Séra Hannes & saurlífisseggirnir (1994-)

Hljómsveitin Séra Hannes & saurlífisseggirnir mun hafa átt sér forsögu í kringum 1970 en meðlimir sveitarinnar störfuðu þá í hljómsveitinni Næturgölunum / The Nightingales. Þeir félagar komu svo aftur saman undir þessu nafni árið 1994 þegar þeir fögnuðu 25 ára stúdentsafmæli, Hannes Örn Blandon trommuleikari Næturgala var þá orðinn prestur og því þótti við hæfi að sveitin bæri þessa nafngift, aðrir meðlimir Næturgala höfðu verið Magnús Á. Magnússon gítarleikari, Stefán Halldórsson bassaleikari og Hannes Jón Hannesson gítarleikari og söngvari en ekki liggur fyrir hvort sá síðast taldi var einn saurlífisseggjanna.

Upplýsingar um Séra Hannes og saurlífisseggina eru af fremur skornum skammti en sveitin hefur starfað með hléum allt fram á þennan dag og hefur liðsskipan hennar verið eitthvað breytileg, þannig hefur t.d. gítarleikarinn Dýri Guðmundsson leikið með sveitinni auk þeirra Hannesar, Stefáns og Magnúsar.