
Baldur Baldvinsson
Fimm afmælisbörn koma við sögu á Glatkistunni í dag:
Baldur Baldvinsson, sem er annar Rangárbræðra (frá Rangá í Köldukinn) er sjötíu og fimm ára gamall á þessum degi. Hann hefur gefið út plötu með Baldvini bróður sínum, sungið í karlakórunum Hreimi og Goða nyrðra auk þess að syngja á plötu Aðalsteins Ísfjörð.
(Þórir) Karl Geirmundsson gítarleikari frá Ísafirði hefði átt afmæli á þessum degi en hann lést fyrr á þessu ári, hann lék í BG & Ingibjörgu með bróður sínum Baldri Geirmundssyni, en sú sveit gekk reyndar undir ýmsum nöfnum. Einnig lék Karl á sínum tíma með Hljómsveit Vilbergs Vilbergssonar (Villa Valla), Hljómsveit Björns R. Einarssonar og Lúdó & Stefáni svo nokkrar séu nefndar.
Sigríður Hannesdóttir leikkona, betur þekkt hér áður fyrr undir nafninu Krummi úr Stundinni okkar og sem ýmsar persónur í Brúðubílnum er níutíu og eins árs gömul í dag. Með Brúðubílnum skemmti Sigríður mörgum kynslóðum barna á leikskólaaldri um árabil auk þess að koma við sögu á tveimur plötum með honum, þá var hún einnig á smáskífu sem kom út með Rannveigu og Krumma. Sigríður hafði á yngri árum skemmt víða í revíusýningum og gaf út árið 2013 plötu með frumsömdu revíusöngvum.
Axel Haraldsson trommuleikari Hjaltalín er þrjátíu og sex ára gamall í dag. Hann hefur aukinheldur leikið með hljómsveitum eins og Reimum, Fallegum mönnum, Heiðurspiltum og Búdrýgindum, sem sigruðu Músíktilraunir árið 2002.
Jóhannes Vilhelm Guðmundsson Þorsteinsson (Jonni í Hamborg) hefði einnig átt afmæli þennan dag en hann var einn frumkvöðla í djasstónlist á Íslandi. Jonni (f. 1924) var píanóleikari sem hélt fyrstu djasstónleikana í Íslandssögunni í Gamla bíói 1946, aðeins þremur mánuðum síðar lést hann af slysförum í Danmörku.
Og að síðustu er hér nefndur Sigurður Ágústsson frá Birtingaholti í Hrunamannahreppi (1907-91) en hann átti afmæli á þessum degi einnig. Sigurður stjórnaði ýmsum kórum á sínum tíma, Flúðakórinn, Árnesingakórinn í Reykjavík og Karlakór Keflavíkur voru meðal þeirra en hann var jafnframt tónskáld og árið 1983 kom út plata með sönglögum hans undir titlinum Söngkveðjur: lög eftir Sigurð Ágústsson frá Birtingaholti.
Vissir þú að rappsveitin Tannlæknar andskotans frá Sauðárkróki var meðal þátttökusveita í Músíktilraunum 2002?