Helgi Pétursson [1] (1949-)

Helgi Pétursson

Helgi Pétursson, jafnan kenndur við Ríó tríó hefur komið víða við sögu og er þjóðþekktur í dag fyrir baráttu sína fyrir bættum kjörum aldraðra en áður starfaði hann lengi sem fjölmiðlamaður, hann var um tíma einnig í stjórnmálum en var þó kunnastur fyrir tónlistarferil sinn, sem söngvari og bassaleikari Ríó tríósins, hann hefur jafnframt sent frá sér tvær sólóplötur.

Helgi Pétursson kemur upphaflega úr Kópavoginum en hann er fæddur vorið 1949. Hann lærði sem unglingur lítillega á gítar og bassa og haustið 1965 stofnaði hann ásamt Ólafi Þórðarsyni og Halldóri Fannari Ríó tríó en það tríó hafði reyndar átt sér forvera sem Helgi kom ekki að. Ríó tríó varð fljótlega þekkt stærð í íslensku tónlistarlífi, þjóðlagapopp ívafið gríni sem féll vel að smekk landans og sendi frá sér hvern stórsmellinn á fætur öðrum allt til ársins 1973 en þá hafði Ágúst Atlason tekið við af Halldór Fannari nokkru fyrr – sveitin sendi frá sér á því átta ára tímabili þrjár smáskífur og fjórar breiðskífur við miklar vinsældir og hélt fjölda tónleika bæði innan lands og utan.

Samhliða Ríó-samstarfinu hafði Helgi lokið námi við Kennaraskóla Íslands og starfað um tíma við kennslu en hann hafði einnig fengist aðeins við dagskrárgerð í útvarpi undir lok sjötta áratugarins. Fljótlega eftir að Ríó tríóið hætti störfum fór hann í nám erlendis og sinnti því um tveggja ára skeið en hóf um svipað leyti einnig að starfa við fjölmiðla hér heima og átti eftir að starfa við það um árabil, bæði við dagskrárgerð í útvarpi og sem blaðamaður fyrir Tímann og Dagblaðið og fleiri dagblöð og tímarit síðar, og svo í sjónvarpi einnig og varð vel þekktur sem slíkur.

Helgi hvarf því aldrei úr sviðsljósinu og reyndar var hann töluvert áberandi sem fjölmiðlamaður og var m.a.s. kjörinn kynþokkafyllst karlmaður landsins af tímaritinu Samúel, hann var jafnframt vinsæll kynnir á skemmtunum og starfaði við veislustjórn og slíkt einnig.

Helgi á sviði með Ríó tríó

Ríó tríóið tók aftur til starfa um tíma á árunum 1976 og 77, hætti þá aftur og Helgi hafði ekki sungið um tveggja ára skeið þegar hann sendi frá sér sólóplötu vorið 1979. Sú plata hafði að geyma tíu lög – öll erlend nema titillagið Þú ert, sem var gamalt lag eftir Þórarin Guðmundsson sem var þekkt sem „íslenskt einsöngslag“ en Helgi klæddi það í poppbúning, ásamt Gunnari Þórðarsyni sem vann plötuna með honum (og gaf hana reyndar út undir útgáfumerkinu Ýmir) en Gunnar hafði verið náinn samstarfsmaður Ríó tríósins um árabil. Helgi hafði barist fyrir því að Ríóið myndi taka lagið og gera það að sínu en aldrei hlotið hljómgrunn fyrir því innan tríósins, lagið sló hins vegar í gegn í meðförum Helga og varð mjög vinsælt. Reyndar hafði staðið til að á undan útgáfu plötunnar kæmi út tveggja laga smáskífa með lögunum Kinn við kinn / Burt með þér en af einhverjum ástæðum kom sú skífa aldrei út – síðarnefnda lagið var ekki á breiðskífunni en það kom svo út á safnplötunni Villtar heimildir. Þess má geta að ung dóttir Helga, Bryndís söng eitt laganna með föður sínum, hún átti reyndar ekki eftir að feta tónlistarbrautina en það átti hins vegar yngsta barn Helga – Snorri Helgason eftir að gera, hann var þó ófæddur á þessum tíma.

Helgi samdi nokkra texta sjálfur á plötunni en hann hafði þá ekkert fengist við slíkt ef frá er talið textinn við lagið Ég sá þig snemma dags með Ríó tríóinu, þar sem hið eftirminnilega rím ágúst / á þúst kemur við sögu og er vel þekkt. Platan Þú ert hlaut ágæta dóma í Tímanum og Vísi og þokkalega í Morgunblaðinu, og seldist prýðilega en Helgi fylgdi útgáfu hennar eftir með því að koma fram ásamt hljómsveitinni Ljósunum í bænum eitthvað um sumarið.

Helgi hélt áfram að starfa við fjölmiðla og fór svo til Bandaríkjanna í fjölmiðlanám snemma á níunda áratugnum og starfaði þá um tveggja ára skeið sem fréttaritari Ríkisútvarpsins vestra en hann starfaði bæði sem fréttamaður og við almenna dagskrárgerð á sínum tíma. Um miðjan áratuginn gerðist hann einnig markaðsstjóri Samvinnuferða Landsýn og starfaði þar í mörg ár samhliða fjölmiðlastörfum en síðar starfaði hann einnig hjá Orkuveitunni og kom einnig lítillega að stjórnmálum – m.a. sem borgarfulltrúi um tíma.

Helgi Pétursson

Árið 1984 hafði Ríó tríóið birst á nýjan leik og tók nú aðallega þátt í tónlistarsýningum á Broadway og slíkum skemmtistöðum, sveitin fór aftur á flug og gaf út fjölda platna til viðbótar við þær sem áður höfðu komið út með henni og naut hún mikilla vinsælda. Ríóið starfaði allt til ársins 2010 en tríóinu var þá í raun sjálfhætt eftir að Ólafur Þórðarson varð fyrir lífshættulegri árás sem hann komst aldrei til meðvitundar eftir, en hann lést ári síðar. Á minningartónleikum og í nokkur skipti á eftir átti Snorri sonur Helga eftir að fylla skarð Ólafs en þar með lauk sögu þessa vinsæla þjóðlagatríós endanlega. Þeir feðgar Helgi og Snorri hafa starfað nokkuð saman að tónlistarmálum, lítið reyndar troðið upp saman en þó eitthvað en þeir hafa einnig komið í sameiningu að tónlistarhátíðinni Reykjavik Folk Festival.

Helgi sendi frá sér aðra sólóplötu árið 2004 en sú skífa hafði einvörðungu að geyma erlend lög við texta Jónasar Friðriks hirðskálds Ríó tríósins. Plata þessi bar heitið Allt það góða, en hún fór ekki mjög hátt – hún hlaut þó þokkalega dóma í Morgunblaðinu, Steinsnar, útgáfufyrirtæki Steinars Berg gaf plötuna út.

Hin síðustu ár hefur Helgi verið framarlega í baráttu eldri borgara fyrir bættum kjörum þeirra, hann var t.a.m. einn af stofnendum Gráa hersins, og hefur einnig verið stjórnarmaður í Félagi eldri borgara og formaður Landsambands eldri borgara.

Söng og bassaleik Helga má heyra á fjölmörgum plötum Ríó tríósins eins og lög gera ráð fyrir og einnig á safnplötum tengt því en einnig má heyra rödd hans á fáeinum plötum öðrum svo sem á plötum Ómar Ragnarssonar, Hermanns Gunnarssonar, Steinunnar Bjarnadóttur og hljómsveitarinnar Grasasna svo nokkur dæmi séu nefnd. Þá er einnig rétt að nefna að bassaleik Helga má einnig heyra á plötum með Possibillies – Töframaðurinn frá Riga (1988) og Sigrúnar Harðardóttur – ep (1968).

Efni á plötum