Afmælisbörn 15. mars 2024

Axel Kristjánsson

Afmælisbörn dagsins eru tvö að þessu sinni á Glatkistunni:

Sigurður Halldór Guðmundsson (Siggi Hjálmur) hinn ótrúlega fjölhæfi tónlistarmaður er fjörutíu og sex ára gamall á þessum degi en hann hefur leikið í mörgum af þekktustu sveitum íslenskrar tónlistarsögu, þar má nefna hljómsveitir eins og Hjálma, Senuþjófana, Baggalút, Memfísmafíuna, Tregasveitina og Skuggasveina en hann hefur einnig sungið og leikið á hljóðfæri á tugum ef ekki hundruðum platna síðustu árin. Sigurður er einnig útsetjari, upptökumaður og sjálfsagt eitthvað miklu meira.

Axel Kristjánsson gítar- og bassaleikari (fæddur 1927) átti afmæli á þessum degi en hann var af fyrstu kynslóð hljóðfæraleikara sem léku með danshljómsveitum víða um land. Axel lék bæði á bassa og gítar með ýmsum hljómsveitum og hér má nefna Tríó Jan Morávek, Tríó Kristjáns Magnússonar, H.G. sextett, Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar, Hljómsveit Jónatans Ólafssonar, Hljómsveit Björns R. Einarssonar og Dixielandhljómsveit Íslands en einnig starfrækti Axel hljómsveit í eigin nafni um tíma, bara svo fáeinar séu nefndar. Axel lést árið 2015.

Vissir þú að lagið Hvað er að ske? með Grýlunum heitir í raun Valur og jarðarberjamaukið hans?