Andlát – Halli Reynis (1966-2019)

Haraldur Reynisson

Tónlistarmaðurinn Haraldur Reynisson (Halli Reynis) er látinn aðeins tæplega fimmtíu og þriggja ára gamall.

Halli Reynis fæddist í Reykjavík á fullveldisdaginn 1966, yngstur systkina ásamt eineggja tvíburabróður sínum en þeir áttu tvær eldri systur.

Framan af var fátt sem benti til að hann yrði tónlistarmaður, hann naut aðstoðar móður sinnar við að læra á gítar en kenndi svo í raun sjálfum sér á hljóðfærið. Halli mun hafa verið í eins konar hljómsveit sem strákur en sú sveit kallaðist Fótbrot og kannski má kalla það kaldhæðni örlaganna að það var einmitt fótbrot sem olli því að hann lagði tónlistina fyrir sig. Hann hafði þá lent í vinnuslysi, þríbrotnað á fæti og það varð til að hann lagði fyrir sig gítarleikinn fyrir alvöru, hóf að semja tónlist og texta og starfa sem trúbador.

Fyrstu kynni Halla af hljóðversvinnu var þegar hann kom lítillega við sögu á plötu með Herði Torfa (1991) og í kjölfarið sendi hann frá sér sitt fyrsta lag, á safnplötunni Lagasafnið 2 árið 1992. Fyrsta plata Halla kom út ári síðar og hét Undir hömrunum háu, lagið Þjóðarsálin sló í gegn af þeirri plötu og kom honum á tónlistarkortið. Næsta plata kom út 1995 og hét Hring eftir hring, og sú þriðja 1997 undir nafninu Trúbadúr.

Halli flutti til Danmerkur ásamt fjölskyldu sinni 1998 og bjó þar til ársins 2002 en árið 2000 sendi hann frá sér plötuna Myndir ásamt Þorvaldi Flemming Jensen. Eftir að heim til Íslands var komið aftur gaf hann út plötuna Við erum eins árið 2004 þar sem er að finna lagið Velkomin heim sem naut nokkurra vinsælda, og árið 2006 komu út tvær plötur með honum, Leiðin er löng og Fjögurra manna far.

Eftir það varð nokkurt hlé á útgáfusögu Halla Reynis, hann hóf kennaranám árið 2008, lauk B.ed. prófi 2011 og MA-prófi árið 2014 og hóf að starfa sem tónmenntakennari við Ölduselsskóla þar sem hann starfaði til dauðadags.

Árið 2013 kom út tuttugu laga safnplata með úrvali laga Halla Reynis, Skuggar 1993-2013 og haustið 2018 kom út hans síðasta plata, Ást og friður, sem hann vann ásamt Vigdísi Jónsdóttur harmonikkuleikara. Hann hafði verið að vinna að nýrri plötu þegar hann lést, en sú plata átti að koma út vorið 2020.

Alls hafa komið út sex sólóplötur með Halla Reynis, tvær plötur ásamt öðrum auk einnar safnplötu, alls níu plötur en á annað hundrað laga eftir hann hafa komið út á plötum. Þá er tónlist hans, söng og hljóðfæraleik að finna á fjölda platna annarra listamanna, s.s. með Herði Torfa, Guðmundi R. Gíslasyni, Fræbbblunum, Matthíasi Ægissyni, Þormari Ingimarssyni o.fl. auk fjölda safnplatna. Hann hefur einnig tekið þátt í undankeppnum Eurovision keppninnar og tvívegis keppt í úrslitum undankeppninnar, árin 2011 og 2013.

Tónlist Halla hefur verið skilgreind sem eins konar kántrískotið trúbadorapopp sem hefur fallið landsmönnum vel í geð í gegnum tíðina og textar hans þykja einstaklega einlægir og persónulegir.

Haraldur lætur eftir sig eiginkonu og þrjá syni.