við Jón Halldórsson að hann stjórnaði kórnum, sem hann samþykkti, til eins árs. Í kjölfarið var Karlakór K.F.U.M. (stundum nefndur K.F.U.M. kórinn) formlega stofnaður um vorið 1916 en stofnfélagar voru um tuttugu talsins. Sé miðað við stofnárið 1911 telst kórinn elsti starfandi kór landsins.

Jón Halldórsson KFUM

Jón Halldórsson stjórnandi Karlakórs K.F.U.M.

Jón Halldórsson stjórnaði reyndar kórnum töluvert lengur en þetta eina ár sem hann samþykkti í upphafi, því hann var með kórinn alla tíð sem hann starfaði og gott betur reyndar þar sem hann stjórnaði Fóstbræðrum allt til 1950.

Karlakór K.F.U.M. fór víða þann tíma sem hann starfaði, fyrstu opinberu tónleikara kórsins voru í Bárunni vorið 1917 og söng hann reglulega á höfuðborgarsvæðinu í kjölfarið en einnig utan borgarmarkanna. Einnig varð það að hefð hjá kórnum að syngja um borð í skemmtiferðaskipum sem lögðust að bryggju í Reykjavík.

Að minnsta kosti tvær söngferðir voru farnar til útlanda, í fyrra skiptið til Noregs 1926 en var voru tónleikar kórsins á annan tug, 1931 fóru kórfélagar síðan til Danmerkur á alþjóðlegt kóramót.

Kórinn varð 1930 hluti af Landskórinu svokallaða (á þeim árum var kór hvorugkyns-orð) en það var hundrað og fimmtíu karla kór settur saman fyrir Alþingishátíðina á Þingvöllum, sem haldin var þá um sumarið.

Við þetta sama tækifæri fóru fram fyrstu tónlistarupptökur á Íslandi þegar upptökumenn frá Columbia komu hingað á vegum Fálkans og tóku upp ógrynni af efni sem síðar var gefið út á plötum. Fjórar plötur komu út með Karlakór K.F.U.M. og fjórar í viðbót þremur árum síðar (tvær þeirra voru endurútgefnar undir nýjum útgáfunúmerum sama ár), þegar leikurinn var endurtekinn. Einhverjar af þeim upptökum voru endurútgefnar 1976 af Fálkanum á tvöfaldri hljómplötu Fóstbræðra og Karlakórs K.F.U.M.

Lengst af var Karlakór K.F.U.M. lokaður kór, þ.e. að meðlimir hans þurftu að vera félagar í K.F.U.M. Sú breyting var þó gerð 1924 að söngmönnum utan félagsstarfsins var heimilt að ganga til liðs við kórinn, með tíð og tíma varð kórinn því blanda meðlima K.F.U.M. og annarra, sem varð til þess að lokum að ekki þótti lengur við hæfi að kenna kórinn við félagið. Var þá ákveðið árið 1936 að kórinn tæki upp nýtt nafn, Karlakórinn Fóstbræður eða bara Fóstbræður, og skildu þar með leiðir kórsins og K.F.U.M.

Við þá nafnabreytingu lauk sögu Karlakórs K.F.U.M. en um leið hófst saga Fóstbræðra, en sá kór lifir enn góðu lífi nú mörgum áratugum síðar.

Efni á plötum