Geirharður Valtýsson (1929-2010)

Geirharður Valtýsson

Geirharður Valtýsson (Gerhard Schmidt) setti mikinn svip á tónlistarlíf Siglfirðinga á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar og segja má að hann hafi fær þeim heimsmenninguna beint í æð með starfi sínu nyrðra.

Geirharður (Gerhard Walter Schmidt) fæddist í bænum Ronneburg í austanverðu Þýskalandi árið 1929 og nam þar tónlistarfræði sín en hann hafði verið prófessor við Mendelsohn tónlistarakademíuna í Leipzig í Austur Þýskalandi þegar hann var ráðinn sem tónlistarkennari og skólastjóri Tónlistarskólans á Siglufirði haustið 1961.

Á Siglufirði hafði hann fremur hægt um sig fyrstu tvö árin en síðan hóf hann að láta til sín taka í tónlistarlífi bæjarins. Haustið 1963 tók hann við Karlakórnum Vísi en starf kórsins hafði þá verið í nokkurri lægð nokkur ár á undan eftir reyndar blómlegt starf þar á undan. Segja má að Geirharður hafi lyft Grettistaki í starfi kórsins sem varð á tiltölulega skömmum tíma landsfrægur fyrir gæði, kórinn fór til að mynda í fræga söngför til Danmerkur 1966 og á MIDEM ráðstefnuna í Frakklandi tveimur árum síðar þar sem hann hlaut viðurkenningu fyrir söng sinn. Karlakórinn Vísir sendi jafnframt frá sér nokkrar plötur í tíð Geirharðar, þ.á.m. plötuna Þótt þú langförull legðir sem seldist í um þrjú þúsund og fimm hundruð eintökum sem þótti einstakt fyrir kóraplötu.

Karlakórinn Vísir fór einnig í samstarf við bítlasveitina Gauta á Siglufirði en Geirharður gekk í þá sveit 1966 og gerðist bassaleikari sveitarinnar, starfaði með henni næstu árin og lék með henni á nokkrar plötur m.a. í samstarfi við karlakórinn, Geirharður lék einnig á trompet með sveitinni og reyndar lék hann á fjölda hljóðfæra enda með eindæmum fjölhæfur tónlistarmaður.

Geirharður sem hlaut íslenska ríkisborgararétt árið 1966 og var þá gert að taka upp hið íslenska nafn, gegndi ýmsum öðrum tónlistartengdum störfum á Siglufirði en þeim sem sneru að tónlistarskólanum, karlakórnum Vísi og Gautum, hann stjórnaði einnig Lúðrasveit Siglufjarðar og Kirkjukór Siglufjarðar til fjölda ára, setti kabarett á svið í bænum, samdi tónlist m.a. fyrir Gauta og Vísi, útsetti tónlist og þannig mætti áfram telja.

Veturinn 1974 og 75 starfaði Geirharður með siglfirsku hljómsveitinni Miðaldamönnum en um það leyti flutti hann suður yfir heiðar og starfaði á höfuðborgarsvæðinu um tíma, hann lék þá m.a. með Lúðrasveit Reykjavíkur og hljómsveit FÍH auk þess að leika með tríóinu Æsum, þá stjórnaði hann um skeið Karlakór Keflavíkur.

Svo virðist sem Geirharður hafi flutt af landi brott fljótlega upp úr miðjum áttunda áratugnum og er hér giskað á að hann hafi flust til heimalandsins en hann lést í Berlín árið 2010, þá kominn á níræðis aldur.