Jonni í Hamborg (1924-46)

Jonni í Hamborg

Jonni í Hamborg

Jonni í Hamborg (Jóhannes Gísli Vilhelm Þorsteinsson Guðmundsson) er ekki nafn sem margir tengja við íslenska tónlist en hann var á vissan hátt brautryðjandi í tónlistarlífi Íslendinga þegar hann hafði frumkvæði að því að standa fyrir fyrstu djasstónleikunum sem haldnir voru hér landi.

Jonni fæddist á Siglufirði 1924 en fluttist fljótlega til Akureyrar til fósturforeldra (móðursystur sinnar og eiginmanns hennar). Hann var alltaf kenndur við verslunina/verslunarhúsið Hamborg á Akureyri (og Siglufirði) sem fósturforeldrar hans ráku en hið langa nafn hans má einmitt rekja til þessa flókna fjölskyldumynsturs.

Jonni þótti músíkalskur strax á unga aldri og lærði á píanó og kornett (náskylt trompeti) á Akureyri en hann spilaði einnig eftir eyranu. Á unglingsárum lék hann með Lúðrasveit Akureyrar og var á þeim tíma þegar farinn að hlusta á djasstónlist, en sú tónlist þótti af flestum fremur ómerkileg tónlist, einkum þeim sem hlustuðu á klassíska tónlist.

Sextán ára gamall var hann farinn að leika með danshljómsveitum á Akureyri og Siglufirði en um það leyti fór hann til Reykjavíkur í píanó- og trompetnám. Á sumrin fór hann aftur á heimaslóðir og lék þar með Hljómsveit Sveins Ólafssonar á Hótel Akureyri, hann starfrækti þar eigin hljómsveit þegar Sveinn hætti með sína sveit.

Haustið 1945 hóf hann að leika með Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar í Reykjavík við góðan orðstír en það var síðan í apríl 1946 sem Jonni stóð fyrir fyrstu djasstónleikum sem haldnir voru hérlendis. Gamla bíó varð fyrir valinu og 11. apríl léku þar þeir Björn R. Einarsson básúnuleikari, Baldur Kristjánsson píanóleikari, Gunnar Egilson klarinettuleikari og Karl Karlsson trommuleikari ásamt Jonna en hann lék á trompet. Aðrir tónleikar voru haldnir fjórum dögum síðar.

Jonni í Hamborg Jóhannes Þorsteinsson

Jóhannes við flygilinn

Þetta sama vor (1946) kom söngkonan Elsa Sigfúss til landsins og hélt hér tónleika víða um land, Jonni varð undirleikari hennar í ferð hennar hér og í kjölfarið hélt hann til Danmerkur þangað sem hann hafði hug á að mennta sig betur í píanóleik.

Næstu fréttir sem bárust af honum voru sorglegar en hann hafði þá látist af slysförum í Danmörku í byrjun júlí aðeins um þremur mánuðum eftir að hann hafði staðið fyrir tónleikunum. Hann var þá einungis 22 ára gamall. Aldrei varð með nokkru vitað hvað í raun gerðist en ein sagan sagði að hann hefði fallið út um glugga á þriðju hæð í húsi í Kaupmannahöfn og látist samstundist.

Vernharður Linnet sagði löngu síðar í grein í Morgunblaðinu að sögusagnir hefðu um það gengið að Jonni í Hamborg hefði á þeim stutta tíma sem hann bjó í Kaupmannahöfn tekið upp plötu með píanóleik sínum, sú plata hefur aldrei fundist.

Þar með var fallinn frá sá tónlistarmaður sem án efa hefði getað staðið fyrir frekari uppgangi djasstónlistarinnar hérlendis á þessum árum ásamt þeim Svavar Gests og Kristjáni Kristjánssyni, sem fóru um svipað leyti til náms í New York og komu þaðan með nýja strauma.

Minningartónleikar voru haldnir 1996 í Gamla bíói (og á Hótel KEA á Akureyri) í tilefni af því að fimmtíu ár voru þá liðin síðan tónleikarnir frægu voru haldnir þar, þá var efnisskráin sú sama og Björn R. Einarsson (einn þeirra sem var í sveit Jonna) var þar á meðal flytjenda.