Næturgalar [1] (1967-72)

Næturgalar

Erfitt hefur reynst að vinna úr heimildum um hljómsveitina Næturgala, á hvaða tímaskeiði/um hún starfaði, hverjir skipuðu hana og hvort um eina eða fleiri skyldar eða óskyldar hljómsveitir sé um að ræða. Hér hefur umfjöllun um Næturgalana því verið skipt í tvennt út frá huglægu mati Glatkistunnar en frekari ábendingar og leiðréttingar eru vel þegnar, jafnvel gæti verið um þrjár hljómsveitir að ræða.

Elstu heimildir um hljómsveit með þessu nafni er að finna frá 1967. Að öllum líkindum er um að ræða bítlasveit í því tilviki. Ekki liggur fyrir hverjir voru meðlimir Næturgala í upphafi en árið 1969 skipuðu sveitina þeir Snæbjörn Kristjánsson gítarleikari, Magnús Á Magnússon gítarleikari, Stefán Halldórsson bassaleikari, Hannes Örn Blandon trommuleikari og Hannes Jón Hannesson söngvari og gítarleikari, Snæbjörn virðist ekki hafa verið fastur liðsmaður en lék stundum með henni. Stundum söng Hannes Örn og tók Magnús gítarleikari þá við trommunum á meðan.

Sveitin lék töluvert í klúbbum Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og tóku þá stundum með „gógó-píur“ sem dönsuðu jafnvel við hermennina, sem biðu í röðum og fengu 15 sekúndur hver. Líklega lék þessi sveit undir nafninu The Nightingales þegar þeir störfuðu á Vellinum.

Óljóst er hversu lengi þessi sveit starfaði en það var líklega til 1972 eða um það leyti, í framhaldinu starfaði líklega önnur sveit undir sama nafni svo ekki liggur alveg fyrir hvernig þeim málum var nákvæmlega háttað – að minnsta kosti virðist ekki um sömu sveit að ræða.

Árið 1994 komu Næturgalar saman á nýjan leik í tilefni af 25 ára stúdents afmæli þeirra félaga en sveitin lék þá undir nafninu Séra Hannes og saurlífisseggirnir enda var hann þá orðinn prestur, sú sveit hefur starfað með hléum líklega allt fram á þennan dag.