Halldór Pálsson (1946-)

Halldór Pálsson

Saxófónleikarinn Halldór Pálsson hefur búið og starfað í Svíþjóð lungann af ævi sinni og er því líklega minna þekktur hér á fróni en ella, hann lék þó með ýmsum hljómsveitum og inn á fjölda platna hér á landi áður en hann flutti utan en í Svíþjóð hefur hann starfað með þekktu tónlistarfólki á borð við Abba, Cornelis Vreeswijk og Björn Skifs svo dæmi séu nefnd en hann kemur t.a.m. við sögu í hinu þekkta Abba-lagi Voulez-vous.

Halldór Pálsson fæddist í Reykjavík árið 1946 og fékk sem barn strax mikinn áhuga á tónlist enda var tónlistarhefð á heimilinu þar sem faðir hans var organisti og kórstjóri. Halldór lærði fyrst á blokkflautu hjá Gísla Ferdinandssyni og svo á píanó áður en saxófónninn kom til sögunnar þar sem hann nam fyrsta hjá ónafngreindum Englendingi og svo hjá Gunnari Ormslev, síðan lærði hann einnig á flautu og getur því ef svo ber undir leikið á alto, tenór og sópran saxófón auk flautunnar.

Halldór var á unglingsaldri þegar hann stofnaði ásamt félögum sínum hljómsveitina Pónik og starfaði með henni á upphafsárum þeirrar sveitar en haustið 1964 hóf hann að leika með Hljómsveit Svavars Gests aðeins átján ára gamall sem sýnir hversu efnilegur blásari hann var þá þegar orðinn. Fljótlega lék hann inn á tvær smáskífur með hljómsveit Svavars þar sem Elly Vilhjálms og Ragnar Bjarnason sungu og þar með hófst ferli þar sem hann lék inn á fjölda hljómplatna bæði hér heima og í Svíþjóð.

Halldór lék með fleiri hljómsveitum næstu árin, hann lék t.a.m. um eins árs skeið með Lúdó sextett, Hljómsveit Ólafs Gauks og Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar sem allar gerðu út á ballmarkaðinn á sumrin og voru því á faraldsfæti, þá lék hann einnig á ýmsum djasstengdum uppákomum en djassinn var á þeim tíma í nokkurri uppsveiflu hérlendis og þótti Halldór ómissandi á slíkum tónleikum enda var hann þá kominn í fremstu röð blásara hér á landi.

Halldór fór til tónlistarnáms í Bandaríkjunum og var við nám í Metropolitian State College í Denver í Colorado þar sem hann lék með skólahljómsveitum af ýmsum stærðum en aflaði sér einnig reynslu með klúbbaspilamennsku. Þegar hann kom aftur heim til Íslands að loknu námi 1973 kenndi hann um tveggja ára skeið við tónlistarskólann í Kópavogi en starfaði einnig um tíma með hljómsveitinni Musicamaxima, hann var þarna orðinn töluvert áberandi og þekktur tónlistarmaður og var fenginn í stærri verkefni eins og þegar Ríó tríó héldu fræga lokatónleika sem voru hljóðritaðir og gefnir út á plötu en einnig á stórtónleikum sem hljómsveitirnar Change og Júdas stóðu fyrir, þá starfaði hann með stórhljómsveit FÍH og Blúskompaníinu og kom fram á djasskvöldum og í ýmsum sjónvarpsþáttum.

Halldór Pálsson 1975

Hann lék einnig inn á fjölda hljómplatna s.s. með áðurnefndu Ríó tríói, Reyni Jónassyni, Árna Johnsen, Vilhjálmi Vilhjálmssyni, Björgvini Halldórssyni, Brimkló, Mannakornum, Ruth Reginalds og fleiru þekktu tónlistarfólki. Halldór fékkst einnig við allt annars konar verkefni og t.d. hélt hann utan um tónlistina í leikinni heimildamynd sem gerð var í tilefni 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974 sem bar nafnið Í dagsins önn, þar útsetti hann íslensk þjóðlög og lék þau á flautu.

Árið 1975 urðu þáttaskil á ferli Halldórs þegar hann fór með hljómsveit sem Gunnar Þórðarson setti saman til að leika á norrænu tónlistarhátíðinni Alternativ music festival í Svíþjóð en sú hátíð var eins konar antieurovison hátíð eins og það var kallað – haldin til að vekja athygli á að til væri annars konar tónlist en sú „lágmenningartónlist“ sem Abba bauð upp á þegar sveitin sigraði Eurovision með Waterloo árið á undan. Halldór varð þá eftir í Svíþjóð til að freista gæfunnar og skemmst er frá því að segja að upp frá því hefur hann alið manninn í landinu. Fyrst um sinn tók hann öllum þeim verkefnum sem buðust sem leiddi til þess að hann lék víða um landið við misvel launuð verkefni en smám saman fór hann að mynda tengsl m.a. með hjálp íslenskra tónlistarmanna sem bjuggu og störfuðu í Svíþjóð s.s. Jóns Páls Bjarnasonar gítarleikara, Péturs Östlund trommuleikara o.fl. Hann starfaði um tíma með ferðaleikhúsi sem fór víða með sýningar sínar en síðan skaut hann rótum í Stokkhólmi þar sem hann átti eftir að starfa í leikhúsi m.a. í uppfærslu á söngleiknum Annie og með ýmsum hljómsveitum s.s. Myglarna og Vision (hljómsveit Björns Skifs sem fáeinum árum áður hafði slegið í gegn með lagið Hooked on a feeling með hljómsveit sinni Blue swede) en með þeim sveitum lék Halldór inn á plötur og fór víða um Svíþjóð og önnur lönd með tónleikahaldi.

Halldór fékkst töluvert við hljóðversvinnu og lék inn á fjölda platna í Svíþjóð, m.a. lék hann í laginu Voulez-vous á samnefndri plötu Abba sem kom út árið 1979, sem var reyndar svolítið kaldhæðnislegt í ljósi þess að hann kom upphaflega til Svíþjóðar til að leika á tónlistarhátíð til höfuðs Abba og þess konar tónlist, þá lék hann einnig inn á plötur með vísnasöngvaranum Cornelis Vreeswijk og tónlistarfólki og hljómsveitum eins og Evu Rydberg, Birgitte Wollgård, Säwes, Erik Lihm, Bertil Englund og Schytts svo nokkur dæmi séu tekin. Þess á milli kom hann stundum heim til Íslands til að leika á djasshátíðum og lék þá inn á plötur gjarnan við slík tækifæri, jafnvel í sjónvarpsþáttum o.þ.h.

Á níunda áratugnum var það með svipuðum hætti, Halldór var m.a. þá að spila djass með hljómsveit Péturs Östlund og um tíma starfrækti hann ásamt Erlendi Svavarssyni trommuleikara hljómsveitina Elfte timmen sem gaf út a.m.k. eina smáskífu, og svo með Leif Kronlunds Storbarn sem ferðaðist víða um Evrópu og gaf út fjölda platna. Þá starfaði hann um skeið með latin hljómsveit, starfrækti saxófónkvartett, lék með danssveit Gugge Hedrenius, Royal big band og Stockholm Jazz Orchestra auk þess að leika inn á fleiri plötur. Á þeim tíma leið lengra á milli Íslandsferða en hann kom þó stöku sinnum heim til að leika djassskotna tónlist með hinum og þessum tónlistarmönnum, m.a. með hljómsveitinni Celsius, kvintett Björns Thoroddsen gítarleikara og Óðmönnum sem voru þá að koma saman (1987) og í framhaldi af því lék hann á plötu Jóhanns G. Jóhannssonar Óðmanns, Myndræn áhrif.

Halldór Pálsson

Þetta samstarf Halldórs og Jóhanns G. leiddi til þess að sá síðarnefndi fékk Halldór til að leika instrumental útgáfur af nokkrum laga sinna inn á plötu en hún kom út árið 1993 og hlaut titilinn Gullinn sax: instrumental. Á henni lék Halldór nokkur af þekktustu lögum Jóhanns með sænskum tónlistarmönnum í útsetningum eins þeirra Bengt Lundkvist en einnig söng Nils Landgren í tveimur laganna, platan hlaut þó varla nema sæmilega dóma hjá gagnrýnendum Morgunblaðsins og DV.

Eftir útgáfu plötunnar kom Halldór sjaldnar á heimaslóðir, hann birtist þó stöku sinnum og lék hér á djasshátíðum, m.a. með hljómsveit sem kallaðist The Immigrants en eftir aldamót fækkaði heimsóknum hans enn frekar og kom hann hingað einungis í fáein skipti og lék með Furstunum, hljómsveit Geirs Ólafssonar – síðast 2003.

Halldór Pálsson býr ennþá í Svíþjóð og er að mestu hættur spilamennsku eftir því sem best verður séð.

Efni á plötum