Rúnar Georgsson (1943-2013)

Rúnar Georgsson

Rúnar á yngri árum

Rúnar Georgsson var einn af okkar fremstu djass saxófónleikurum, hann lék inn á ófáar plötur, lék með ógrynni hljómsveita og spilaði á fleiri tónleikum en tölu verður fest á.

Rúnar Ketill (Gomez) Georgsson fæddist 1943 í Reykjavík. Hann fluttist snemma til Vestmannaeyja ásamt móður sinni og þar hófst hið eiginlega tónlistaruppeldi hans. Reyndar var upphaf tónlistarferils hans með þeim hætti að hann tróð upp á skemmtun í Eyjum aðeins sex ára gamall og lék á munnhörpu.

Um þetta leyti hóf hann trompetnám hjá Oddgeiri Kristjánssyni en það var fyrsta hljóðfærið sem hann lærði á. Rúnar lauk ekki prófum á þau hljóðfæri sem hann lærði á en var miklu fremur það sem kallaðist náttúrutalent, hafði tónlistina í sér.

Sjö ára gamall var Rúnar farinn að spila djass og upp frá því var ekki aftur snúið, djassáhuginn var vakinn en eins og kunnugt er var mikil djassvakning í Vestmannaeyjum um og eftir miðja síðustu öld. Hann hóf að leika með Lúðrasveit Vestmannaeyja og á þessum árum mótaðist grunnur fyrir framtíðina hjá þessum unga tónlistarmanni.

Þegar Rúnar var um það bil fjórtán ára fluttist fjölskylda hans til Hafnarfjarðar og tveim árum síðar til Keflavíkur en þar var einmitt líka mikil tónlistargerjun framundan eins og þekkt er. Hann var á þessum tímapunkti einnig farinn að leika á saxófón og þótti mjög efnilegur, svo mjög að hann hóf að leika með Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar í Keflavík eins og nokkrir aðrir þekktir tónlistarmenn síðar.

Rúnar fluttist til Reykjavíkur um 1960 og lék þar með ýmsum danshljómsveitum bæði fast- og lausráðinn, þeirra á meðal voru Diskó sextettinn, Neo kvartetinn, KK sextett, Hljómsveit Björns R. Einarssonar, Hljómsveit Hauks Morthens og Lúdó sextett svo fáeinar séu hér nefndar, en samhliða því nam hann einnig við Tónlistarskólann í Reykjavík, á saxófón og flautu.

Rúnar Georgsson1

Rúnar Georgsson

Þegar bítla- og hippatónlist réði ríkjum hérlendis á síðari hluta sjöunda áratugarins leitaði Rúnar út fyrir landsteinana og fluttist til Danmerkur, þar bætti hann við flautunámið og lék einnig með þarlendum hljómsveitum, en flutti síðan til Svíþjóðar þar sem starfaði lengur. Hann kom aftur til Íslands 1967, stoppaði stutt við og hélt aftur til Svíaríkis 1969 þar sem hann lifði og starfaði, einkum í djassgeiranum, í þrjú ár – meðal annars með Þóri Baldurssyni og Pétri Östlund en hann hafði einmitt verið um tíma með Þóri í hljómsveit hér á Íslandi.

Djassinn var því alltaf það sem fangaði hugann og þegar djasshátíðir urðu að veruleika á Íslandi á áttunda áratugnum naut hann sín hvað best, hins vegar staldraði hann orðið styttra í þeim popphljómsveitum sem hann starfaði með, þannig lék hann tiltölulega stutt í sveitum eins og Haukum, Fresh, Islandiu (hljómsveit Pálma Gunnarssonar) og Júdas en þeim lengur í „dannaðri“  sveitum eins og Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar og Hljómsveit Ólafs Gauks.

Rúnar fluttist norður í land á áttunda áratugnum og sinnti þar ýmsum störfum um árabil, bæði í formi tónlistarkennslu og sjómennsku en hann bjó bæði á Siglufirði og Dalvík, á fyrrnefnda staðnum lék hann um tíma með hljómsveitinni Gautum.

Rúnar Georgsson2

Blásið í saxófóninn

Hann bjó reyndar einnig um tíma í Borgarnesi en þegar hann flutti aftur á höfuðborgarsvæðið um 1980 sinnti hann áfram tónlistarkennslu, auk þess að leika með ýmsum sveitum, á níunda áratugnum lék t.d. með Hljómsveit Grétars Örvarssonar og Sangriu en var þó þeim meira áberandi með djasstengdum sveitum, ýmsum tríóum og kvartettum tengdum djasshátíðum sem nú voru orðnir árlegir viðburðir. Rúnar lék einnig inn á djassplötur sem innihéldu efni með sveitum eins og t.d. Jazzmiðlum og Jazzófétunum. Hann lék einnig stórt hlutverk á tvöföldu plötunni Jazz í 30 ár, sem gefin var út Gunnari Ormslev til heiðurs.

1986 kom út eina platan sem kennd er við Rúnar en hana gáfu þeir félagar Rúnar og Þórir Baldursson undir titlinum Til eru fræ. Á plötunni léku þeir íslensk dægurlög frá ýmsum tímum, en Geimsteinn gaf plötuna út sem fékk ágæta dóma í DV og Morgunblaðinu.

Um 1990 var Rúnar að mestu hættur að leika opinberlega, hann kenndi hins vegar áfram við jazzdeild FÍH og hafði gert síðan hann kom suður aftur, en aðalstarf hans hin síðari ár var sala trygginga.

Rúnar lést í árslok 2013 rétt rúmlega sjötugur að aldri.

Plötur þær sem Rúnar lék inn á skipta tugum, líklega var sú fyrsta lítil plata með Ómari Ragnarssyni sem kom út 1962 þar sem hann lék með Lúdó sextett, þá var Rúnar ekki orðinn tvítugur. Síðan fylgdu í kjölfarið plötur með Lúdó sextettnum, Elly og Vilhjálmi Vilhjálms, Guðmundi Jónssyni og Óðmönnum svo dæmi séu tekin, en síðar nutu margir af þekktustu tónlistarmönnum þjóðarinnar liðsinnis hans á plötum sínum, meðal nokkurra má nefna Bubba Morthens, Jóhann Helgason, SSSól, Spilverk þjóðanna, Mannakorn, Megas, Laddi og Ríó tríó.

Efni á plötum