Afmælisbörn 14. september 2022

Geirharður Valtýsson

Í dag eru fjögur afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Anna Vilhjálms söngkona með meiru á sjötíu og sjö ára afmæli í dag. Auk þess að syngja með ýmsum þekktum söngvurum á plötum á sjötta áratugnum gaf hún sjálf út sólóplötuna Frá mér til þín (1991) þar sem m.a. er að finna stórsmellinn Fráskilin að vestan en hún hafði flutt heim frá Bandaríkjunum nokkru áður, þar gaf hún einnig út plötu. Anna starfrækti eigin hljómsveitir um árabil en söng þar að auki með fjölda hljómsveita hér heima og vestra. Meðal þekktra laga Önnu Vilhjálms má nefna Ef þú giftist, Það er bara þú og Manstu vinur.

Rúnar Georgsson saxófónleikari átti einnig afmæli á þessum degi. Rúnar fæddist 1943, byrjaði að læra tónlist í Vestmannaeyjum en síðan í Reykjavík og víðar. Hann lék með ýmsum danshljómsveitum á árum áður, s.s. KK-sextett, Hljómsveit Björns R. Einarssonar og Lúdó sextett en fyrst og fremst tileinkaði hann sér þó djasstónlist. Leik hans má finna á mörgum plötum frá ýmsum tímum, bæði djass- og poppplötum. Hann gaf út plötuna Til eru fræ, ásamt Þóri Baldurssyni árið 1986.

Geirharður Valtýsson, öðru nafni Gerhard Schimdt átti þennan afmælisdag en hann lést árið 2010. Geirharður (f. 1929) kom hingað til lands frá Þýskalandi og reif upp tónlistarlífið á Siglufirði sem skólastjóri tónlistarskólans þar í bæ auk þess sem hann stjórnaði Karlakórnum Vísi og fleiri kórum, stjórnaði lúðrasveit bæjarins og lék með hljómsveitinni Gautum svo dæmi séu nefnd. Hann starfaði síðar í Reykjavík áður en hann flutt af landi brott.

Gunnar Pálsson tenórsöngvari (fæddur 1902) hefði að líkindum orðið þekktari en raun ber vitni hefði heimstyrjöld ekki skollið á í þann mund er stóru tækifærin voru framundan, þekktastur er hann líklega fyrir útgáfu sína af laginu Sjá dagar koma. Gunnar starfaði lengst af í Bandaríkjunum og þar lést hann í hárri elli árið 1996.

Vissir þú að söngkona að nafni Elín Reynisdóttir var upphaflega í hljómsveitinni Þey?