Helga Þórarinsdóttir (1955-)

Helga Þórarinsdóttir

Helga Þórarinsdóttir er líklega einn allra þekktasti lágfiðluleikari landsins, hún var lengi vel leiðari lágfiðluleikara í Sinfóníuhljómsveit Íslands og lék jafnframt með flestum þekktustu kammersveitum landsins auk þess að leika inn á fjölda útgefinna platna bæði í klassíska geiranum og léttpoppinu. Slys varð til að binda endi á spilaferil hennar en hún sneri aftur og hélt áfram kennslu og hljómsveitastjórnun eftir endurhæfingu.

Helga Þórarinsdóttir er fædd sumarið 1955 og hóf snemma að læra á lágfiðlu hjá Ingvari Jónassyni en hún lauk svo námi við Tónlistarskólann í Reykjavík vorið 1973 og hélt þá til Bretlands í framhaldsnáms og síðar einnig til Bandaríkjanna en hún lauk námi þaðan árið 1980. Hún hafði samt sem áður komið heilmikið við sögu hér heima samhliða námi og var t.a.m. líklega í Hljómsveit Árna Vilhjálmssonar sem var einn forvera Spilverks þjóðanna en Helga lék einmitt á fyrstu plötu Spilverksins, hún lék einnig á fáeinum öðrum plötum á áttunda áratugnum s.s. með Mannakornum og Melchior en hún kom líka fram á tónleikum með síðarnefndu sveitinni.

Strax á þeim árum var hún farin að koma fram á tónleikum bæði með smærri kammer- og strengjasveitum sem og t.d. Kammersveit Reykjavíkur – m.a. á Listahátíð í Reykjavík, Myrkum músíkdögum og víðar. Þá var hún einnig valin til að æfa með sinfóníuhljómsveit ungra norrænna hljóðfæraleikara árið 1974, nítján ára gömul, og síðar (1985) var hún valin til að vera fulltrúi Íslands í alþjóðlegri sinfóníuhljómsveit sem lék á tónleikum helgaðri minningu Alfred Nobel.

Að loknu náminu í Bandaríkjunum 1980 hélt hún sína fyrstu opinberu tónleika þegar hún lék ásamt bandaríska píanóleikaranum Önnu Taffel í Norræna húsinu, um það leyti var hún komin á fullt með Kammermúsíkklúbbnum og Sinfóníuhljómsveit Íslands einnig þar sem hún varð leiðandi lágfiðludeildarinnar frá og með 1983, það sama ár lék hún í fyrsta sinn einleik á lágfiðlu með Sinfóníuhljómsveit Íslands og það átti hún eftir að endurtaka í þó nokkur skipti næstu misserin. Hún lék inn á fjölda platna með sinfóníuhljómsveitinni og má þess geta að hún lék sem einleikari með sveitinni í Víólukonsert (e. Kjartan Ólafsson) sem kom út á plötunni Lambda með verkum eftir Kjartan en verkið vann til verðlauna sem Tónverk ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2001.

Helga Þórarinsdóttir 1985

Á næstu árum og áratugum eftir 1980 átti Helga jafnframt eftir að starfa með fjölmörgum smærri og stærri strengja- og kammersveitum, áður eru nefndar Kammersveit Reykjavíkur og Kammermúsíkklúbburinn en hér má einnig bæta við Musica nova, Hljómleikafélaginu, KaSa (Kammerhóp Salarins í Kópavogi), Sardas strengjakvartettnum, hljómsveit Íslensku óperunnar, Reykjavíkurkvartettnum og Nýju strengjasveitinni. Hún lék enn fremur inn á plötur m.a. með KaSa hópnum, Kammersveit Reykjavíkur og Kammermúsíkklúbbnum og einnig reyndar með La Grand Tango, tangóhljómsveit sem hún starfaði með um tíma.

Helga fékkst töluvert við tónlistarkennslu auk annarra tónlistartengdra starfa, hún kenndi við Tónlistarskólann í Reykjavík, Tónmenntaskólann í Reykjavík, Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Tónlistarskólann á Seltjarnarnesi. Í tveimur síðast nefndu skólunum stjórnaði hún einnig strengjasveitum barna og unglinga, sem þar störfuðu.

Helga lék inn á fjölda platna sem fyrr segir og skipta þær tugum, léttari tónlist var þar einnig innan um og má hér nefna hljómsveitir og tónlistarfólk eins og Vísnavini, Bjartmar Guðlaugsson, Eyjólf Kristjánsson, 1860, Bong og Hjaltalín. Sjálf hafði hún verið að vinna að sinni fyrstu plötu ásamt Dagnýju Björgvinsdóttur píanóleikara haustið 2012 þegar hún lenti í því slysi að fá aðsvif í tröppum og lenda það illa að hún hlaut mænuskaða og lamaðist fyrir neðan brjóst. Þetta áfall varð til þess að hún átti ekki eftir að leika á lágfiðluna á nýjan leik en með miklum baráttuvilja og krafti eftir endurhæfingu náði hún að komast aftur til kennslu og kenndi áfram og stjórnaði strengjasveitum við tónlistarskóla Sigursveins og á Seltjarnarnesi, og fór m.a.s. í nokkur skipti erlendis með sveitir sínar þrátt fyrir að vera bundin hjólastól. Tónlistarsamfélagið var einnig duglegt að styrkja hana eftir áfallið með ýmsum hætti og t.d. voru haldnir fyrir hana styrktartónleikar í Hörpu þar sem fjölmennt lið tónlistarmanna kom fram.

Platan sem Helga hafði verið að vinna með Dagnýju Björgvinsdóttur hafði verið tilbúin til útgáfu þegar slysið varð og kom út fljótlega eftir þetta áfall, hún bar titilinn Víólettur en eftirfylgnin með plötunni varð eðlilega ekki með þeim hætti sem áætlað hafði verið en hugmyndin hafði verið að fylgja henni eftir með tónleikaferð um landið – af því varð eðilega ekki. Platan hefur að geyma efni úr ýmsum áttum bæði íslenskt og erlent.

Um það leyti sem slysið varð hafði Helga stofnað ásamt systur sinni Eddu Þórarinsdóttur leik- og söngkonu (úr Þremur á palli) og Kristjáni Hrannari Pálssyni píanóleikara tríóið Tvær á palli með einum kalli, sú sveit hafði komið fram í nokkur skipti um sumarið 2012 og flutti m.a. kvikmyndatónlist úr ýmsum áttum, sem var nokkuð frábrugðið þeirri tónlist sem Helga hafði fengist við, en saga þeirrar sveitar varð eðlilega ekki lengri um haustið.

Segja má að Helga sé gott dæmi um manneskju sem verður fyrir miklu áfalli en vinnur úr því sem kostur er, hún breytti aðeins um starfsvettvang og aðlagaðist að breyttum aðstæðum – hún hefur t.a.m. einnig haldið fyrirlestra um tónlist, tónskáld og kammertónlist.

Efni á plötum