Næturgalar [1] (1967-97)

Næturgalar

Næturgalar

Erfitt hefur reynst að vinna úr heimildum um hljómsveitina Næturgala, á hvaða tímaskeiði/um hún starfaði, hverjir skipuðu hana og jafnvel hvort um eina eða fleiri skyldar eða óskyldar hljómsveitir sé um að ræða.

Elstu heimildir um hljómsveit með þessu nafni er að finna frá 1967. Að öllum líkindum er um að ræða bítlasveit í því tilviki, Hannes Jón Hannesson mun hafa verið einn meðlima og hugsanlega einnig þá nafni hans Hannes Blandon trommuleikari (síðar guðfræðingur) en þeir Næturgalar voru starfandi í Menntaskólanum í Reykjavík eftir því sem segir í blaðaviðtali við þann síðarnefnda. Á sama stað segir að sveitin hafi leikið á Keflavíkurflugvelli eins og margar sveitir gerðu á sama tíma, sem rennir stoðum undir að Næturgalar og The Nightingales séu sama hljómsveitin en sú sveit lék mikið á Vellinum.

Litlar upplýsingar finnast í heimildum í kjölfarið. Frá og með 1972 virðist sveitin vera aðallega í gömlu dönsunum og leika á þess konar dansstöðum.

Þekktir meðlimir hennar frá því tímabili eru Jakob Jónsson söngvari, Skúli K. Gíslason [bassaleikari?], Birgir Karlsson gítarleikari og Pétur Pétursson trommuleikari. Alfreð Alfreðsson mun hafa tekið við trommunum haustið 1973 af Pétri.

Sumarið 1976 voru Næturgalar nokkuð í fréttum þegar hún lék á böllum um land allt tengdum héraðsmótum, meðlimir þá í sveitinni voru fyrrnefndir Skúli og Birgir en einnig Einar Hólm trommuleikari og Ágúst Atlason (Ríó tríó) sem mun hafa sungið með sveitinni þetta sumar. Guðmundur Haukur Jónsson (Alfa beta o.fl.) var einnig eitthvað viðloðandi sveitina.

Þá kemur fram í fjölmiðli að Næturgalar og Stuðlatríóið sé ein og sama sveitin, séu þær sveitir bornar saman kemur í ljós að Einar Hólm lék með báðum sveitunum en þá er það upptalið, Einar Blandon er reyndar sagður vera trommuleikari í þeirri sveit einnig um tíma og þá er spurning hvort einhver ruglingur sé varðandi Einar Blandon, Einar Hólm og Hannes Blandon fyrsta trommuleikara Næturgala.

Næturgalar

Næturgalar 1976

Svo virðist sem sveitin hafi legið í dvala frá því í ársbyrjun 1977 til ársins 1988 þegar hún birtist aftur (eða önnur sveit óskyld henni). Engar upplýsingar er hins vegar að finna um meðlimi þeirra sveitar. Ýmsir söngvarar sungu hins vegar með henni um skemmri tíma, s.s. Þorvaldur Halldórsson og Anna Vilhjálms.

Næturgalarnir störfuðu til ársins 1997 að minnsta kosti, með einhverjum hléum þó. Sem fyrr segir er nokkuð öruggt að saga The Nightingales og Stuðlatríósins spinnast saman að einhverju leyti við Næturgalana.