Gunnar Pálsson (1902-96)

Gunnar Pálsson

Tenórsöngvarinn Gunnar Pálsson (Gunnar R. Pálsson) var eins konar vonarstjarna Akureyringa á fyrri hluta síðustu aldar, hann fluttist til Ameríku en aðrir hlutir freistuðu líklega meira en frægð og söngframi svo minna varð úr söngferli hans en ella hefði getað orðið. Söng hans má þó heyra á fáeinum plötum, þeirra á meðal er stórsmellur Gunnars, Sjá dagar koma.

Gunnar (Rögnvaldur) Pálsson fæddist haustið 1902 á Staðarhóli sem þá var í útjaðri Akureyrar, hann var elstur sex systkina en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort þau hafi haft sömu sönghæfileika og hann, systurdóttir Gunnars var hins vegar píanóleikarinn Guðrún A. Kristinsdóttir svo einhverjir tónlistarhæfileikar voru augljóslega í ættinni. Ljóst var fljótlega að hann var efnilegur söngmaður, hann naut einhverrar leiðsagnar Jóns Ívarssonar á Akureyri og sá var undirleikari hans er Gunnar hélt sína fyrstu opinberu einsöngstónleika fyrir troðfullum sal í Góðtemplarahúsinu á Akureyri aðeins sautján ára gamall árið 1919. Tekjurnar af tónleikahaldinu ætlaði hann til söngnáms í Bandaríkjunum og hann söng á fleiri tónleikum á heimaslóðum á þeim tíma, stundum ásamt Hreini Pálssyni (sem var úr Hrísey) en þeir voru á svipuðum aldri.

Gunnar hleypti heimdraganum haustið 1920 og fór þá vestur um haf, hann hafði ekki nein skýr plön um söngnám en fór í fyrstu til Pittsburg þar sem hann fékk vinnu, þar gekk hann fljótlega í kirkjukór og söng síðan oft einsöng við ýmsar athafnir í kirkjum. Þaðan fór Gunnar til Chicago og lærði óperusöng en sagan segir að hjón sem heyrðu hann syngja við eitthvert tilefni hefðu boðist til að kosta hann til söngnáms, einnig náði hann að hafa einhverjar aukatekjur af söng til að fjármagna námið. Þess má geta að árið 1923 söng Gunnar í útvarpi vestra og varð þar með fyrsti Íslendingurinn sem söng í útvarpi.

Árið 1926 kom Gunnar heim til Íslands í stutt frí, hélt hér tónleika bæði í heimabæ sínum Akureyri en einnig í Reykjavík og á Ísafirði við undirleik Emil Thoroddsen píanóleikara. Næstu árin dvaldi Gunnar í Chicago og lærði þá arkítektúr og verkfræði en var einnig að syngja eitthvað, á tónleikum og í kirkjukór. Næst kom hann hingað til lands árið 1932 og var ætlunin að staldra hér við um nokkurra mánaða skeið en veran hér á landi varð mun lengri en svo því Gunnar bjó hérlendis allt til ársins 1943. Hann hélt hér fjölda tónleika og var dönsk eiginkona hans stundum undirleikari með honum en einnig söng hann með Karlakórnum Geysi á Akureyri og varð fljótlega einsöngvari með kórnum sem og með Kantötukór Akureyrar. Á Akureyri starfaði Gunnar við fag sitt eru fjölmörg hús í bænum teiknuð af honum.

Það var á þessum árum sem nokkrar plötur komu út með söng Gunnars, árið 1930 höfðu komið hingað til lands upptökumenn frá Columbia á vegum Fálkans til að taka upp íslenska tónlist í tilefni af Alþingishátíðinni sem haldin var það sumar, þremur árum síðar (1933) endurtók Fálkinn leikinn og þá söng Gunnar fjögur lög sem komu út á tveimur 78 snúninga plötum, annars vegar einsöngsplata með lögunum Draumur hjarðsveinsins / Við sundið og hins vegar plata með Karlakórnum Geysi þar sem hann söng einsöng (og tvísöng ásamt Hermanni Stefánssyni) í lögunum Loreley / Víkingasöngvar (úr óperunni Lucia di Lammermoor).

Gunnar Pálsson

Fjórum árum síðar (1937) kom út plata með Karlakór Reykjavíkur með Gunnar sem einsöngvara með lögunum Sjá daga koma / Vögguvísa en fyrrnefnda lagið varð eins konar einkennissöngur Gunnars, það lag sem hann varð þekktastur fyrir og heyrðist ósjaldan sem „síðasta lag fyrir fréttir“. Um það leyti var Gunnar fluttur suður til Reykjavíkur þar sem hann hlaut stöðu hjá Ríkisútvarpinu og var titlaður þar fulltrúi, og það var ástæða þess að hann söng með Karlakór Reykjavíkur en með þeim kór söng Gunnar næstu árin á tónleikum víðs vegar um land. Kórinn með hann innanborðs sem einsöngvara fór einnig í reisur erlendis á þessum árum, fyrst til Norðurlandanna og síðar sunnar í Evrópu en þegar stríð brast á í álfunni haustið 1939 féll allt slíkt um sjálft sig. Hér heima söng hann hins vegar einsöng á stórum tónleikum með stórum kór og hljómsveit við flutning á Sköpuninni (e. Haydn) en sá konsert var haldinn í risahúsnæði Bifreiðastöðvar Steindórs, þá söng hann margoft í útvarpssal. Samhliða þessum verkefnum var hann jafnframt eitthvað að fást við söngkennslu.

Haustið 1943 fluttist Gunnar með fjölskyldu sinni aftur til Bandaríkjanna og nú til New York þar sem hann fékkst við ýmislegt næstu árin, hann starfaði t.a.m. fyrir SÍS vestan hafs, fékkst við fasteignaviðskipti og setti á stofn ferðaskrifstofuna Viking travel service sem sérhæfði sig í ferðum Vestur-Íslendinga til Íslands, þá gerðist hann umboðsmaður fyrir Karlakór Reykjavíkur í Bandaríkjunum og hélt utan um stóra tónleikaferð kórsins árið 1945 þar sem hann söng á 56 tónleikum. Síðar hafði hann milligöngu um aðra tónleikaferð kórsins (1960) þar í landi, hann varð gerður að heiðursfélaga í Karlakór Reykjavíkur fyrir starf sitt þar. Hann vildi alltaf gera veg íslenskrar tónlistar sem mestan, lagði áherslu á að flytja íslensk lög og stóð fyrir útgáfu á nótnaheftum með íslenskum lögum fyrir enskumælandi. Tvær plötur áttu eftir að koma út með Karlakór Reykjavíkur með einsöng hans, annars vegar fjögurra laga smáskífa með þeim Guðmundi Jónssyni sem einsöngvurum undir nafninu The Icelandic singers árið 1959, hins vegar breiðskífan Íslenskir söngvar: Songs of Iceland, sem kom út 1963 í tilefni af því að kórstjórnandinn Sigurður Þórðarson var þá að hætta með kórinn eftir áratuga starf. Fálkinn gaf báðar plöturnar út.

Gunnar hætti smám saman að syngja, söng eitthvað í kirkjum og við sérstök tilefni en lét önnur málefni hafa forgang á kostnað söngsins, sjálfsagt hefði hann getað gert meira úr söngferli sínum og jafnvel orðið frægur söngvari miðað við samtímaheimildir en hann kaus að fara aðrar leiðir.

Gunnar bjó í Ameríku til dauðadags, var á Florida yfir vetrartímann og Long Island á sumrin en hann lést snemma árs 1996 á nítugasta og fjórða aldursári.

Efni á plötum