Haraldur Guðni Bragason (1947-2009)

Haraldur Guðni Bragason

Tónlistarmaðurinn Haraldur Guðni Bragason fór eins og svo margir slíkir um víðan völl á ferli sínum en hann starfaði sem tónlistarmaður, tónlistarkennari og -skólastjóri, organisti og kórstjóri auk þess sem hann sendi frá sér tvær plötur.

Haraldur Guðni Bragason fæddist á Vopnafirði vorið 1947 og var á sínum yngri árum í hljómsveitum fyrir austan en hann var kominn suður til Reykjavíkur fyrir tvítugt og starfaði þá sem gítarleikari með hljómsveitinni Örnum áður en hann stofnaði sveit í eigin nafni (H.B. kvintettinn) en Hljómsveit Gunnars Kvaran var stofnuð upp úr þeirri sveit áður en Ernir voru endurreistir árið 1970.

Haraldur nam píanóleik hjá Rögnvaldi Sigurjónssyni og síðan á orgel hjá Jakobi Tryggvasyni á Akureyri áður en hann fór til Þýskalands og nam þar frekari orgelfræði. Það var líklega að lokinni Þýskalandsdvöl Haraldar að hann hóf að starfa sem tónlistarkennari víða um land upp úr 1980, fyrst í Hrísey þar sem hann var í tvo vetur og starfaði þar sem organisti, kórstjóri og tónlistarkennari eins og víðast hvar síðar – í Hrísey mun hann hafa sett á svið söngleik með nemendum sínum þar sem hann samdi tónlistina en systir hans, Unnur Sólrún Bragadóttir mun hafa gert textana. Eftir Hríseyjardvölina starfaði hann á Fáskrúðsfirði þar sem hann sinnti svipuðum störfum um þriggja ára skeið, hann var þar einnig virkur í leikfélaginu á staðnum og sá um tónlistarstjórnun á leiksýningum auk þess að semja tónlistina.

Næstu árin kom Haraldur víða við sem organisti, kórstjóri og tónlistarkennari (og reyndar einnig sem skólastjóri tónlistarskóla) en hann starfaði um eins árs skeið í Vík í Mýrdal, fór þaðan til Hafnar í Hornafirði þar sem hann mun einnig hafa starfað með danshljómsveit, þaðan fór hann til Djúpavogs og starfaði þar í nokkur ár til 1991 en þar stjórnaði hann bæði Samkór Djúpavogs og kvennakór á staðnum. Haraldur var um skamman tíma í Bolungarvík en var eftir það mestmegnis í Dölunum og á Reykhólum það sem eftir var, reyndar einnig um skeið á Þórshöfn. Á Reykhólum og í Dölunum sinnti hann svipuðum verkefnum og áður, var organisti og kórstjóri við nokkrar kirkjur, stjórnaði einnig um tíma Samkór Reykhólahrepps og var með barnakór þar líka, þá starfaði hann bæði við tónlistarkennslu og skólastjórnun tónlistarskóla.

Í kringum aldamótin komu út tvær plötur með tónlist Haraldar, annars vegar árið 1999 sendi hann frá sér plötu með frumsömdu efni sem hann vann líkast til að mestu sjálfur, sú plata bar heitið Embla og í plötudómi um hana í Morgunblaðinu var tónlistinni líkt við Charles Ives, Captain Beefheart, Frank Zappa, John Zorns og hljómsveitina Residents „og það á sýru“ – eins og það var orðað. Önnur plata Haraldar, Askur kom út tveimur árum síðar og var með svipuðum hætti enda hlaut hún viðlíka dóma í Morgunblaðinu, sem vel að merkja voru jákvæðir en tónlistin myndi líkast til falla undir það sem flokkað hefur verið undir hamfarapopp.

Haraldur lést haustið 2009 en hann var þá sextíu og tveggja ára gamall.

Efni á plötum