Haraldur Sigurðsson [2] (1942-)

Haraldur Sigurðsson

Flestir þekkja nafn Haraldar Sigurðsson, Halla – sem helminginn af tvíeykinu Halli og Laddi og einnig sem einn þremenninganna í HLH-flokknum, hann var í þeim í eins konar „skuggahlutverkum“ og sjaldnast í aðal sviðsljósinu en þegar grannt er skoðað á Halli býsna merkilegan og vanmetinn söng- og skemmtikraftaferil sem á skilið miklu meiri athygli en verið hefur hingað til.

Haraldur Sigurðsson er fæddur í Hafnarfirði 1942 og er eldri hálfbróðir Ladda sem hann starfaði lengi með, þeir bræðurnir ólust þó upp hvor í sínu lagi og var Haraldur lengstum hjá ömmu sinni og afa austur í Rangárvallasýslu, þeir bræðurnir kynntust þó þegar Laddi fór þangað í sveit á sumrin.

Það var einmitt austur í Rangárvallasýslu sem tónlistarferill Halla hófst en það var í skólahljómsveit i Héraðsskólanum á Skógum þar sem hann var við nám. Sú hljómsveit bar heitið Capella og var Halli söngvari sveitarinnar, í kjölfarið söng hann með fleiri hljómsveitum á Suðurlandi, Blástökkum / Echo og Limbó sem starfaði á Selfossi en síðan með Trixon og Drekum á höfuðborgarsvæðinu um miðjan sjöunda áratuginn. Í þeirri sveit mun hafa verið Bandaríkjamaður og þegar hann fór til síns heima ákvað Halli að heimsækja hann og fór sjálfur vestur um haf til Jacksonville í Texas og dvaldi þar í nokkra mánuði – þar stofnuðu þeir félagar hljómsveitina Halli & the hobos og spilaði sveitin töluvert þar.

Að þeirri ævintýradvöl lokinni kom Halli aftur heim, endurreisti Dreka sem starfaði í skamman tíma og gekk svo til liðs við hljómsveitina Faxa þar sem Laddi bróðir hans var einmitt trommuleikari – og lágu leiðir þeirra bræðra því saman um tíma. Faxar ferðuðust m.a. um landið sumarið 1967 ásamt bandaríska söngvaranum Al Bishop og fóru síðan til Noregs þar sem sveitin spilaði víða, Faxar urðu svo frægir að senda frá sér eina smáskífu. Laddi hætti í Föxum 1968 og Halli nokkrum mánuðum síðar eftir Svíþjóðartúr og þar með má segja að hljómsveitaferli hans hafi lokið og næsta skeið hafist.

Haraldur söngvari Halli and the hobos

Haraldur hóf að starfa hjá Ríkissjónvarpinu sem leikmunavörður en sú stofnun var þá nýtekin til starfa og var enn í mótun, tilviljun réði því að Laddi kom þangað einnig til starfa árið 1971 en þeir bræður höfðu þá ekkert hist í þrjú ár. Innan veggja Sjónvarpsins voru þeir bræður eitthvað að sprella svo eftir var tekið og það fór svo að Andrés Indriðason sem þar var í stjórnunarstarfi fékk þá bræður til að ljá tveimur leikbrúðum raddir sínar en þær brúður báru nöfnin Glámur og Skrámur, Halli var Glámur og Laddi Skrámur. Í framhaldi af því byrjaði boltinn að rúlla og þeir bræður urðu landsþekktir skemmtikraftar, Glámur og Skrámur urðu afar vinsælir í meðförum þeirra bræðra – fyrst í skemmtiþáttum en síðan í Stundinni okkar og í framhaldi af því byrjuðu þeir bræður að leika (t.d. í sjónvarpsþáttum) og skemmta sjálfir með eigið frumsamið prógramm sem byggt var að nokkru leyti á húmor bandaríska háðfuglsins Spike Jones, með skrítnum hljóðum, eftirhermum, fettum, grettum og „mæmi“, sem þá var vægast sagt ferskt innlegg í fábreytileika íslenska skemmtiiðnaðarins sem fram að því hafði nánast einvörðungu snúist um gamanvísnasöng og eftirhermur stjórnmálaskörunga. Ekki voru þó alveg jafn hrifnir af þessari nýju listgrein og stundum mátti litlu muna að þeir bræður gæfust upp fyrir fulltrúum eldri kynslóðanna sem fannst þetta eintómur fíflaskapur og eiga lítt skylt við íslenska fyndni. Þegar mest var á þessum tíma að gera hjá þeim var ekki óalgengt að þeir væru að skemmta 13-14 sinnum í viku og metið þeirra var líklega þegar þeir skemmtu átta sinnum sama daginn. Grín þeirra bræðra rataði auðvitað í Sjónvarpið líka svo landsmenn allir þekktu þá bræður, og það eru líklega engar ýkjur þegar sagt er að Halli og Laddi hafi gjörbreytt grínlandslaginu á Íslandi.

Halli hafði sem fyrr er nefnt leikið á smáskífu Faxa í Noregi en árið 1975 var komið að því að hann syngi í fyrsta sinn inn á plötu en það var platan Róbert bangsi í Leikfangalandi þar sem hann var reyndar ekki í neinu aðalhlutverki frekar en Laddi bróðir hans sem einnig söng á plötunni.

Halli og Laddi

Það var svo sumarið 1976 sem fyrsta plata þeirra bræðra kom út en hún var unnin í samstarfi við Gísla Rúnar Jónsson og bar nafnið Látum sem ekkert C, með þeirri plötu var stikuð ný leið í plötuútgáfu á Íslandi en á henni var að finna blöndu af „nýja gríninu“ og tónlist – svolítið í anda fyrrnefnds Spike Jones en lagað að íslenska markaðnum og hefur fyrir löngu orðið að klassík í íslensku gríni. Reyndar má segja að Gunnar Þórðarson eigi stóran þátt í plötugerðinni sem útsetjari og hljóðfæraleikari og víst er að platan (og plöturnar sem komu út í kjölfarið) hefðu aldrei orðið að því sem þær eru án hans aðkomu, Gunnar starfaði um þetta leyti í Bretlandi og þar var platan hljóðrituð. Hér er giskað á að hann hafi átt stóran þátt í raddsetningu á samsöng þeirra bræðra sem er stór partur af tónlistinni, Halli kom að textagerð plötunnar eins og á flestum plötum þeirra bræðra. Platan sló gjörsamlega í gegn og flest lög hennar hafa orðið sígildir grínsmellir s.s. Túri klúri, Guðfinna, Tygg-igg-úmmí og Ég er í svaka stuði svo dæmi séu nefnd. Í beinu framhaldi kom út jólaplatan Jólastjörnur um haustið þar sem þeir bræður fluttu þrjú lög sem öll hafa orðið sígild – syrpa með Glámi og skrámi, Leppur, Skreppur og Leiðindaskjóða og Sveinn minn jóla sem flestir þekkja enn í dag.

Næsta plata þeirra Halla og Ladda kom út 1977 og var hljóðrituð í Hljóðrita í Hafnarfirði, hún bar titilinn Fyrr má nú aldeilis fyrrverða og inniheldur líklega flesta þeirra stórsmelli, lögin Royi Rogers, Upp undir Laugarásnum, Austurstræti, Ó mig langar heim og Það var úti á Spáni nutu öll vinsælda og sem fyrr er það samsöngur og -leikur þeirra bræðra sem ber hæst, munurinn á þessari plötu og þeirri fyrstu (Látum sem ekkert C) er að nú var tónlistin í aðalhlutverki en engir grínsketsar milli laga, lögin þykja þó ekkert minna fyndin.

Og þannig hélt þetta samstarf bræðranna áfram allan áttunda áratuginn og höfðu þeir ærið nóg að gera við að skemmta og senda frá sér plötur, næsta plata – Hlúnkur er þetta kom út sumarið 1978 en þarna hafði Tómas M. Tómasson tekið við hlutverki Gunnars Þórðarsonar. Sú plata hafði að geyma enn fleiri sígilda grínsmelli eins og Reiðtúrinn, Tvær úr Tungunum, Gibba gibb, Mamma og ég, Ég pant spila á gítarinn mannanna, Nefið og fleiri lög, og ekkert lát var á vinsældum þeirra bræðra. Þeir Halli og Laddi höfðu farið sveitaballatúra með vinsælustu hljómsveitum landins sumrin á undan og sumarið 1978 voru þeir á ferð með Brimkló, það sumar varð til söngtríó þeirra bræðra og Björgvins Halldórssonar söngvara Brimklóar sem síðan hlaut nafnið HLH-flokkurinn en þeir gáfu út vorið 1979 sína fyrstu plötu sem bar nafnið Í góðu lagi. Sú plata sló í gegn eins og annað sem Halli hafði áður komið að og lög eins og Riddari götunnar, Kolbrún, Þú ert sú eina, La-la-la og Seðill nutu mikilla vinsælda en platan seldist í um 8000 eintökum sem var einstakt fyrir sumarplötu.

Halli og Laddi 1978

Þetta ár 1979 var líklega það ár sem frægðarsól Hall reis hvað hæst, því um svipað leyti og HLH-platan kom út birtust Skrýplarnir í fyrsta sinn á Íslandi þegar platan Haraldur í Skrýplalandi kom út. Á þeirri plötu var Halli í aðal hlutverki og í hlutverki föður Abrahams (eins og hann heitir upphaflega) sem heimsækir Skrýplana og syngur með þeim nokkur lög. Platan var ásamt plötu HLH-flokksins vinsælasta plata sumarsins þannig að varla mátti heyra lag leikið í útvarpi án þess að rödd Halla heyrðist. Um svipað leyti hófu að koma út á vegum Iðunnar teiknimyndasögur um Skrýplana undir nafninu Strumparnir (án þess að menn vissu hver af öðrum) en Strumpanafnið varð síðan ofan á. Platan var síðar endurútgefin um fimmtán árum síðar undir nafninu Halli og Laddi í Strumpalandi en þá léði Laddi strumpunum rödd sína. Enn var Haraldur í stóru hlutverki um haustið þegar platan Glámur og Skrámur í sjöunda himni kom út en þar var á ferð eins konar söngleikur þar sem þeir bræður Glámur og Skrámur (Halli og Laddi) fóru um víðan völl og heimsóttu m.a. Sælgætisland þar sem Nammisöngurinn og Tannpínusöngurinn voru kyrjaðir við miklar vinsældir og eru gjarnan enn. Enn er ótalið verkefnið Burt með reykinn sem þeir bræður komu að ásamt Brunaliðinu og fleira fólki en tveggja laga smáskífa kom út í tengslum við það átak gegn reykingum.

Eftir þetta má segja að skemmtanamynstur þeirra Halla og Ladda hafi aðeins breyst, reyndar kom út enn ein platan með þeim sumarið 1980 undir nafninu Umhverfis jörðina á 45 mínútum með sígildum grínslögurum eins og Ástarogsaknaðarófararharmleikur Diðriks og Júlíu í Týról, Tafist í Texas og Napólí, en þess í stað færðu þeir sig inn á veitinga- og skemmtistaðinn Þórscafe þar sem þeir héldu utan um Þórskabarett ásamt fleirum, þeir héldu þó áfram að skemmta á árshátíðum og öðrum skemmtunum en að öðru leyti dró Halli sig nokkuð í hlé á meðan Laddi hóf eiginlegan sólóferil sem skemmtikraftur og tónlistarmaður.

Haraldur hóf störf hjá bílaumboðinu Jöfri og þar átti hann eftir að starfa sem sölumaður og sölustjóri í mörg ár, og var reyndar nokkuð áberandi sem andlit fyrirtækisins í söluherferð umboðsins m.a. í sjónvarpi – þar bar hæst herferð sem gekk út á að fyrir útborgun á Skoda bifreið mætti kaupa 290 bomsur, sem þótti afar heppnuð auglýsingamennska. Skemmtanabransinn varð því eins konar hliðarverkefni Halla frá og með þeim tíma en hann átti þó eftir að vera næstu árin og áratugina viðloðandi skemmtanir eins og Þórskabarett, Næturvaktina, Ómladí – Ómlada, Hætt‘að telja, Er það satt sem þeir segja um landann og Laddi á Sögu, bæði sem kynnir og skemmtikraftur svo dæmi séu nefnd.

HLH flokkurinn með fríðu föruneyti

Halli var þó hvergi nærri hættur sem tónlistarmaður því hann átti eftir að vera töluvert áberandi sem söngvari áfram þótt ekki kæmi út sólóplata með honum. Hann söng t.d. þrjú lög á jólaplötunni Nálgast jóla lífsglöð kæti en sú plata kom út haustið 1981, og ári síðar söng hann tvö lög á safnplötunni Við djúkboxið.

HLH-flokkurinn skaust aftur fram á sjónarsviðið árið 1984 með plötu sem hét Í rokkbuxum og strigaskóm, og á þeirri plötu voru nokkuð vinsæl lög eins og Vertu ekki að plata mig, Hamingjulagið og Angelína, og um haustið kom svo út jólaplata með HLH-flokknum – Jól í góðu lagi, þar sem nokkur laganna urðu sígild s.s.  Rokkað í kringum jólatréð, Nei nei ekki um jólin og Skrámur skrifar jólasveininum. HLH-flokkurinn sendi svo frá sér enn eina plötuna árið 1989 undir nafninu Heima er best. Þarna mætti segja að Haraldur hafi að mestu verið hættur að syngja á plötum, áðurnefnd Halli og Laddi í Strumpalandi (1995) er þó undantekning en einnig má heyra rödd hans á plötum eins og Einn voða vitlaus (með Ladda 1985), jólaplötunni Jólaball með Dengsa (1991) og Jólaboðið (með Ólafi Þórarinssyni – Labba 1995). Þá þarf varla að taka fram að lög Halla og Ladda, HLH-flokksins og önnur sem Halli hefur verið viðloðandi, hafa komið út á ótal safnplötum og endurútgáfum í gegnum tíðina.

Efni á plötum