Haraldur Reynisson (1966-2019)

Haraldur Reynisson

Haraldur Reynisson (Halli Reynis) var afar afkastamikill tónlistarmaður bæði hvað varðar útgáfu og spilamennsku og naut hann töluverðra vinsælda og virðingar í tónlistarheiminum. Hann sendi frá sér tíu plötur, þar af átta sólóplötur og fjölmörg laga hans hafa notið vinsælda.

Haraldur var fæddur í Reykjavík (1966) og skilgreindi sig sem Breiðhylting en þar bjó hann lengst af ævi sinnar. Hann hafði á unglingsárum lítillega fengist við tónlist og samdi sinn fyrsta texta fimmtán ára en textar hans þóttu vel yfir meðallagi og innihéldu oft á tíðum eins konar ádeilu eða gagnrýni á samfélagið.

Það kom ekki til af góðu að Halli gerðist tónlistarmaður, hann lenti í slæmu vinnuslysi nítján ára gamall þegar hann þríbrotnaði á fæti og var af þeim sökum óvinnufær í marga mánuði. Þá tók hann upp á því að kenna sjálfum sér á gítar en hann hafði eitthvað notið leiðsagnar móður sinnar einnig áður á hljóðfærið, þá lærði hann eina önn í Gítarskóla Ólafs Gauks. Haraldur var fljótur að ná tökunum á gítarnum og smám saman byggði hann upp prógramm með blöndu sígildra slagara og frumsaminna laga og hóf að koma fram sem trúbador.

Á næstu árum var Haraldur duglegur að troða upp á pöbbum höfuðborgarsvæðisins svo sem á Fógetanum sem varð hans aðalvígi um nokkurra ára skeið en einnig á stöðum eins og Feita dvergnum o.fl., hann spilaði aðallega lögin „sem fólkið vildi heyra“ en laumaði inn einu og einu frumsömdu þegar það var hægt og öðlaðist þannig sjálfstraust til að koma eigin efni á framfæri. Haraldur fór jafnframt að fara út á landsbyggðina þar sem hann lék víðast hvar á pöbbum sem þá voru að spretta upp í kjölfar þess að sala bjórs hafði verið gefin frjáls á Íslandi 1989, hann fór einnig árið 1991 til Kaupmannahafnar og spilaði þar á pöbbum þannig að hann aflaði sér mikillar reynslu í pöbbaspilamennsku á þessum árum. Þetta sama ár hófst samstarf Haraldar við Hörð Torfa sem um það leyti var að koma heim eftir áralanga útlegð í Danmörku en Hörður hafði einmitt verið eitt helsta átrúnaðargoð Halla sem trúbador. Þetta samstarf varð til þess að Haraldur kom þó nokkuð við sögu sem gítarleikari á plötu Harðar sem bar nafnið Kveðja.

Það var svo árið 1992 sem fyrsta lag Halla kom út á plötu en það var lag sem bar heitið Jólasveinar á þingi og kom út á safnplötunni Lagasafnið 2, lagið vakti að vonum litla athygli enda fór þessi safnplata ekki hátt en var hluti af safnplöturöð sem gaf tónlistarfólki kost á að koma sér á framfæri. Smám saman varð Haraldur sýnilegri öðrum en þeim sem mættu á pöbbaröltið, hann kom fram í menningarþættinum Litrófi í Ríkissjónvarpinu vorið 1993 og um svipað leyti hafði hann gert tilraun til að setja saman hljómsveit sem varð að vísu skammlífi því trúbadoraformið hentaði honum mun betur, og svo kom að því að hann sendi frá sér sína fyrstu plötu um haustið 1993 en hún hafði verið hljóðrituð í Stúdíó Gný snemma árs og fékk hann til fulltingis með sér nokkra valinkunna tónlistarmenn eins og Tryggva Hübner, Magnús Einarsson, Hörð Torfa o.fl. Platan bar nafnið Undir hömrunum háu og hafði að geyma tíu frumsamin lög sem skilgreina mætti sem trúbadorapopp, einföld lög við vandaða texta. Lagið Þjóðarsálin hlaut töluverða spilun og varð vinsælasta lag plötunnar og heyrist stöku sinnum enn spilað á ljósvakamiðlum, upplag plötunnar (1000 eintök) seldist upp en einnig voru framleiddar 250 kassettur. Platan hlaut ennfremur prýðilegar viðtökur gagnrýnenda, ágæta dóma í DV, Degi og Pressunni og þokkalega einnig í Morgunblaðinu.

Haraldur Reynisson

Með þetta fljúgandi start hélt Halli sínu striki, lék áfram mikið á pöbbum höfuðborgarsvæðisins og úti á landi og átti eftir að fjármagna útgáfu platna sinna með þeirri spilamennsku, reyndar mun hann hafa haft tónlistina að aðalstarfi mestallan áratuginn. Næsta sumar (1994) komu tvö ný lög út með honum á safnplötunni Já takk sem Japis gaf út en Japis hafði einmitt annast dreifingu á plötunni árið á undan. Annað laganna, Allt sem ég óska mér naut nokkurra vinsælda sumarið 1994 en minna fór fyrir hinu laginu (Flaskan). Og þannig hélt það áfram næsta ár, 1995 að pöbbaspilamennskan var í fyrirrúmi, mest á Fógetanum. Hann hóf að vinna að nýrri plötu snemma um vorið með Björgvin Gíslason með sér sem aðstoðarmann, og hún kom svo út um haustið undir nafninu Hring eftir hring, hann gaf hana út sjálfur eins og fyrri plötuna og þannig átti það eftir að vera nánast alltaf síðan. Platan fékk prýðilegar viðtökur eins og hin fyrri, Halli hafði ætlað sér að senda hana frá sér fyrr en fannst hann ekki vera tilbúinn fyrr en þarna enda var hann vel meðvitaður um meiri kröfur yrðu gerðar til hans nú þegar menn þekktu orðið til laga- og textasmíða hans. Þannig fékk hún mjög góða dóma í Morgunblaðinu og ágæta einnig í Degi og DV, og fylgdi Haraldur plötunni eftir með tónleikahaldi – m.a. tónleikaferð um landsbyggðina. Lagið Nátthrafnar steig einna hæst af þessari plötu og Í fjólubláum ljósum heyrðist einnig nokkuð, en ekkert laganna náði viðlíka vinsældum og lögin Þjóðarsálin og Allt sem ég óska mér höfðu gert áður.

Næstu tvö árin fór minna fyrir Haraldi, hann sinnti aðallega pöbbaspilamennsku en hafði sig lítið í frammi, hann sendi frá sér eitt lag á safnplötunni Ávextir árið 1996 en það hafði verið á plötunni sem kom út árið á undan. Það var svo um haustið 1997 sem næsta plata kom út og það nokkuð óvænt því sjálfur hafði hann ekki einu sinni haft í hyggju að senda frá sér plötu, tildrög þess voru þau að hann fór í hljóðver með kassagítarinn til að taka upp lög fyrir sjálfan sig en leist svo vel á útkomuna að hann ákvað að gaf hana út undir nafninu Trúbadúr – sem er réttnefni því hann er þar nánast einn á ferð með gítarinn og munnhörpuna en reyndar var bassaleikarinn Jakob Smári Magnússon honum innan handar einnig. Platan fékk eins og aðrar plötur Halla góða dóma í Degi og Stúdentablaðinu og ágæta einnig í Morgunblaðinu og DV. Halli fylgdi plötunni ekki eftir með sama krafti og áður, og í kjölfarið fluttist hann ásamt fjölskyldu sinni til Danmerkur þar sem hann átti eftir að ala manninn næstu fjögur árin í nágrenni Árósa. Eitt nýtt lag (Móðir barnanna minna) kom út árið 1998 á safnplötunni Ástarperlur 2.

Haraldur var ekki aðgerðalaus í tónlistinni á Danmerkur árum sínum því hann endurnýjaði tónlistarleg kynni sín við Þorvald Flemming Jensen sem hann hafði unnið lítillega með nokkrum árum fyrr, en þeir félagar sendu frá sér plötuna Myndir sem kom út árið 2000 – platan fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu og fyrsta lag hennar, Þú ert svo sæt hlaut nokkra útvarpsspilun. Tvímenningarnir komu heim til Íslands og héldu fáeina tónleika í tilefni af útgáfu plötunnar en að öðru leyti var henni lítið fylgt eftir, Halli kom þó heim stöku sinnum og spilaði hér en gerði lítið af því í Danmörku. Í blaðaviðtali kvaðst hann jafnvel vera að hugsa um að gefa út plötu í Danmörku og líklega hafði hann unnið nokkur lög ytra sem komu þó ekki út. Um svipað leyti kom Halli lítillega við sögu á plötu með lögum Þormars Ingimarssonar.

Halli Reynis

Samstarf Haraldar við pönksveitina Fræbbblana hófst í Danmörku þegar hann hafði milligöngu um spilamennsku þeirra í Danmörku, í kjölfarið samdi hann lag sem hann vann með sveitinni (Fölar rósir) en það kom út á plötu Fræbbblanna – Dót, sem kom út 2004.

Haraldur fluttist aftur heim til Íslands árið 2002 og nú hafði orðið breyting á háttum hans, hann hóf að vinna „venjulega“ dagvinnu en hafði tónlistina sem aukagrein í stað þess að tónlistin skipaði fyrsta sætið. Um leið breyttist spilamennskan á þann veg að nú hélt hann tónleika þar sem hann flutti eigið efni í stað þess að leika ballslagara úr ýmsum áttum og frá ýmsum tímum fyrir misdrukkið fólk, hann hafði sjálfur hætt að drekka meðan hann bjó í Danmörku en drykkjan hafði verið farin að taka yfir hjá honum, og tók hann nú upp heilbrigðari lífshætti. Halli var því ekki nándar nærri eins áberandi og áður í spilamennskunni en valdi verkefni þeim mun betur, lék t.a.m. á trúbadorahátíðinni á Norðfirði og hélt tónleika víða um land.

Árið 2004 kom næsta plata Haraldar út, hún bar nafnið Við erum ein og þar naut titillagið nokkurra vinsælda, platan þótti almennt mjög vel heppnuð og hlaut hún t.a.m. frábæra dóma í Morgunblaðinu og á Rás 2. Hún hafði verið tekin upp „lifandi“ og með honum í hljóðverinu voru Kristján Kristjánsson (KK) sem lék á slide gítar, Jón skuggi á kontrabassa, Erik Qvick á trommur og Örn Hjálmarsson gítarleikari en sá síðast taldi vann töluvert með Haraldi. Lag af plötunni kom jafnframt út á plötunni Acoustic Iceland: The definitive music collection / Tónmilda Ísland.

Samstarf Haraldar við Fræbbblana hélt áfram og að þessu sinni stóðu þeir saman að því ásamt Hirti Howser að halda Herði Torfa heiðurstónleika í tilefni sextugs afmælis hans haustið 2005. Þeir komu einnig sjálfir fram á tónleikunum sem haldnir voru í Borgarleikhúsinu en tónleikarnir voru síðar gefnir út á plötu.

Þó svo að Haraldur væri ekki eins áberandi og áður á tónleikasviðinu var hann afkastamikill árið 2006 þegar hann sendi frá sér tvær plötur, fyrst kom platan Leiðin er löng um vorið og var sú plata hreinræktuð trúbadoraplata þar sem hann var einn á ferð með gítar og munnhörpu, líkast til var um að ræða eina allra fyrstu slíka plötu hérlendis – hún hlaut prýðilega dóma í Morgunblaðinu. Um svipað leyti og platan var að koma út gerði Músík ehf. honum tilboð um útgáfusamning og um haustið kom því önnur plata hans út á fáeinum mánuðum, hún hét Fjögurra manna far og fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu en með honum á plötunni voru nokkrir af þeim sem unnið höfðu með honum á Við erum ein. Fjögurra manna far var fyrsta og eina plata Haraldar sem hann gaf ekki út sjálfur.

Á næstu árum lét Halli plötuútgáfu vera en var þó ekki fjarri hljóðversvinnu, þannig kom hann nokkuð við sögu á plötu Guðmundar R. Gíslasonar – Íslensk tónlist sem kom út árið 2007 og tveimur árum síðar birtist hann einnig á plötu Matthíasar Ægissonar – Vegferð, um það leyti hafði bankakreppan skollið á og átti hann lag í svokallaðri bjartsýnissöngvalagakeppni sem Rás 2 stóð fyrir til að rífa þjóðina upp úr kreppuþunglyndinu. Á tveggja ára tímabili birtist hann svo tvívegis í undankeppni Eurovision keppninnar, annars vegar 2011 með lagið Ef ég hefði vængi, hins vegar 2013 með lagið Vinátta.

Haraldur Reynisson

Árið 2013 kom út eins konar safnplata Halla Reynis sem bar titilinn Skuggar 1993-2013, kannski mætti segja að titill plötunnar hafi gefið til kynna andlega líðan hans en hann mun hafa átt misjafna daga þegar hér var komið sögu. Á plötunni var að finna átta lög sem áður höfðu komið út á plötum hans en einnig lög sem höfðu komið út á safnplötum og Eurovision plötum, aukinheldur var að finna þrjú ný lög sem ekki höfðu komið út áður.

Haraldur var á þessum árum farinn að kenna á gítar og hafði fundið að kennsla ætti ágætlega við hann, hann menntaði sig því í kjölfarið sem grunnskólakennari og hóf störf við Ölduselsskóla árið 2008 þar sem hann kenndi tónmenntir við góðan orðstír og miklar vinsældir og setti m.a. á svið söngleiki með nemendum sínum með frumsömdum lögum. Í meistaranámi hans við menntavísindasvið Háskóla Íslands tengdist lokaverkefni hans sögu vesturfaranna til Kanada seint á 19. öldinni og m.a. var hluti þess verkefnis söngleikur með frumsömdum lögum sem hann hélt áfram að vinna með eftir útskrift með útgáfu í huga. Samhliða því dró hann úr tónleikahaldi sjálfur en tók þess í stað meiri þátt í spilamennsku vestur í Dölum þar sem hann tók þátt í tónlistarstarfi harmonikkufélagsins Nikkólínu í Dalasýslu en eiginkona hans var ættuð úr Dölunum og voru þau með annan fótinn þar.

Árið 2018 kom svo út plata Halla sem hann vann í samstarfi við Vigdísi Jónsdóttur harmonikkuleikara en einnig voru meðleikararnir Jóhann Ásmundsson bassaleikari, Sigurgeir Sigmundsson gítarleikari og Dan Cassidy á plötunni sem bar nafnið Ást og friður. Þessi plata fór ekki hátt og e.t.v. höfðu andleg veikindi hans eitthvað með það að gera.

Það er óhætt að það hafi komið fólki í opna skjöldu þegar fréttist haustið 2019 að Halli væri látinn aðeins fimmtíu og þriggja ára gamall en veikindi hans höfðu þá tekið yfirhöndina með þessum afleiðingum. Þá lágu eftir hann sjö sólóplötur og tvær plötur í samstarfi við aðra með á annað hundrað laga, einnig hafa aðrir flutt lög hans á plötum s.s. Íris Edda Jónsdóttir og Aðalsteinn Bjarnþórsson.

Fljótlega eftir fráfall Haraldar var ákveðið að ljúka Vesturfara-verkefni hans með útgáfu plötu með tónlistinni úr söngleiknum, það var tvíburabróðir hans, Gunnlaugur sem leiddi verkefnið og platan kom svo út snemma árs 2021 undir nafninu Söngvar vesturfaranna. Með þeirri plötu lýkur útgáfusögu Haraldar Reynissonar.

Þess má geta að minningarsíðu er haldið úti í nafni Halla Reynis.

Efni á plötum