Hannes Jón Hannesson (1948-)

Hannes Jón Hannesson

Hannes Jón Hannesson hefur e.t.v. ekki verið mest áberandi tónlistarmaðurinn í gegnum tíðina en hann hefur þó starfað með nokkrum þekktum hljómsveitum, samið þekkt lög og gefið út tvær sólóplötur svo dæmi séu nefnd.

Hannes Jón Hannesson fæddist haustið 1948 og er af þeirri kynslóð sem kennd er við Bítlana, þannig kom hann fyrst fram á sjónarsviðið sem gítarleikari með unglingahljómsveitinni Molum árið 1964 og svo fylgdu Tónar og Sfinx í kjölfarið en síðarnefnda sveitin lék t.a.m. nokkuð í Glaumbæ á árunum 1966 og 67. Næturgalarnir fylgdu svo á eftir.

Það var svo með þjóðlagatríóinu Fiðrildum sem Hannes varð landsþekktur tónlistarmaður en sú sveit gaf út fimm laga smáskífu sem naut nokkurra vinsælda, m.a. lögin Aba daba brúðkaupsferð, Í dýragarð ég fer og Marbendill. Með þeirri sveit starfaði Hannes um tíma og kom m.a. fram í sjónvarpsþætti en fljótlega hóf hann einnig að koma einn fram á þjóðlagahátíðum og slíkum samkomum sem þá voru tíðar.

Hann kom einnig fram með hljómsveitinni Ævintýri sem var með vinsælustu hljómsveitum landsins og um svipað leyti kom út þriggja laga plata með Hannesi Jóni sem bar titilinn Tileinkun. Á þeirri plötu var að finna lög sem hann vann í samstarfi við þremenningana í Útvarp Matthildi – þá Þórarin Eldjárn, Davíð Oddsson og Hrafn Gunnlaugsson en lögin höfðu einmitt verið frumflutt í útvarpsþætti þeirra. Textarnir sem voru eftir þá félaga þóttu blautlegir og fór platan ekki mjög hátt en þar er m.a. að finna lagið Fækkaðu fötum (e. Peter Sarstedt) sem SSSól gaf út löngu síðar. Platan, sem líklega var bönnuð hjá Ríkisútvarpinu, hlaut fremur slaka dóma í Þjóðviljanum og Morgunblaðinu en heldur betri í Vikunni.

Hannes Jón var þarna orðinn töluvert þekktur tónlistarmaður, kom heilmikið fram eins síns liðs og haustið 1972 kom út á vegum SG-hljómplatna sóló breiðskífa í hans nafni sem hét einfaldlega Hannes Jón Hannesson. Platan fór ekki hátt en á henni er að finna fjórtán lög sem flest voru eftir Hannes sjálfan en textarnir komu úr ýmsum áttum, m.a. átti hann sjálfur nokkra og faðir hans, Hannes Björnsson samdi þrjá texta. Platan hafði komið út síðsumars og í kjölfarið fór hann út til Svíþjóðar þar sem hann mun hafa leikið eitthvað á tónleikum, þegar heim var komið gekk hann hins vegar til liðs við nýja hljómsveit sem stofnuð hafði verið upp úr leifum Ævintýris sem þá var hætt en nýja sveitin hlaut nafnið Brimkló.

Hannes Jón á sviði

Brimkló átti eftir að starfa um árabil sem kunnugt er, Hannes Jón lék þar á gítar og sá um söng ásamt Björgvini Halldórssyni framan af en þegar Björgvin hætti vorið 1974 til að ganga í Hljóma tók hann við söngnum um tíma en hætti svo sjálfur fljótlega einnig og hóf að starfa með hljómsveitinni Sunshine / Sólskini og síðan með Experiment auk þess að koma við sögu sem hljóðfæraleikari á plötu Einars Vilberg – Starlight.

Brimkló hafði hætt en byrjaði aftur árið 1976 og gaf út tvær plötur, Rock‘n roll öll mín bestu ár (1976) og Undir nálinni (1977) sem Hannes tók fullan þátt í og lék með sveitinni til ársins 1978, þar kom hann lítillega við sögu sem textasmiður sem og á vísnaplötunni Út um græna grundu var en hann samdi m.a. lagið Heiðlóarkvæði sem margir muna eftir af plötunni sem varð gríðarlega vinsæl, þá lék hann á plötu Lummanna – Gamlar góðar lummur.

Næstu árin var Hannes Jón töluvert í Svíþjóð, starfaði þar m.a. með sænsk-íslensku sveitinni Lava og menntaði sig jafnframt í tónlist en þegar hann kom aftur heim til Íslands um miðjan níunda áratuginn hóf hann að starfa með hljómsveitinni Hálfu í hvoru og lék m.a. á plötunni Götumynd með þeirri sveit auk þess að eiga hlut í texta- og lagasmíðum. Hann var um það leyti nokkuð virkur í starfi Vísnavina og kom fram á Vísnakvöldum en einnig kom hann eitthvað við sögu sem hljóðfæraleikari á plötum s.s. barnaplötunni Smjattpöttunum.

Hannes Jón starfaði ekki lengi með Hálfu í hvoru, hann var um tíma í tríói sem lék á Mímisbar á Hótel Sögu en virðist hafa verið minna viðloðandi tónlistina en áður, hann tók þó þáttí endurreisn Brimklóar sem lék á tónlistardagskrám tengdum „týndu kynslóðinni“ á Broadway en fór þá utan til Bandaríkjanna þar sem hann dvaldi um skeið og menntaði sig frekar í tónlist í Los Angeles.

Þegar hann kom aftur heim 1990 hóf hann að kenna á gítar og lék þá um tíma með hinum og þessum tónlistarmönnum, s.s. með hljómsveitinni Sveitinni milli sanda og tónlistarmanninum Einari Vilberg, hann kom einnig eitthvað fram einn á pöbbum og var að leika þjóðlega tónlist á Íslandskynningum, m.a. erlendis.

Hannes Jón Hannesson

Árið 1992 sendi hann svo frá sér sína aðra sólóplötu – Kærleiksblóm (Loveflower), fjórtán laga plötu með frumsömdum lögum en textarnir voru úr ýmsum áttum eins og á fyrri plötu hans. Á plötunni, sem hann gaf út sjálfur, var m.a. að finna nýtt lag við ljóðið Bí bí og blaka, það lag hafði upphaflega átt að vera á vísnaplötunni Einu sinni var en kom ekki út fyrr en þarna. Platan fékk dræmar viðtökur og hlaut t.d. slaka dóma í DV, Hannes Jón hafði sagt í blaðaviðtölum í tengslum við útgáfu plötunnar að hann stefndi á útgáfu annarrar plötu fljótlega en af því varð ekki og e.t.v. höfðu viðtökurnar við Kærleiksblóminu átt sinn þátt í því.

Hannes Jón starfaði um hríð með hljómsveitinni Baggabandinu, tók þátt í enn einni endurreisn Brimklóar árið 1994 en virðist lítið hafa fengist við tónlist eftir það utan þess að leika með hljómsveitinni Séra Hannesi & saurlífisseggjunum sem er sama sveit og menntaskólasveitin Næturgalarnir sem Hannes Jón starfaði með í kringum 1970.

Efni á plötum