Næturgalar [2] (1972-97)

Næturgalar sem tríó

Hljómsveit sem sérhæfði sig líklega í gömlu dönsunum starfaði á áttunda áratug síðustu aldar undir nafninu Næturgalar en þá hafði sveit með sams konar nafn verið starfandi um nokkurra ára skeið og því allt eins líklegt að einhvers konar ruglingur milli sveitanna sé fyrir hendi. Þessi sveit starfaði líklega fyrst á árunum 1972 til 1977 og svo aftur frá 1988 til 1997 – ekki er heldur loku fyrir skotið að um aðra sveit sé að ræða á síðara tímaskeiðinu sem hér um ræðir en ábendingar og leiðréttingar þess eðlis óskast sendar Glatkistunni.

Fyrst um sinn virðast meðlimir Næturgala hafa verið þeir Jakob Jónsson söngvari, Skúli K. Gíslason [bassaleikari?], Birgir Karlsson gítarleikari og Pétur Pétursson trommuleikari. Alfreð Alfreðsson mun hafa tekið við trommunum haustið 1973 af Pétri.

Sumarið 1976 voru Næturgalar nokkuð í fréttum þegar hún lék á böllum um land allt tengdum héraðsmótum, meðlimir þá í sveitinni voru fyrrnefndir Skúli og Birgir en einnig Einar Hólm trommuleikari og Ágúst Atlason (Ríó tríó) sem mun hafa sungið með sveitinni þetta sumar. Guðmundur Haukur Jónsson (Alfa beta o.fl.) var einnig eitthvað viðloðandi sveitina.

Næturgalar

Þá kemur fram í fjölmiðli að Næturgalar og Stuðlatríóið sé ein og sama sveitin, séu þær sveitir bornar saman kemur í ljós að Einar Hólm lék með báðum sveitunum en þá er það upptalið, Einar Blandon er reyndar sagður vera trommuleikari í þeirri sveit einnig um tíma og þá er spurning hvort einhver ruglingur sé varðandi Einar Blandon, Einar Hólm og Hannes Örn Blandon trommuleikara Næturgala hinnar fyrstu.

Svo virðist sem sveitin hafi legið í dvala frá því í ársbyrjun 1977 til ársins 1988 þegar hún birtist aftur (eða önnur sveit óskyld henni eins og fyrr er reifað). Engar upplýsingar er að finna um meðlimi þeirra sveitar. Ýmsir söngvarar sungu hins vegar með henni um skemmri tíma, s.s. Þorvaldur Halldórsson og Anna Vilhjálms.

Næturgalarnir störfuðu til ársins 1997 að minnsta kosti, með einhverjum hléum þó.